Korpúlfsstaðanefnd leggur til að Korpúlfsstaðir verði endurbyggðir Tillagan liggur nú fyrir borgarráði Korpúlfsstaðanefnd hefur samþykkt að leggja til að Korpúlfsstaðir verði steyptir upp að nýju samkvæmt tillögu byggingadeildar borgarverkfræðings.

Korpúlfsstaðanefnd leggur til að Korpúlfsstaðir verði endurbyggðir Tillagan liggur nú fyrir borgarráði Korpúlfsstaðanefnd hefur samþykkt að leggja til að Korpúlfsstaðir verði steyptir upp að nýju samkvæmt tillögu byggingadeildar borgarverkfræðings. Tillagan var samþykkt með fimm atkvæðum gegn atkvæði Sigurjóns Péturssonar borgarfulltrúa. Tillögunni var síðan vísað til borgarráðs þar sem hún bíður afgreiðslu.

Morgunblaðið sneri sér til formanns Korpúlfsstaðanefndar, Huldu Valtýsdóttur, og spurði hana um stöðu mála. Hún sagði: "Korpúlfsstaðanefnd hefur fjallað um það allt frá árinu 1989 hvernig best skyldi staðið að varðveislu Korpúlfsstaðahússins og endurbyggingu þess svo þar mætti reka alhliða menningarmiðstöð á vegum Reykjavíkurborgar. Rökin fyrir varðveislu hússins eru margþætt og m.a. þessi:

Þeim atvinnumannvirkjum, sem reist voru af stórhug á fyrstu áratugum þessarar aldar í Reykjavík, fer nú óðum fækkandi. Kveldúlfshúsin í Skuggahverfinu eru horfin og byggingar Sláturfélags Suðurlands við Skúlagötu munu víkja innan tíðar. Af þeim fáu byggingum sem eftir standa eru Korpúlfsstaðir ekki einungis einstæð bygging í atvinnusögulegu tilliti. Húsið er einnig mjög merkilegt frá sjónarhóli íslenskrar byggingarsögu. Í hugmynd þess er fólgin stórbrotin framtíðarsýn aldamótakynslóðarinnar um háþróað tæknisamfélag nýrrar aldar byggt á grunni fornrar bændamenningar. Byggingin er í raun verksmiðja, þaulskipulögð að innan með hliðsjón af notagildi og vinnuhagræðingu, en í ytra útliti klædd í búning rómantískrar þjóðernishyggju í byggingarlist. Sem slík á byggingin sér engar hliðstæður hérlendis og fáar í nálægum löndum. Þá er ótalið umhverfisgildi hússins. Ímynd þess er orðin óaðskiljanlegur hluti af ásýnd borgarinnar, þar sem það blasir á tilkomumikinn hátt við einni helstu aðkomuleiðinni inn í borgina. Hætt er við að mörgum þætti aðkoman að Reykjavík frá norðri vart svipur hjá sjón, ef Korpúlfsstaðahúsið yrði jafnað við jörðu. Með endurbyggingu Korpúlfsstaða er verið að varðveita eitt merkasta hús í byggingar- og atvinnusögu þessarar aldar. Ráðgert er að endurhanna innra rými hússins með hliðsjón af nýju hlutverki, en ytra útlit hússins verður með upprunalegu sniði.

Mörg fordæmi

Mismunandi aðferðir eru notaðar við endurgerð og varðveislu húsa. Annars vegar er reynt að gera við og nýta eins og mögulegt er upprunalega hluti viðkomandi byggingar. Hins vegar er byggingin endurbyggð úr nýju efni, en í upprunalegri mynd. Mörg fordæmi eru fyrir því að endurnýja þurfi einstaka efnishluta bygginga að einhverju eða öllu leyti, jafnt burðarvirki þeirra sem veðurhjúp. Má minna á pagóður og hof Austurlanda, sem staðið hafa í árhundruð á sama stað og með sama útliti, enda þótt hinn efnislegi hlutur (þ.e.a.s. byggingin) hafi margoft verið endurnýjaður á því tímabili, í kjölfar bruna og náttúruhamfara.

Korpúlfsstaðir og sú starfsemi sem þar fer fram mun gegna mikilvægu hlutverki fyrir þann nýja borgarhluta, sem nú er óðum að rísa á Grafarvogs- og Borgarholtssvæðinu. Þegar fram líða stundir má sjá Korpúlfsstaði fyrir sér sem eins konar þungamiðju svæðisins milli Grafarvogs og Mosfellssveitar. Korpúlfsstaðahúsið er mikilvæg söguleg og menningarleg tenging fyrir þetta umhverfi, fátt er um önnur mannvirki sem minna á fortíðina. Reynslan sýnir, að menningarstofnanir með fjölþætt aðdráttarafl geta haft mikla þýðingu fyrir þau íbúðarsvæði er næst þeim liggja og má í því sambandi minna á gildi Árbæjarsafns fyrir Árbæjarog Seláshverfi, Kjarvalsstaða og Miklatúns fyrir Hlíðahverfið, Háskólans og Norræna hússins fyrir vesturbæinn og forsetasetursins á Bessatöðum fyrir Álftanesið. Það má ef til vill segja, að skortur á viðlíkri menningarstofnun sé þáttur í þeirri neikvæðu svefnbæjarímynd, sem loðað hefur við Breiðholtshverfin.

Út frá skipulagslegum forsendum er það tvímælalaust hyggilegra að hafa Korpúlfsstaði sem lifandi listamiðstöð, heldur en dauðar rústir. Fjárfesting í Korpúlfsstöðum er um leið fjárfesting í því svæði, sem verða mun helsti vaxtarbroddur borgarinnar á næstu árum.

Treysta menningarímynd

Korpúlfsstaðir treysta menningarímynd Reykjavíkurborgar og þannig auka þeir á möguleika Reykjavíkur sem ferðamannaborgar. Þó að flestir ferðamenn komi hingað til lands til að skoða náttúruna, þá hafa listasöfnin einnig mjög mikið aðdráttarafl. Listasöfn eru meðal þess sem flestir ferðamenn skoða í erlendum borgum.

Spyrja mætti: Er það sparnaður að hætta við Korpúlfsstaði? Ef svo færi þyrfti að byggja menningarmiðstöð með bókasafni og félagsaðstöðu fyrir þetta hverfi, sem aldrei yrði jafn stórbrotin og Korpúlfsstaðalistamiðstöðin, en yrði vafalítið hátt í 500.000.000 framkvæmd. Slík hverfismiðstöð myndi aldrei ná að höfða til þess breiða hóps sem Korpúlfsstaðir gætu. Á sama tíma yrði að efna loforð um rými eða hús fyrir Errógjöfina, ef til vill annað hús upp á sömu upphæð. Listasafn Reykjavíkur á sér ekkert rými nema einn sal að Kjarvalsstöðum, sem vart annar eftirspurn undir einkasýningar íslenskra listamanna. Og svo skulum við ekki gleyma því að eitthvað verður að gera við Korpúlfsstaði, annað hvort verður að rífa húsið eða endurbyggja og það kostar sitt. Þegar upp er staðið erum við kannski að tala um mjög svipað fjármagn, sem dreifast myndi í smærri en ómarkvissari verkefni."