Allt sem býr í þokunni Færeyski málarinn Zacharías Heinesen sýnir í Gallerí Borg Í skáldsögum sínum málaði William Heinesen myndir úr litrófi orðanna; myndir af stórbrotnu, hrjóstrugu, skörpu landslagi sem er umvafið bláum fjarska óendanleikans sem sést...

Allt sem býr í þokunni Færeyski málarinn Zacharías Heinesen sýnir í Gallerí Borg Í skáldsögum sínum málaði William Heinesen myndir úr litrófi orðanna; myndir af stórbrotnu, hrjóstrugu, skörpu landslagi sem er umvafið bláum fjarska óendanleikans sem sést frá eyjunum, hvítri þoku þagnarinnar þar sem grillir í ljóstýrur frá heimum sem eru huldir mannsauganu og á stangli híma hvít, rauð og svört húsin, lágreist og kyrr í dalverpum og hlíðum ­ og um allt dansa glataðir snillingar og ástin hleypur í gamla og unga; sýnileg og ósýnileg og er oft ráðandi afl um lífshlaup manna sem búa á þessum hættulega stað úti í ballarhafi ­ þar sem hverri mínútu er lifað eins og hún sé sú seinasta.

Og nú kemur Zacharias Heinesen, sonarsonur Williams, og málar sögur með olíulitum á striga; sögur um allt sem býr í þokunni og óendanleikanum. Ástríður og tilfinningar sem einkenna þá sem lifa ætíð á ögurstund birtast í sterkum, heitum litum sem dansa á striganum og formin eru sótt í línur bátanna í mistrinu, lögun húsa í húminu og inn á milli og allt um kring rýfur birtan þögnina og splundrar formunum; endurskapar haf og land og hús og báta og sjóndeildarhring og stöðugt fæðist nýtt augnablik.

xpressjón eða abstrakt? "Færeyskir málarar í dag eru mjög expressjónískir," segir Zacharias, sem segja má að sé fremstur í flokki jafningja í sínu heimalandi ­ en eru færeyskir myndlistarmenn ekki einangraðir?

"Nei, síður en svo. Við sýnum mikið á Norðurlöndum, í Skotlandi og í Norður-Þýskalandi. Reyndar hef ég líka verið með sýningu í París ­ en auðvitað komu aðallega Danir þangað og keyptu myndirnar mínar. Ég hef líka málað altaristöflu í kirkju í Slésvík. Þar er dönsk kirkja og presturinn er færeyskur og hann vildi hafa færeyska altaristöflu.

Það er mjög gott að vera myndlistarmaður í Færeyjum, vegna þess að Færeyingar kaupa mikið af myndlist ­ hvort heldur er um að ræða einstaklinga, banka, fyrirtæki eða opinberar stofnanir. Fyrir nokkrum árum opnaði líka Norðurlandahúsið í Þórshöfn, sem hefur opnað leið fyrir sýningar frá Norðurlöndum til Færeyja og fyrir okkur til annarra Norðurlanda. í sumar var líka vígt nýtt listasafn í Færeyjum og það hefur gerbreytt aðstöðu okkar. Nú höfum við stað til að sýna á og verk okkar eru aðgengileg fyrir Færeyinga.

Annars eru vondir tímar núna í Færeyjum. Eyjarnar eru farnar á hausinn; unga fólkið yfirgefur hús sín og fer til Danmerkur. Húsin standa auð og bankarnir vita ekkert hvað þeir eiga að gera við þau. Þeir sitja með fjármagnið fast í þessum eignum sem þeir geta ekki selt. Fiskvinnslu er haldið í lágmarki, þannig að það er helst verkafólk og skrifstofufólk sem fer."

Er ekki atgervisflótti hjá ykkur?

"Nei, það er svo merkilegt að menntafólkið og listamennirnir fara hvergi. Það eru núna 42.000 íbúar í eyjunum og það sagt að okkur þurfi að fækka niður í 35.000 íbúa. Það hafa mest verið 50.000 manns búsett í eyjunum, en það virðist vera að þær geti ekki borið fleiri en 35.000."

Hvar kynntist þú myndlistinni?

"Ég kynntist henni mjög ungur. Málarinn Mikines vann með föður mínum og var mikill vinur hans og þegar ég var krakki kynntist ég mikið starfandi listamönnum í Færeyjum. Auk þess var mikið til af bókum um evrópska listamenn á heimili mínu. Ég byrjaði snemma að teikna og var heillaður af möguleikum litanna.

Þegar ég var tvítugur sá ég í dagblaði að auglýst væri eftir Færeyingi til að fara í Myndlista- og handíðaskólann á Íslandi. Ég sótti um og fékk skólavist. Hér var ég í einn vetur og kann síðan íslensku og þekki íslenska listamenn ­ sérstaklega frá þeim tíma. Ári síðar fór ég til Kaupmannahafnar og stundaði nám við Akademíuna þar í þrjú ár, var þar samtíða nokkrum Íslendingum, til dæmis Tryggva Ólafssyni.

Ég valdi strax málverkið. Og hversvegna? Ja, aðallega vegna þess að ég hafði svo einstaka ánægju af því að vinna með liti og þegar náminu í Kaupmannahöfn var lokið fór ég í fjögurra mánaða ferð um Evrópu; ég þræddi allar þær borgir sem höfðu mikil listasöfn og skoðaði listasöguna með eigin augum. Ég vildi sjá allt sem gert hafði verið áður en ég færi aftur heim."

En þótt þú hafir valið þér málverkið, hafa verk þín tekið nokkrum breytingum í gegnum árin.

"Já, til að byrja með málaði ég melst fígúratívar myndir en einkenni mín komu strax í ljós; þessir sterku litir, landslagið, bátarnir og höfnin. Þetta er óþrjótandi efni; birtan breytist svo hratt og það verða svo ólíkar stemmningar á mjög stuttum tíma. Það má segja að myndefnið hjá mér hafi ekki breyst, en það hefur þróast. Á sýningunni hér í Gallerí Borg koma fjögur til fimm mótív fyrir aftur og aftur í myndunum mínum; mótív frá Þórshöfn og Hójvik. Ég mála mest á þessum tveimur stöðum."

Þú málar mikið í bláum litum sem hefur þótt einkenna íslenska málara.

"Já, en við höfum líka þennan bláa lit fjarlægðarinnar og bláa lit mystískra afla. Á sumrin eru litirnir í Færeyjum mjög sterkir ­ og ekki bara í landslaginu, því við málum húsin okkar í sterkum litum, mest rauðum, mikið hvítum og stundum svörtum, svo þau standa út úr landslaginu."

Hvernig er svo menningarlífið í Færeyjum?

"Það er á mikilli uppleið. Listgreinarnar eru ungar hjá okkur, eins og ykkur. En fyrir utan grósku í myndlistinni, hefur leiklistarstarfsemi aukist til muna. Við erum nú með góðan hóp atvinnuleikara, sem hafa lært hér og í Árósum og sá hópur er að efla leikhúslífið hjá okkur til muna, svo okkur leiðist ekki.

Stjórnvöld í Færeyjum eru líka að byrja að gera sér grein fyrir því að listsköpunin er það sem gerir okkur sérstök; skilur okkur frá öðrum þjóðum. Því er verið að efla þá þætti sem að henni lúta í samfélaginu. Og við erum svo heppin að hafa viðmiðun. Mikines er okkar Kjarval. Hann var mjög sterkur málari. Það er einkenni á okkur hvað við tjáum tilfinningar okkar og vitund á afgerandi hátt. Kannski vegna þess að Mikines var sterkur og enginn vill vera veikari en hann.

ssv

Zacharías Heinesen