Minning Sigríður Jónsdóttir Ég átti því láni að fagna að kynnast Siggu lítilsháttar síðustu tíu ár ævi hennar. Fyrir þau kynni er ég þakklátur Guði. Væntanlega munu aðrir fjalla um störf hennar að tónlistarmálum. Þar nutu sín hæfileikarnir til að starfa með fólki og byggja það upp.

Þeir hæfileikar reyndust einnig dýrmætir á þeim vettvangi sem ég stafaði mest með Siggu ­ í samstarfi KFUK og KFUM. Hún lagði alltaf áherslu á nærgætni og hlýju sem kom sér vel í viðkvæmum málum. Ég minnist þess að einu sinni var ég tillitslaus við hana á fundi og mér leið ekki vel fyrr en ég hafði fullvissað mig um að hún erfði það ekki við mig. Það var óbærileg tilhugsun að hafa sært hana eða gert á hlut hennar.

Í minningunni er Sigga björt og fögur, heið og sviphrein. Hún gat verið föst fyrir en var sanngjörn og laus við sýndarmennsku.

Þrátt fyrir margþætt störf sín að tónlistar- og félagsmálum skilur Sigga mest eftir sig sem eiginkona og móðir. Hún átti góðan og traustan eiginmann sem stóð við hlið konu sinnar í allri þjáningu hennar. Drengirnir þeirra þrír bera vitni um gott heimili og farsælt uppeldi ­ allir einstaklega vel gerðir, duglegir og ábyrgir.

Kæru vinir, Pétur, Sigurður, Gunnar Þór og Hannes. Missir ykkar er mikill og söknuðurinn nístandi. En þið vitið að böl og dauði eiga ekki síðasta orðið. Ekkert getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs. Upprisa Krists gefur okkur von eilífs lífs. Í þeirri von lifði og dó Sigga. Þess vegna hvílir hún nú óhult í faðmi Guðs, þar sem hvorki er til þjáning né dauði heldur er Guð allt í öllu.

Megi sú vissa styrkja ykkur í sorg ykkar. "Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist." (I. Kor. 15:57)

Ólafur Jóhannsson.