Utanríkisráðherra um framtíð Íslenskra aðalverktaka á Keflavíkurflugvelli Ákvarðanir teknar að afloknum samningum um varnir landsins Viðtal Agnes Bragadóttir JÓN Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra, segir tveggja kosta völ, að því er varðar framtíð...

Utanríkisráðherra um framtíð Íslenskra aðalverktaka á Keflavíkurflugvelli Ákvarðanir teknar að afloknum samningum um varnir landsins Viðtal Agnes Bragadóttir

JÓN Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra, segir tveggja kosta völ, að því er varðar framtíð Íslenskra aðalverktaka. Annar sé sá að sameignaraðilarnir leysi til sín sinn eignarhlut og leggi félagið niður, og hinn sé sá að reyna að halda starfsemi Aðalverktaka áfram. Jón Baldvin sagði í samtali við Morgunblaðið að hann teldi síðari kostinn vænlegri og kvaðst vilja reyna hann til þrautar. Eigið fé Aðalverktaka var um síðustu áramót 3,3 milljarðar króna. Ríkið á 52% í Aðalverktökum, eða 1.716 milljónir króna, Sameinaðir verktakar eiga 32%, eða 1.056 milljónir króna og Reginn, sem Hömlur hf. eignarhaldsfélag Landsbankans eiga, á 16% eða 528 milljónir króna.

"Væri fyrri kosturinn valinn, þá væri lokið þeirri sögu að til væri hér á landi öflugt, verkhæft verktakafyrirtæki. Sumir myndu fagna því ákaflega, sérstaklega fjölskyldurnar sem eiga Sameinaða verktaka, sem eiga 32% í Aðalverktökum. Fjölskyldurnar hafa fullan hug á því að leysa til sín peningana. En það myndu einnig aðrir fagna, sem segðu af ýmsum ástæðum: "Farið hefur fé betra"," segir Jón Baldvin.

Einokunargróði

"Síðari kosturinn, sá að halda félaginu áfram í krafti meirihlutavalds ríkisins, kemur í veg fyrir að fjölskyldurnar geti leyst til sín einokunargróðann, sem hið pólitíska vald fyrri tíðar skenkti þeim, ranglega," segir utanríkisráðherra.

Jón Baldvin sagði að þegar hann hefði í góðri samvinnu við Thor Ó. Thors heitinn, samið um meirihlutaeign ríkisins í Aðalverktökum, sumarið 1990, hefði sú ákvörðun byggst á þeirri framtíðarsýn að þótt brugðið gæti til beggja vona með verktöku á vegum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, væri þetta félag engu að síður handhafi gagnlegrar reynslu og þekkingar, sem væri þess virði að halda saman. "Ég taldi og tel rétt að í landinu sé til eitt öflugt verktakafyrirtæki sem getur boðið erlendum verktakafyrirtækjum byrginn, þegar kemur að nýju framkvæmdatímabili á Íslandi. Hvort heldur sem það verður við stórvirkjanir eða aðra meiriháttar mannvirkjagerð. Ég nefni sem dæmi byggingu álvers," segir Jón Baldvin.

Utanríkisráðherra segir það alltaf hafa legið ljóst fyrir að ákveðinn hópur fjölskyldnanna sem að Sameinuðum verktökum standa, hafi engan áhuga á verktakastarfsemi og láti sig engu skipta hvað verður um Aðalverktaka og starfsfólk fyrirtækisins.

Almenningshlutafélag

­ Í ágúst 1990, eftir að ríkið hafði eignast meirihluta í Aðalverktökum, gafst þú fyrirtækinu fimm ára aðlögunartíma, og veittir því einkarétt til framkvæmda á vegum varnarliðsins í Keflavík til fimm ára. Á þessum tíma sagðir þú að unnið yrði að því að breyta Aðalverktökum í almenningshlutafélag. Nú eru liðin rúm þrjú ár, og hvergi bólar á almenningshlutafélaginu. Hvað tefur?

"Það er rétt, að þeim var gefinn framhaldandi einkaleyfi á forsendum aðlögunar. Fljótlega eftir að það var ákveðið upphófst óvissutímabil um framhald umsaminna framkvæmda. Búið var að semja í tvíhliða samningum Íslands og varnarliðsins um framhaldsframkvæmdir sem náðu til lengri tíma en þessa fimm ára aðlögunartímabils. En breyttar aðstæður ollu því að fjármögnun þessara framkvæmda var og er í fullkominni óvissu. Það var ekki fyrirséð þegar ég tók þá ákvörðun að halda fyrirtækinu saman. Þegar fullkomin óvissa ríkir um verk verktakafyrirtækis, er ekki mjög auðvelt að selja áhættuna almenningi. Svo einfalt er svarið við því hvers vegna Aðalverktakar eru ekki orðnir að almenningshlutafélagi."

Utanríkisráðherra segir að sú tækniþekking sem byggð hafi verið upp í höndum íslenskra aðila með starfsemi Kögurs hf. og ratsjárstöðvabygginga, hafi raunar lagt grunninn að því að Aðalverktakar gætu orðið meiriháttar verktaki erlendis, með hátækniþekkingu, verkfræðilega reynslu og fjárhagslega burði. "Þetta taldi ég vera það mikil verðmæti, að það væri skammtímarugl að vilja leysa félagið upp og gera það að engu. Ég er enn þeirrar skoðunar að þetta hafi verið rétt stefna," segir Jón Baldvin.

"Við erum núna að semja við Bandaríkin um framtíð varnarsamstarfsins. Þeim samningum er ekki lokið. Ég ætla enga ákvörðun að taka um framtíð Aðalverktaka fyrr en þeim samningum er lokið."