Umboð kært til Samkeppnisráðs KÆRA hefur borist Samkeppnisstofnun frá aðila sem telur að söludeild notaðra bíla hjá P.

Umboð kært til Samkeppnisráðs

KÆRA hefur borist Samkeppnisstofnun frá aðila sem telur að söludeild notaðra bíla hjá P. Samúelssyni, umboðsaðila Toyota-bifreiða, hafi hækkað verð á bílum skömmu áður en afsláttur var gefinn af bílunum á sérstökum útsöludögum.

Sigrún Kristmannsdóttir lögfræðingur hjá Samkeppnisstofnun segir að í samkeppnislögum sé sérstakt ákvæði um útsölur og þar segi að ekki megi auglýsa útsölur nema um raunverulega verðlækkun sé að ræða. Þar segi einnig að þess skuli gætt að greinilegt sé með verðmerkingum hvert hið upprunalega verð vörunnar var. "Í þessu tilfelli var kvartað yfir því að afslátturinn hefði ekki verið veittur frá upprunalegu verði," sagði Sigrún.

Sigrún kveðst eiga von á því að niðurstaða liggi fyrir í málinu innan fárra daga. Hún segir þó að aðkallandi sé að fá niðurstöðu sem allra fyrst í þetta mál þar sem slíkar útsölur á notuðum bílum séu yfirstandandi þessa dagana. Sigrún segir að sett sé ákveðið gangverð á notaða bíla sem er viðmiðunarverð frá umboðunum. Þegar bílarnir eru í sölumeðferð er þetta verð oft lækkað. Spurningin snúist því um það hvort auglýsa ætti afslátt á útsölum frá gangverði bíls eða því verði sem síðast var sett á bílinn.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, staðfesti í samtali við Morgunblaðið, að kæra hefði borist Neytendasamtökunum frá einstaklingi sem fullyrði í bréfi til samtakanna að nokkrum dögum áður en útsala hófst á notuðum bílum hjá Toyota hefði hann séð tvo tilgreinda bíla á öðru og lægra verði en auglýst var sem fyrra verð. Jóhannes sagði að samtökunum hefði þótt rétt að Samkeppnisstofnun fjallaði um málið. "Þetta er ekki í fyrsta sinn sem það fréttist að seljendur geri svona. Það koma á hverju ári kvartanir vegna fataverslana, viðtækjaverslana og fleiri aðila. Það eru ávallt einhver brögð að þessu og þetta eru villandi upplýsingar og lögbrot," segir Jóhannes.

Erfiðir bílar í sölu

Skúli S. Skúlason, sölustjóri hjá Toyota, segir að þarna sé um að ræða tvo bíla sem eru erfiðir í sölu. "Við gefum út leiðbeinandi verð fyrir okkar bíla og notum samskonar verð frá öðrum umboðum. Þegar við setjum bíla fyrst á sölu eru sett á þá leiðbeinandi staðgreiðsluverð. Seljist þeir ekki eftir nokkrar vikur lækkum við verðið. Fyrir útsöluna sá umræddur maður þessa bíla sem hafa verið lengi til sölu hjá okkur og þar af leiðandi verið lækkaðir í verði. Þegar að útsölu kemur þurfum við að útskýra fyrir kaupendum hvað er raunverulegur afsláttur frá staðgreiðsluverði. Þá setjum aftur staðgreiðsluverð á bílinn og veitum afslátt frá því," segir Skúli.