Götuvísa gefin út í Þýskalandi SKÁLDSAGAN Götuvísa gyðingsins eftir Einar Heimisson var fyrir skömmu gefin út í Þýskalandi af Forum-Verlag í Leipzig, í þýðingu Olivers Nyuls.

Götuvísa gefin út í Þýskalandi

SKÁLDSAGAN Götuvísa gyðingsins eftir Einar Heimisson var fyrir skömmu gefin út í Þýskalandi af Forum-Verlag í Leipzig, í þýðingu Olivers Nyuls. Heinrich-Böll-stofnunin gekkst fyrir útgáfuhátíð í Romanushaus í Leipzig, og las Einar þar úr bók sinni. Einar hefur nú lesið úr bókinni í 14 borgum á þýska málsvæðinu. Bókmenntakynningarsjóður styrkti útgáfu Götuvísu gyðingsins á þýsku.

Í umsögn, sem birtist í útbreiddasta dagblaði austurhluta Þýskalands, Leipziger Volgszeitung, segir Matthias Schmidt (í íslenskri þýðingu Baldurs Ingólfssonar):

"Skáldsagan "Ins Land des Winters" (Til vetrarlandsins), sem nýlega kom út hjá forlaginu Forum í Leipzig, skipar öruggan sess meðal þeirra bóka sem athygli vekja . . . í ár.

Ástæðan er ekki aðeins sú að hér vita menn nær ekkert um Ísland, svo ekki sé talað um íslenskar bókmenntir, nema ef til vill það að árið 1955 fékk Halldór Laxness bókmenntaverðlaun Nóbels.

Athugum málið betur: Bók Einars Heimissonar, sem er aðeins tuttugu og sex ára gamall, talar sitt eigið mál, bæði að efni og stíl. Einar hefur dvalist í Þýskalandi og stundað þar nám síðan 1986, og upplestur hans í Romanushaus í Leipzig var í samræmi við grunntóninn í bókartexta hans, sem er rólegur og jarðbundinn, næstum hvíslandi, en fyrst og fremst skáldlegur . . . Það sem einkennir bók hans er að hann beitir tilfinninganæmu máli þegar hann lýsir Íslandi sem landi síbreytilegrar birtu, einstæðu landi þar sem á veturna ríkir nær samfellt myrkur en langir dagar hafa völdin á sumrin. Einari Heimissyni, sem hefur lokið doktorsnámi í sagnfræði, hefur auðnast að skapa eigin málstíl með því að flétta saman frásagnarstíl og skáldamáli."

Hans-Joachim Ballschmieter, gagnrýnandi hjá ráðgjafarnefnd þýskra bókasafna, þ.e. stofnun á vegum hins opinbera, sem veitir umsögn um bækur, segir í dómi sínum:

"Frásögnin styðst augsýnilega við nákvæmar rannsóknir og er rituð af innlifun og laus við mærð. Einstaklega hreinskilin bók . . . Ég mæli eindregið með því að athygli safngesta sé beint að henni (og að lesendur velti sjálfir efni hennar fyrir sér)."