Staðall Baráttan gegn kynbundu launamisrétti var þema á kvennafrídeginum Kannski staðall geti orðið að liði?
Staðall Baráttan gegn kynbundu launamisrétti var þema á kvennafrídeginum Kannski staðall geti orðið að liði? — Morgunblaðið/Júlíus
Nýsjálendingar voru fyrstir allra þjóða til að veita konum almennan kosningarétt og kjörgengi árið 1893, en Danir og Norðmenn fylgdu eftir árið 1913.
Nýsjálendingar voru fyrstir allra þjóða til að veita konum almennan kosningarétt og kjörgengi árið 1893, en Danir og Norðmenn fylgdu eftir árið 1913. Raunar höfðu ýmsar nýlendur Breta og Wyoming-fylki í Bandaríkjunum veitt konum kosningarétt áður, en sá réttur var bundinn við eign á landi.

Nú hafa Nýsjálendingar enn að nýju tekið stórt skref í átt að jafnrétti kynjanna og að þessu sinni er um að ræða staðal sem tryggja á konum sanngjörn laun og sambærileg tækifæri í öllum störfum.

Þetta gerðist í lok síðasta árs og staðallinn heitir fullu nafni á ensku "NZS 8007:2006 Gender-inclusive Job Evaluation".

Þetta kemur fram í síðasta hefti Staðlamála, fréttabréfs sem gefið er út af Staðlaráði Íslands.

Gegn vanahugsun

Í staðlinum er að finna leiðbeiningar sem vinnuveitendur geta fylgt, skref fyrir skref, þegar þeir leggja mat á störf starfsmanna sinna, segir ennfremur í umfjöllun Staðlamála um málið.

Gefin eru góð ráð í sambandi við skipulagningu og undirbúning starfsmats og höfuðáhersla er lögð á að matsferlið sé gagnsætt og sanngjarnt með tilliti til beggja kynja. Auk þess eru í staðlinum leiðbeiningar um innri úttektir, en það er aðferð til þess að meta hvernig til tókst með starfsmatið og hvort það skili í raun því sem stefnt var að.

Þetta er íhugunarefni fyrir nýja ríkisstjórn hérlendis, en launaleynd og starfsmat hafa verið ofarlega á baugi í umræðum upp á síðkastið.

Byggt á fordómum

Formaður tækninefndarinnar, sem sá um gerð staðalsins á Nýja-Sjálandi, Philippa Hall, bendir á að launamismunur stafi ekki af því að vinnuveitendur ætli sér að mismuna fólki eftir kyni. Mismunun eigi sér rætur í fordómum og vanahugsun um þætti eins og ábyrgð, hæfni og kröfur sem tengdar eru tilteknum störfum.

"Til dæmis má nefna störf þar sem konur eru fjölmennar, störf sem krefjast sömu hæfni og heimilisstörf, að elda mat, þrífa og annast um börn eða ósjálfbjarga fólk. Litið er á hæfni til slíkra starfa sem "náttúrulega" fremur en að hún hafi verið lærð og þar með eru störfin vanmetin," segir Philippa Hall. David Shannon, sérfræðingur í starfsmati, segir staðalinn fela í sér bestu aðferðir sem tíðkaðar eru við mat á störfum í fyrirtækjum af öllu tagi.

Þessi hugsun er sannarlega umhugsunarverð enda er hinn svokallaði óútskýrði launamismunur milli kynjanna landlægur hérlendis og lítið virðist hafa miðað í átt að launajafnrétti undanfarna áratugi á Íslandi, þrátt fyrir góðan vilja og skeleggar yfirlýsingar stjórnmálamanna.

Þörf á íslenskum staðli

Á Nýja-Sjálandi er kynbundinn launamismunur til staðar og staðlinum er ætlað að bæta úr þessu misrétti eða öllu heldur gefa leiðbeiningar um hvernig hægt er að bæta úr því.

Á Nýja-Sjálandi er tímakaup kvenna nú 85,3% af tímakaupi karla og spennandi verður að sjá hvort hinn nýi staðall getur breytt þeirri staðreynd þegar fram í sækir.

Á Íslandi er óútskýrður launamunur kvenna og karla sem kunnugt er um 15%, körlum í hag. Í Staðlamálum er þeirri spurningu varpað fram hvort íslensk samtök, sem berjast fyrir jafnrétti kynjanna, hafi áhuga á íslenskum staðli sem nota mætti til þess að vinna gegn kynbundnum launamun á kerfisbundinn hátt. Kannski er þetta mál sem nýkjörin ríkisstjórn ætti að láta sig varða, Íslendingar hafa lengi verið framarlega í baráttunni gegn misrétti kynjanna og ættu án alls efa að skoða hvort hægt er að bæta úr því með gerð staðals að hætti Nýsjálendinga.