Tómas G. Gunnarsson fjallar um leirur og mikilvægi þeirra fyrir lífríkið.: "Leirur í þéttbýli eru eins konar óbyggðir í byggð og hafa gildi sem slíkar á tímum hraðrar þéttbýlismyndunar."

SJÁVARLEIRUR myndast þar sem fíngert set safnast fyrir í skjólsælum víkum og vogum. Hlutdeild lífræns efnis og kornastærð setsins ráða mestu um eiginleika leirunnar og hversu aðlaðandi hún er fyrir lífverur. Leirur eru eitt mikilvægasta búsvæði margra fuglategunda sem sækja í mergð hryggleysingja, einkum orma, smávaxin skeldýr og mýflugulirfur. Þéttleiki fugla á leirum er með því mesta sem gerist, miðað við önnur búsvæði, en miklar árstíðasveiflur eru í fjölda. Flestir fuglar fara um á fartíma vor og haust og á sumum leirum er lítið að gerast fyrir utan þennan mikilvæga tíma.

Sá hópur fugla sem reiðir sig hvað mest á leirur eru vaðfuglar. Til dæmis tjaldur, heiðlóa, sandlóa, stelkur, jaðrakan, lóuþræll og sendlingur. Hundruð þúsunda hánorrænna vaðfugla sem fara um Ísland vor og haust á leið til Grænlands og Kanada eru einnig háð leirum. Sumir þessara hánorrænu fugla kæmust raunar ekki alla leið til varpstöðvanna ef "bensínstöðva" í íslenskum fjörum nyti ekki við. Í frostköldum vorum gegna leirur lykilhlutverki við vernd íslenskra mófugla sem geta þá fátt annað farið.

Vegna mikils fuglalífs á leirum og þess að þær liggja lágt í landinu er fuglaskoðun óvíða auðveldari eða áhugaverðari. Leirur henta því vel til kennslu og rannsókna. Raunar er skilningur manna á fæðuvistfræði og samspili bráðar og afræningja í heiminum að stórum hluta til fenginn með rannsóknum á leirum þar sem auðvelt er að fylgjast með fuglum eltast við hryggleysingja á tvívíðum fleti. Leirur myndast helst á skjólsælum stöðum. Þar sem skjólið fer saman við mikið fuglalíf myndast aðstæður sem gott er að nýta við kennslu. Margir kennarar vita af þessu og nýta leirur til kennslu á öllum skólastigum. Því má segja að leirur í þéttbýli séu sérstaklega mikilvægar fyrir rannsóknir og kennslu vegna aðgengis. Þar sem bæir hafa oft byggst upp þar sem skjólsælt er, t.d. við fjarðabotna og voga, þá eru lífríkar leirur oft innan bæjarmarka.

Á höfuðborgarsvæðinu eru margar leirur sem eru mikilvægar fyrir fuglalíf: Leiruvogur, Grafarvogur, Fossvogur, Kópavogur og Hvaleyrarlón svo einhverjar séu nefndar. Borgarvogur og leirur við Borgarnes eru einstakar, leirur við ósa Eyjafjarðarár og leirur í Hornafirði eru allt leirur við þéttbýli sem hafa alþjóðlegt mikilvægi fyrir fuglalíf.

Leirur eru ekki bara mikilvægar fyrir þær lífverur sem dvelja á og í þeim, því þær eru líka stórvirkir kolefnissvelgir. Þær binda gróðurhúsalofttegundir og binding á flatareiningu er mikil. Leirur eru það sjaldgæfar og mikilvægar að forðast ætti í lengstu lög að eyðileggja meira af þeim en þegar hefur verið gert. Ef leirur eru engu að síður skertar ætti að bæta það upp með metnaðarfullum mótvægisaðgerðum sem taka bæði tillit til líffræðilegra þátta og efnahagslegra vegna skertrar kolefnisbindingar. Hægt er að endurheimta uppfylltar leirur og jafnvel búa til nýjar. Einnig mætti hugsa sér að eitthvert mótvægi væri falið í að endurheimta votlendi inn til landsins því það eru mikið til sömu tegundir fugla sem nýta leirur og fersk votlendi. Líkt og leirur bindur votlendi inn til landsins mikið kolefni á sjálfbæran hátt en nær öllu votlendi á landinu hefur verið raskað. Kostnaður við mótvægisaðgerðir ætti alltaf að vera hluti af kostnaðaráætlun við gerð mannvirkja sem spilla leirum og öðrum náttúruverðmætum.

Það að leirur og þéttbýli myndast oft á sömu stöðunum þýðir að árekstrar eru tíðir. Landfyllingar virðast freista, og þverun víkna og voga með vegagerð hefur spillt mörgum leirum. Á höfuðborgarsvæðinu einu hefur mörgum af frjósömustu leirum landsins verið spillt. Leiru Elliðavogs var spillt með uppfyllingu sem er hundaklósett og kallast í daglegu tali Geirsnef. Hvaleyrarlón í Hafnarfirði hefur mátt þola þrengingar úr öllum áttum og eftir situr lítill blettur. Gufunesvík var fyllt af sorpi og Arnarnesvogur er nær horfinn.

Dæmi um einstæðar leirur sem til stendur að raska eru við Hornafjörð, Djúpafjörð og Grunnafjörð. Grunnafjörður nýtur raunar alþjóðlegrar friðlýsingar en hann er eitt aðeins þriggja Ramsarsvæða á landinu. Ramsarsamningurinn á að veita vernd votlendi, sem hefur sérstaka og alþjóðlega þýðingu fyrir fuglalíf. Grunnafjörður er raunar hið eina þeirra þriggja íslensku Ramsarsvæða sem ekki hefur verið spillt með framkvæmdum. Hin eru Þjórsárver og Mývatn.

Leirur eru nauðsynlegar fyrir fugla og einnig mikilvægar fyrir hryggleysingja og sem uppeldisstöðvar nytjafiska s.s. skarkola. Leirur eru stórvirkar í kolefnisbindingu en með hraðari loftslagsbreytingum er æ meiri þörf á slíku. Þá eru leirur hentugur vettvangur kennslu og rannsókna því að þær eru lífauðugar og aðgengilegar. Leirur í þéttbýli eru eins konar óbyggðir í byggð og hafa gildi sem slíkar á tímum hraðrar þéttbýlismyndunar. Það eru því góðar ástæður til að hvetja til að allsnægtaþjóðin hlífi þessu sjaldgæfa en mikilvæga búsvæði eins og kostur er.

Höfundur er forstöðumaður Háskólaseturs Snæfellsness.