Norska nóbelnefndin veitir Nelson Mandela og F.W de Klerk friðarverðlaunin Tileinka þau sáttum milli svartra og hvítra Ósló. Reuter. NELSON Mandela, einn helsti leiðtogi blökkumanna í Suður-Afríku, og F.W. de Klerk, forseti landsins, fengu í gær...

Norska nóbelnefndin veitir Nelson Mandela og F.W de Klerk friðarverðlaunin Tileinka þau sáttum milli svartra og hvítra Ósló. Reuter.

NELSON Mandela, einn helsti leiðtogi blökkumanna í Suður-Afríku, og F.W. de Klerk, forseti landsins, fengu í gær friðarverðlaun Nóbels fyrir það, sem þeir hafa gert til að binda enda á yfirráð hvítra manna í landinu. Þjóðarleiðtogar víða um heim fögnuðu verðlaunaveitingunni.

Í tilkynningu norsku nóbelnefndarinnar sagði, að með því að vinna að sáttum í stað þess dvelja við gamlan ójöfnuð, hefðu þeir sýnt mikið hugrekki og lagt hornstein að nýju lýðræði í Suður-Afríku.

"Verðlaunin eru ekki aðeins fyrir Mandela og mig, heldur allt það fólk, sem unnið hefur að því að koma á lýðræðislegu stjórnarfari í Suður-Afríku," sagði de Klerk í Höfðaborg í gær. Mandela kvaðst tileinka verðlaunin öllu því fólki, svörtu og hvítu, sem lagt hefði sitt af mörkum til að koma á sáttum og sagðist mundu vinna áfram að friði, frelsi og réttlæti fyrir alla landsmenn.

Reuter

Friðflytjendur

ÞAÐ var mikill fögnuður í aðalstöðvum Afríska þjóðarráðsins þegar fréttist, að þeir Mandela og de Klerk hefðu fengið friðarverðlaun Nóbels. Hér er verið að skæala fyrir tíðindunum en á hinni myndinni er de Klerk ásamt Marike, konu sinni, og barnabarni sínu, þriggja ára gömlum snáða.