Marta Guðjónsdóttir - viðbót Hvað getur maður skrifað á blað, þegar svo margt kemur í hugann? Hlutir sem áður voru ómerkilegir, eru núna allt í einu orðnir að minningu sem maður heldur í af öllu afli. Ég sá ömmu mína seinast í maí við brúðkaupið okkar Luc. "Sendu nú ömmu gömlu kort, ef þú hefur tíma í brúðkaupsferðinni," sagði hún við mig þegar við kvöddumst.

Ég sendi henni kort með nokkrum línum, en lét margt ósagt, hluti sem ég ætlaði að segja henni þegar við kæmum til Íslands um jólin. Í staðinn biðjum við bæn í dag. Guð blessi minningu þína, amma mín.

Luc, Berglind og Páll Leroy,

Martinique.