Kiwanishreyfingin gefur Bergiðjunni nýtt hús KIWANISMENN afhentu Ríkisspítulum á miðvikudag nýtt hús sem reist hefur verið á lóð Kleppsspítala undir starfsemi Bergiðjunnar. Húsið var byggt fyrir fjármagn sem safnaðist á K-degi 1992.

Kiwanishreyfingin gefur Bergiðjunni nýtt hús

KIWANISMENN afhentu Ríkisspítulum á miðvikudag nýtt hús sem reist hefur verið á lóð Kleppsspítala undir starfsemi Bergiðjunnar. Húsið var byggt fyrir fjármagn sem safnaðist á K-degi 1992. Í Bergiðjunni starfa geðsjúkir við framleiðslu ýmissa hluta, s.s. garðhellna og -húsgagna, leikfanga og sportfatnaðar. Bygging hússins kostaði 12 milljónir, var boðin út í alútboði og sá Húsanes í Keflavík um verkið.

Bergiðjan naut afraksturs K-dags í fyrstu tvö skiptin, 1971 og 1974, og fyrir féð sem þá safnaðist var reist húsið Víðihlíð á lóð Kleppsspítala þar sem Bergiðjan hefur starfað frá 1976. Starfsemi Bergiðjunnar er tvískipt, annars vegar er iðju- og starfsþjálfun fyrir þá sem enn eru á spítalanum og hins vegar geta þeir sem lengra eru komnir - búa á sambýlum eða á eigin vegum - starfað hálfan daginn í Víðihlíð sem er verndaður vinnustaður. Þeir sem þar vinna fá laun, tæplega 200 krónur á klukkustund, en þeir eru allir á örorkubótum einnig. Á þeim starfsmönnum Bergiðjunnar sem eru í meðferð á Kleppsspítala er gert starfsmat einu sinni í viku og launin ákvörðuð eftir niðurstöðu þess.

Fjölbreytt framleiðsla

Að sögn Jóhannesar Sigurðssonar, forstjóra Bergiðjunnar, er framleiðslan mjög fjölbreytt og með nýja húsinu verður hægt að fara út í framleiðslu á hlutum sem ekki var aðstaða til í Víðihlíð. Framleiðslan er árstíðabundin, á haustin eru framleiddir hlutir sem eru seldir fyrir jólin, s.s. kertastjakar, jóladúkar, jólatréstandar og skreytingar og síðan taka sumarvörur við; garðhúsgögn, blómaker, garðhellur o.fl. Bergiðjan starfar í samvinnu við Prentsmiðjuna Guðjón Ó. við samsetningu á tékkheftum, þ.e. röðum á blöðum sem ekki er hægt að vinna í vélum, hún framleiðir póstkassa fyrir Póst & síma og pakkar vikri fyrir B.M. Vallá, svo eitthvað sé nefnt. Í Bergiðjunni starfa um 60 manns í hálfum störfum og auk þess 7 manns í stjórnunarstörfum, iðnaðar- og skrifstofumenn.

Alheimsforseti Kiwanis viðstaddur

Davíð Á. Gunnarsson, forstjóri Ríkisspítala, þakkaði kiwanismönnum gjöfina fyrir hönd Ríkisspítala og Tómas Zo¨ega læknir tók á móti henni fyrir hönd geðdeildar Landspítala úr hendi Sæmundar Sæmundssonar sem afhenti honum skjöld frá Kiwnismönnum þar sem gerð var grein fyrir gjöfinni. Viðstaddir afhendinguna voru m.a. Eyjólfur Sigurðsson sem ýtti K-deginum úr vör ásamt fleiri mönnum árið 1971, Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, og Arthur Swanberg, alheimsforseti Kiwanishreyfingarinnar og eiginkona hans, Alice.

Morgunblaðið/Sverrir

Skjöldur til staðfestingar

Tómas Zo¨ega tekur við skildi úr hendi Sæmundar Sæmundssonar og saman hengdu þeir hann upp á vegg. Á skildinum er gerð grein fyrir gjöfinni en húsið er byggt fyrir fé sem safnaðist á K-degi kiwanismanna árið 1992.

Morgunblaðið/Sverrir

Bergiðjan

Í nýja húsinu verður aðstaða fyrir ýmsa steypuvinnu, svo sem framleiðslu kantsteina og garðhellna, á jarðhæð og aðra léttari framleiðslu á efri hæð.