Marta Guðjónsdóttir - viðbót Í dag verður jarðsungin frá Eyvindarhólakirkju tengdamóðir mín, Marta Guðjónsdóttir, sem lengst af ævi sinnar bjó ásamt eiginmanni sínum, Andrési Andréssyni, í Berjanesi undir Eyjafjöllum.

Ég kynntist þeim hjónum fyrst sumarið 1976, þegar ég dvaldist hjá þeim við landbúnaðarstörf. Kynni mín af Andrési heitnum urðu skemmri en ég hefði óskað, en hann fékk heilablóðfall í árslok 1976, og lést nokkrum árum síðar.

Kynnin af Mörtu heitinni urðu lengri. Hún var nánast nágranni okkar frá því að börnin mín og Katrínar, yngstu dóttur hennar, fæddust. Þar áttu þau ætíð víst og öruggt athvarf, ef við þurftum á barnagæslu að halda og seint verður saman talið allt það prjónles er okkur barst frá henni. Og þess nutu fleiri. Þegar hún kvaddi þennan heim var hún með plögg á prjónunum sem ætluð voru yngsta barnabarninu. Hún var ætíð boðin og búin til að rétta hjálparhönd, ef henni bauð í grun að slíks væri þörf.

Hvað ungur nemur, gamall temur. Marta var ólöt við að kenna barnabörnum sínum fyrri tíðar fróðleik, sem gjarnan var í bundnu máli og festist því betur í minni. Í vísum þessum felast jafnan heilræði til handa hverjum þeim sem með þær fer.

Líkt og margt samferðafólk Mörtu kynntist hún tímunum tvennum á lífsleiðinni og oftar en ekki mun leiðin hafa verið þyrnum stráð. Ég leyfi mér að ætla að hún hafi líka fagnað leiðarlokum, enda naut hún þeirrar náðar að halda andlegri og líkamlegri heilsu fram í andlátið, þótt hjartað væri raunar farið að gefa sig.

Fyrir hönd konu minnar og barna vil ég þakka samverustundirnar og hjálpfýsina á liðnum árum. Hvíl þú í friði.

Ingis Ingason.