Felixverðlaunin kynnt í Háskólabíói EVRÓPSKA kvikmyndaakademían kynnir helgina 16.­17. október Felixverðlaunin í Reykjavík í samvinnu við Háskólabíó.

Felixverðlaunin kynnt í Háskólabíói

EVRÓPSKA kvikmyndaakademían kynnir helgina 16.­17. október Felixverðlaunin í Reykjavík í samvinnu við Háskólabíó. Sýndar verða fjórar myndir sem hlotið hafa þessi eftirsóttu verðlaun sem veitt verða í sjötta sinn í desember í Berlín.

Myndirnar sem verða sýndar eru Riff-Raff eftir breska leikstjórann Ken Loach sem valin var besta evrópska mynd ársins 1991, Il Ladro di Bambini (Stolnu börnin) eftir Ítalann Gianni Amelio sem sigraði 1992, The Northerners eftir Hollendinginn Alex van Warmerdam sem var valinn besta mynd ungs leikstjóra 1992 og Sweet Emma, Dear Böbe eftir hinn heimsþekkta ungverska leikstjóra István Szabó en handrit hans að myndinni var valið það besta í Evrópu 1992.

Í tilefni af kynningu þessari heimsækja Ísland góðir gestir á vegum Evrópsku kvikmyndaakademíunnar. Sænski heimildarleikstjórinn og heiðursfélagi akademíunnar, Erwin Leiser, kynnir myndirnar. Auk hans verða viðstödd sýningar myndanna breski leikarinn Robert Carlyle sem leikur aðalhlutverkið í Riff-Raff, Johanna ter Seege sem tilnefnd var til verðlauna sem besta leikkona fyrir leik sinn í Sweet Emma, Dear Böbe og Enzo Porcelli, framleiðandi Stolnu barnanna.

Dagskrá Felixhátíðarinnar verður sem hér segir: Laugardaginn 16. október verður myndin Sweet Emma, Dear Böbe sýnd kl. 5, The Northerners kl. 7, Riff-Raff kl. 9 og Stolnu börnin verða sýnd kl. 11. Sunnudaginn 17. október er myndin Riff-Raff sýnd kl. 5, Stolnu börnin kl. 7, The Northerners kl. 9 og Riff-Raff verður einnig sýnd kl. 11.