— Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hundrað ár eru í dag liðin frá því fyrsti sjúklingurinn var lagður inn á Kleppsspítala. Markmiðið var að létta vanda af heimilum geðsjúkra og búa hinum veiku mannsæmandi dvalarstað.

Hundrað ár eru í dag liðin frá því fyrsti sjúklingurinn var lagður inn á Kleppsspítala. Markmiðið var að létta vanda af heimilum geðsjúkra og búa hinum veiku mannsæmandi dvalarstað. Allar götur síðan hefur Kleppur, eins og spítalinn er gjarnan kallaður, verið samofinn sögu geðlækninga og -hjúkrunar hér á landi. Þegar mest var dvöldust ríflega 300 sjúklingar á Kleppi en þrengsli settu svip á starfsemina langt fram eftir síðustu öld. Í dag hefur þungamiðja geðlækninga flust inn á geðsvið Landspítala – háskólasjúkrahúss og Kleppur er fyrst og fremst endurhæfingarmiðstöð.

Ég leyfi mér, við þetta tækifæri að geta þess, að engir sjúklingar hér á landi eru svo illa settir sem hinir geðsjúku, þar sem ekki er að finna eitt einasta geðveikrahæli hér á landi, og ég þekki mörg dæmi þess, að vegna þessara aðstæðna og til þess að gera þannig sjúklinga hættulausa, hafa menn neyðst til þess að grípa til þeirra villimannlegu aðgerða að loka sjúklingana inni í þröngum kössum með litlu opi fyrir framan andlitið. Þessir kassar eru síðan settir í eitthvert útihús til þess að sjúklingarnir trufli ekki ró annarra."

Þannig kemst Þorgrímur Johnsen héraðslæknir að orði í ársskýrslu sinni 1871 en hann mun fyrstur manna hafa vakið athygli á þessu vandamáli hér á landi. Í kjölfarið spannst nokkur umræða um málið en því var eigi að síður drepið á dreif í stjórnkerfinu í rúma þrjá áratugi og menn slógu úr og í með þörfina fyrir geðsjúkrahæli, að sögn Óttars Guðmundssonar geðlæknis en hann vinnur nú að ritun sögu Kleppsspítala sem koma mun út á bók með haustinu.

Í byrjun tuttugustu aldarinnar komst aftur hreyfing á málið að frumkvæði dansks læknis sem starfaði hér á landi, Christians Schierbecks. Hann fór að berjast fyrir réttindum geðsjúkra, m.a. með blaðaskrifum, og bauðst til að byggja lítið hæli fyrir eigin reikning og reka það sjálfur. Málið fór fyrir Alþingi, sem tók því vel, en fékk hvorki framgang hjá ráðuneyti né konungi. Að sögn Óttars móðgaðist Schierbeck við það, hvarf af landi brott og sneri aldrei aftur. Barátta Schierbecks var þó ekki til einskis og samþykkt var á Alþingi árið 1905 að byggja geðsjúkrahæli sem hýsa myndi fimmtíu sjúklinga. Mátti verja til byggingarinnar 90 þúsund krónum úr Landssjóði en það voru hvorki meira né minna en 7,5% af heildarupphæð fjárlaga ársins 1906. Spítalanum var valinn staður á afskekktri jörð í Reykjavík, Kleppi, en á þessum tíma var talið æskilegt að búa geðsjúkum rólegt og fallegt heimili utan alfaraleiðar. Framkvæmdir gengu hratt og örugglega fyrir sig og tveimur árum síðar var Kleppsspítali risinn.

Ákveðið var að Þórður Sveinsson, sem þá var nýútskrifaður sem kandídat, yrði fyrsti yfirlæknir spítalans og fór hann utan með styrk landsstjórnarinnar til að nema geðlækningar, fyrst í Danmörku og síðar Þýskalandi. Þórður sneri heim árið 1907 og tók við Kleppi.

Fyrsti sjúklingurinn var lagður inn 27. maí 1907, Arnbjörn Arnbjörnsson bóndi úr Árnessýslu. Hann útskrifaðist 48 árum síðar – látinn. Óttar segir ekkert feimnismál að birta nafn Arnbjörns en lát hans var á sínum tíma tilkynnt í blöðunum.

Kleppsspítali fylltist fljótlega – og rúmlega það. Sjötíu sjúklingar voru komnir inn í þessi fimmtíu rúm. "Það bar m.ö.o. snemma á vandamálinu sem átti eftir að hrjá spítalann alla tuttugustu öldina, þrengslum," segir Óttar og bætir við að talið sé að á bilinu 130 til 150 geðsjúkir hafi verið í landinu þegar Kleppur var settur á laggirnar. "Og þá erum við að tala um mjög alvarlega veikt fólk."

Aðstandendur þurftu í upphafi að borga með sjúklingunum, ýmist 50 aura eða krónu á dag, eftir aðstæðum.

Urðu innlyksa á Kleppi

Hugmyndir manna um geðsjúkrahús á þessum tíma voru á þann veg að það væri heimili. Fólk sem ritaðist þar inn var ekki talið líklegt til að snúa aftur út í þjóðfélagið. Enda var það svo að á fyrstu áratugunum urðu margir innlyksa á Kleppi.

Óttar segir aðbúnað sjúklinga hafa verið ákaflega bágborinn vegna þrengslanna. "Fólki sem þekkti hvorki haus né sporð hvað á öðru var hrúgað inn á stóra sali, átta til tólf voru á hverri stofu og sjúklingarnir höfðu varla nokkurt eigið rými. Ekki einu sinni náttborð. Fólkið var allt klætt í spítalaföt og hafði lítið fyrir stafni."

Samhliða læknisstörfum sínum rak Þórður Sveinsson stórt bú á Kleppi og þótti búmaður góður. Síðustu árin sem hann lifði var bústjóri fenginn að búinu, Tryggvi Guðmundsson.

Þórður leit svo á, líkt og venjan var á þessum tíma, að hollt væri fyrir sjúklingana að vinna að bústörfum enda komu þeir að langmestu leyti úr sveitum landsins. Á vetrum voru konurnar í ullar- og tóvinnu og karlarnir skáru tóbak og fleira.

Vinnulækningar voru alþekktar úti í heimi á þessum tíma og rímaði þetta vel við þau fræði. Róandi lyf voru líka komin fram á sjónarsviðið en Þórður hafði, að sögn Óttars, litla trú á þeim og notaði þau ekki, nema helst magnyl.

Hafði mikla trú á vatnslækningum

Þess í stað notaði Þórður vatn mikið við lækningar sínar. Það notaði hann á tvo vegu. Annars vegar útvortis, þ.e.a.s. setti sjúklinga í heit og köld böð. "Það var viðtekin trú manna um allan heim að þetta væri góð aðferð til að kljást við geðveiki. Kalda baðið var notað til að gera fólki bylt við og róa það þannig niður en heita baðið var notað til að draga alla orku úr jafnvel hraustustu skrokkum. Voru menn látnir liggja í 45° heitu baði jafnvel í nokkra klukkutíma ef með þurfti," segir Óttar.

Hins vegar notaði Þórður svokallaðar innvortis vatnslækningar og segir Óttar að hann sé þekktastur fyrir þær. "Þær fóru fram með þeim hætti að sjúklingurinn var sveltur í talsverðan tíma, allt upp í nokkrar vikur, og lifði einungis á 55° heitu vatni. Þetta var því einskonar vatns- og sveltimeðferð. Þessari aðferð beitti hann líka á inflúensuveikt fólk þegar spænska veikin gekk yfir landið."

Sjálfur skrifaði Þórður lítið um lækningar sínar en Óttar segir að í viðtölum hafi honum orðið tíðrætt um að geðsjúkir svitnuðu ekki. Fyrir vikið þyrfti að fá þá til að svitna, annað hvort með heitu baði eða drykkju heits vatns.

Óttar segir Þórð hafa haft gríðarlega trú á vatnslækningunum og verið sannfærðan um að hann væri að "svelta" sjúkdóminn. "Inn í þetta blandaðist að Þórður var einn helsti spíritisti landsins og hafði ákveðnar hugmyndir um það að geðsjúkdómar stöfuðu – a.m.k. að einhverju leyti – af yfirnáttúrulegum fyrirbærum. Hann var því að reyna að reka illa anda eða verur á lægri tilverustigum út úr sjúklingunum. Þetta var opinbert leyndarmál og kom m.a. skýrt fram í minningargreinum sem skrifaðar voru um Þórð."

Langtímaáhrif lítil sem engin

Óttar segir skammtímaáhrif vatnslækninga yfirhöfuð vera ágæt. "Það segir sig sjálft að jafnvel hraustustu menn róast verulega við að leggjast í 45° heitt bað. Langtímaáhrifin hafa þó að líkindum ekki verið mikil ef nokkur. Sömu sögu má segja um svelti- eða vatnsmeðferðina. Eftir langvarandi svelti eru menn ekki líklegir til mikilla átaka."

Óttar segir allt sem tíðkaðist á Kleppi í tíð Þórðar Sveinssonar hafa verið í takti við þær lækningar sem stundaðar voru í nágrannalöndunum á þessum tíma – nema innvortis vatnslækningarnar. Menn hafi verið hættir að nota þær erlendis. Innlagnir og útskriftir voru hlutfallslega svipaðar og á Norðurlöndunum og greiningaraðferðir líka.

Óttar segir aðferðina hafa verið umdeilda og Þórður hafi á köflum legið undir ámæli. Læknar hafi m.a. kvartað til landlæknis. Hann aðhafðist þó ekki í málinu.

Þrátt fyrir þetta segir Óttar Þórð hafa verið ákaflega vel liðinn mann og vinsælan meðal sjúklinga sinna. "Hann þótti gríðarlega vel gefinn, fróður og skemmtilegur maður. Hann var líka alþýðlegur og þekkti alla sjúklinga sína með nafni."

Spítalanum skipt í tvennt

Árið 1919 hófust framkvæmdir við Nýja-Klepp. Þeim lauk tíu árum síðar og stendur sú bygging ennþá í óbreyttri mynd. Arkitekt var Guðjón Samúelsson. Þegar nýja byggingin var tekin í notkun, 1929, var starfsemi Klepps tvískipt. Þórður hélt áfram að starfa sem yfirlæknir á Gamla-Kleppi en fenginn var nýr yfirlæknir á Nýja-Klepp, Helgi Tómasson. Fyrst um sinn voru 100 rými á Nýja-Kleppi. "Þetta leysti húsnæðisvanda spítalans um skeið en innan áratugar var allt komið í sama farið aftur," segir Óttar.

Fram til ársins 1939, er Þórður lét af störfum, var rekin gjörólík meðferð á þessum tveimur spítölum á sömu lóðinni. Helgi var nýbúinn að verja doktorsritgerð sína í Kaupmannahöfn og fór strax að reka mjög nútímalega geðdeild á Nýja-Kleppi. "Helgi er frumkvöðull nútímageðlækninga í landinu. Hann kom með lyfjameðferð af ýmsu tagi að utan og í hans tíð var Nýi-Kleppur mjög lyfjamiðaður spítali meðan Gamli-Kleppur var áfram vatnsmiðaður. Helgi var mjög nútímalegur læknir og mikill vísindamaður. Skrifaði m.a. mikið um lyflækningar sínar og aðferðirnar sem hann var að þróa."

Jónas frá Hriflu rak Helga

Fljótlega eftir að Helgi kom til starfa lenti hann upp á kant við þáverandi dómsmálaráðherra, Jónas Jónsson frá Hriflu. Úr varð svokallað Stórubombumál sem öll þjóðin fylgdist með af athygli.

Tómas Helgason, sonur Helga og síðar yfirlæknir á Kleppi, segir að upphaf málsins hafi verið sérkennilegar embættisveitingar og ofsafengin viðbrögð Jónasar á næstliðnum tveimur árum, sem læknar og aðrir, bæði pólitískir samherjar og mótherjar, höfðu orðið varir við. Faðir hans fór í vitjun til Jónasar í febrúar 1930 og lagði þar til að ráðherrann tæki sér frí þar sem margt sem hann hafði gert næst á undan hefði orkað tvímælis. "Eruð þér að bjóða mér á Klepp?" mun Jónas þá hafa spurt.

Í kjölfarið ritaði Jónas grein í Tímann þar sem hann hélt því fram að Helgi hefði úrskurðað sig geðveikan. Málið vakti mikla athygli og blönduðu fleiri menn sér í það. Tómas segir föður sinn í upphafi ekki hafa haft áform um að svara ráðherranum opinberlega en á endanum séð sæng sína uppreidda. Þessum viðskiptum lauk með því að Jónas rak Helga 30. apríl 1930. "Það kom boðsent bréf þar sem föður mínum var gert að rýma læknisbústaðinn fyrir hádegi daginn eftir," segir Tómas.

Við tók Lárus Jónsson en að sögn Óttars skildi hann ekki eftir sig djúp spor í geðlækningasögu þjóðarinnar. Helgi fékk uppreisn æru í nóvember 1932 og tók aftur við starfi yfirlæknis á Nýja-Kleppi. Þegar Þórður hætti árið 1940 voru spítalarnir tveir sameinaðir undir stjórn Helga. Gegndi hann starfi yfirlæknis allt til dauðadags árið 1958.

Útrýmdi þvingunartækjum

Helgi var ekki aðeins frábrugðinn Þórði í lækningaaðferðum, hann tók sjúklingana líka öðrum tökum. Þannig lét hann útrýma öllum þvingunartækjum, beltum, ólum og spennitreyjum, fljótlega eftir endurkomuna 1932. Í stað þess að óla sjúklinga niður lét hann halda þeim niðri með mannafli, auk þess sem þeir voru sprautaðir með róandi lyfjum ef á þá rann æði.

Óttar segir erfitt að finna heimildir um samskipti Þórðar og Helga. Ekkert bendi þó til þess að fátt hafi verið með þeim. "Nálgunin var vissulega ólík en erfitt er að segja til um það hvernig þeim gekk að vinna saman. Sennilega hafa samskipti þeirra ekki verið mikil. Jónas frá Hriflu getur um það í endurminningum sínum að Helgi hafi neitað að starfa undir stjórn Þórðar á Kleppi. Þess vegna hafi spítalanum verið skipt í tvennt. Þetta hef ég hins vegar ekki fengið staðfest annars staðar."

Tómas segir samskipti föður síns og Þórðar alla tíð hafa verið með ágætum og sjálfur vingaðist hann við syni Þórðar enda þótt þeir væru eldri en hann.

Raflosti ekki beitt á Kleppi

Rafrotið eða raflostið ruddi sér til rúms í geðlækningum á árunum eftir seinna stríð og varð á skömmum tíma ein mest notaða aðferðin í Bandaríkjunum og Evrópu. Helgi tók á hinn bóginn eindregna afstöðu gegn raflostinu, taldi aðferðina hættulega og var henni ekki beitt í hans tíð á Kleppi.

Í kjölfarið kom upp undarleg staða í geðlækningum á Íslandi en flestir aðrir geðlæknar voru hlynntir raflostinu. Sú aðferð var þar af leiðandi stunduð víða um bæ, á elliheimilinu Grund, Farsóttarsjúkrahúsinu og Hvítabandinu. En ekki á Kleppi. "Þetta kemur vel fram í héraðsskýrslum frá þessum tíma en þá skrifa læknar að sjúklingar séu t.d. sendir í raflost á elliheimilinu Grund þar sem ekki sé hægt að koma þeim inn á Klepp. Þarna voru skýrar línur dregnar og um þetta deilt. Þær deilur náðu inn á síður dagblaðanna og var m.a. talað um "ófremdarástand" vegna þvermóðsku yfirlæknisins á Kleppi," segir Óttar.

Tómas var andsnúinn raflækningum eins og faðir hans. Fyrir vikið voru raflækningar ekki stundaðar á Kleppi fyrr en á áttunda áratugnum. Þá heimilaði Tómas læknum á spítalanum að nota þá aðferð á eigin ábyrgð. "Það var ekki auðveld ákvörðun en kollegar mínir sóttu þetta fast og ég bar virðingu fyrir þeirra sýn á starfið. Þess vegna gaf ég þeim þetta leyfi," segir Tómas. Raflosti beitti hann aldrei sjálfur.

Hann segir andúð þeirra feðga fyrst og fremst hafa byggst á því að þeim þótti aðferðin ómannúðleg. "Raflostið var hálfgerð hrossalækning. Hleypt var straumi gegnum heilan á fólki sem olli krampa. Það bar á minnistruflunuum fyrst á eftir og í sumum tilvikum urðu varanlegar breytingar."

Lögðust gegn lóbótómíu

Lóbótómía var einnig komin til sögunnar á þessum árum. Lóbótómía, sem nefnist á góðri íslensku hvítuskurður eða geiraskurður, er skurðaðgerð þar sem hluti heilans er annað hvort skemmdur eða fjarlægður. Yfirleitt er átt við skurðaðgerð á fremsta hluta heilans í ennisgeira (sem einnig nefnist ennisblöð) og kallast þá ennisgeiraskurður. Ennisgeiraskurður getur stundum linað andlegar þjáningar fólks en veldur líka miklum og oft alvarlegum persónuleikabreytingum.

Óttar segir þessar aðgerðir í sumum tilvikum hafa haft áhrif og dregið úr einkennum sjúklingsins. "Afleiðing aðgerðarinnar var sú að sjúklingurinn varð viðráðanlegri. Á móti kom að lóbótómían breytti mjög persónuleika sjúklingsins. Hann varð mjög flatur."

Helgi var frá upphafi mótfallinn lóbótómíu og var henni aldrei beitt á Kleppi. Hún var á hinn bóginn iðkuð á Landakoti, auk þess sem einhverjir Íslendingar voru sendir til Kaupmannahafnar í aðgerð.

Óttar segir að sagan fordæmi lóbótómíuna en viðurkenni gildi raflækninga. "Lóbótómían leið undir lok þegar nýju geðlyfin komu upp úr 1950 en raflækningar hafa fyrir löngu sannað gildi sitt sem ágæt lækningaaðferð. Þær eru stundaðar hér á landi sem annars staðar í dag."

Tómas hefur ekki skipt um skoðun á raflostinu en segir aðferðina bærilegri í dag en áður vegna þess að sjúklingum sé gefin vöðvaslakandi lyf sem dragi úr krömpum og meðferðin sé ekki sambærileg við það sem áður var.

Þrátt fyrir mótlætið hélt Helgi ótrauður áfram lyflækningum og ekki dró það úr honum kjarkinn þegar nútímageðlyf komu til sögunnar snemma á sjötta áratugnum. Má þar nefna Largactil sem var mest notað. Var hann trúr sinni hugmyndafræði allt til dauðadags. Kleppur var með fyrstu geðspítölunum á Norðurlöndum sem hóf að nota nýju geðlyfin og segir Tómas þau hafa gjörbreytt andrúmsloftinu á spítalanum. "Lyfin snardrógu úr hugvillu og ofskynjunum og það varð mun auðveldara að tala við sjúklingana og fá þá til að tala við læknana og hjúkrunarfræðingana. Þarna var strax kominn grundvöllur fyrir úrræðum sem við þekkjum í dag, svo sem samfélags-, hóp- og fjölskyldumeðferð."

Óttar segir nýju geðlyfin hafa dugað mun betur á einkenni sjúklinga en eldri lyfin og á einni nóttu gjörbreyttust geðlækningar í heiminum. Aðstæður urðu allt aðrar á geðdeildum, fólk var útskrifað í auknum mæli og gat í mörgum tilfellum lifað eðlilegu lífi. "Þetta voru mikil kraftaverkalyf, það er ekki hægt að orða það öðruvísi."

Samhliða lyflækningunum notaðist Helgi mikið við vinnulækningar eða iðjuþjálfun, dyggilega studdur af Guðríði Jónsdóttur hjúkrunarfræðingi sem innleiddi nýjar aðferðir á því sviði.

Yfir 300 sjúklingar á lóðinni

Á árunum 1951-52 var tekin í notkun enn ein viðbygging á Kleppi, ætluð fyrir 35 manns, og á sjötta áratugnum náði sjúklingafjöldi hámarki í sögu spítalans. Þá voru þar yfir 300 manns á lóðinni.

Óttar segir að þetta hafi verið gamaldags geðdeildir og eigið rými sjúklinga af skornum skammti. "Það var lítið við að vera og fyrir vikið mikið um átök, pústra og pirring. Vegna þrengsla gat einn órólegur sjúklingur haldið vöku fyrir mörgum tugum sjúklinga. Þetta var mjög erfitt ástand."

Við andlát Helga, 1958, tók Þórður Möller við stöðu yfirlæknis á Kleppi og árið 1961 var Tómas Helgason, sem hafði nýlokið doktorsnámi í geðlækningum, ráðinn í stöðu prófessors og yfirmanns spítalans. Störfuðu þeir hlið við hlið uns Þórður lést árið 1975. "Þórður var ákaflega vandaður maður og var samstarf okkar alla tíð mjög gott. Það komst ekki hnífurinn upp á milli okkar," segir Tómas.

Það er merkileg tilviljun að Þórður Möller andaðist sama mánaðardag og Helgi Tómasson, 2. ágúst, og í sama húsinu, læknisbústaðnum á Kleppi.

Tómas stýrði Kleppi allar götur til 1997 að hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. "Tómas hélt áfram á sömu braut og faðir hans og þetta tímabil endurspeglar sögu geðlækninga í heiminum á þessu árabili," segir Óttar. "Nýju lyfin, sem farið er að þróa æ meira, setja svip sinn á allt starfið og farið er að útskrifa fleira fólk en áður. Þá voru búin til ný búsetuúrræði, t.d. voru langlegusjúklingar í auknum mæli sendir að Ási í Hveragerði, til Stykkishólms og víðar. Þetta var gert til að létta á spítalanum."

Heilsuspillandi þrengsli

Tómas segir það hafa verið sitt fyrsta verkefni að rýmka til á spítalanum. "Það voru 300 sjúklingar á Kleppi þegar ég tók við. Til samanburðar má geta þess að í dag eru þeir 70 og þykir það engin ofrausn. Þrengslin voru í sjálfu sér heilsuspillandi og ég man eftir að hafa talað um það strax í byrjun sjöunda áratugarins á landsfundi Samtaka íslenskra sveitarfélaga að æskilegt væri að sveitarfélögin tækju þátt í því að skaffa húsnæði fyrir geðsjúka. Á þeim tíma höfðu þau ekki bolmagn til þess."

Smám saman komst hreyfing á málið, m.a. vegna frumkvæðis Guðríðar Jónsdóttur sem setti á laggirnar heimili fyrir sjúklinga á Reynimel 55 árið 1967 og rak það sjálf þangað til hún gaf spítalanum húsið árið 1973. Kleppur fékk líka aðgang að húsnæði á Laugarásvegi, í Hátúni og víðar.

Starfsemi göngudeildar Klepps hófst árið 1964 og var hún í fyrstu fólgin í eftirmeðferð sjúklinga sem voru útskrifaðir af spítalanum.

1973 var Gamla-Kleppi lokað og honum gjörbreytt. Óttar segir það hafa verið tímabært enda hafi gamli spítalinn verið úr sér genginn. "Þetta var timburhús og eldhætta orðin mikil." Í nýja húsinu er nú matstofa fyrir starfsfólk og dagdeild.

Horfið frá einangrun spítalans

Á sjöunda áratugnum var horfið frá þeirri hugmyndafræði að geðsjúkrahús eigi að vera einangrað, líkt og Kleppur hafði verið frá upphafi. "Það varð alþjóðleg vakning í þessum efnum og menn fóru að átta sig á því að það er skaðlegt fyrir einstakling að vera lengi inni á stofnun. Menn gerðu sér grein fyrir því að sjúklingarnir urðu þar ósjálfbjarga – urðu stofnuninni beinlínis að bráð," segir Óttar.

Farið var að leita annarra úrræða. Innlögnum var fækkað og ef sjúklingur þurfti að leggjast inn var það meðvituð stefna að reyna að útskrifa hann sem allra fyrst aftur. Á sama tíma var farið að koma sjúklingunum með markvissum hætti út í samfélagið aftur, kaupa húsnæði utan spítalalóðarinnar. Þetta hefur þróast jafnt og þétt síðan og í dag er stefnan að sjúklingar búi ýmist einir í sínum íbúðum eða á sambýlum og taki sem allra mestan þátt í samfélaginu. Á hundrað árum hefur hugmyndafræðin farið í heilhring. Um aldamótin 1900 árum var stefnan að leggja sem allra flesta geðsjúklinga inn og láta þá liggja sem allra lengst inni en í dag er markmiðið að leggja sem fæsta inn og ef þeir þurfa að leggjast inn að þeir liggi inni sem allra styst. Þetta er í algjöru samræmi við það sem hefur verið að gerast í nágrannalöndunum," segir Óttar.

Vatnaskil í geðlækningum

Vatnaskil urðu í sögu geðlækninga á Íslandi þegar geðdeild Borgarspítalans tók til starfa sumarið 1968, fyrst klíniskra deilda á spítalanum. Þar með var búið að rjúfa ríflega sextíu ára langa einangrun geðsjúkra í landinu. Fyrsti yfirlæknir deildarinnar var Karl Strand en Hannes Pétursson tók við af honum 1982.

Geðdeild Landspítalans var opnuð árið 1979 og sameinuð Kleppsspítala. Sjúkrahús Reykjavíkur og Ríkisspítalarnir sameinuðust árið 2000 og þar er nú þungamiðja geðlækninga í landinu. Segir Óttar það mikið gæfuspor þar sem brýnt sé að eyða fordómum í garð geðsjúkra. Það sé best gert með því að rjúfa einangrun geðdeilda og starfrækja þær við hlið annarra sjúkrahúsdeilda. "Það er án efa stærsta afrek Tómasar Helgasonar að hafa flutt geðdeildina frá Kleppi og á Landspítalann."

Tómas er sammála því að þetta hafi borið hæst í tíð hans í starfi. "Meginmálið var að brjótast út úr einangruninni til að draga úr fordómunum. Það þykir ekki eins voðalegt að leggjast inn á geðdeild og leggjast inn á Klepp. Annars væri auðvitað best að starfrækja geðdeild í miðbænum svo fólk geti séð það með eigin augum að geðsjúklingar eru bara venjulegt fólk."

Óttar segir að göngudeildarþjónustan sé brjóstvörn geðlækninga í dag. "Það er það sem allt gengur út á, þ.e. göngudeildir, heimaþjónusta og vettvangsteymi. Allt gengur út á að gera sjúklingunum kleift að búa úti í samfélaginu – að þeir þurfi ekki að vera á Kleppi." Hlutverk Klepps hefur fyrir vikið gjörbreyst á umliðnum tveimur áratugum. Spítalinn er ekki lengur vettvangur bráðatilfella, heldur geðdeild Landspítala – Háskólasjúkrahúss. Um sjötíu sjúklingar eru að vísu á legudeildum á Kleppi en spítalinn er fyrst og fremst endurhæfingarstofnun. "Kleppur er ekki lengur deigla geðlækninga á Íslandi," segir Óttar. "Hér eru að vísu ennþá króniskar deildir, aðallega vegna skorts á húsnæði annars staðar. Á þeim er fólk sem verið hefur hér lengi og ekki hefur tekist að koma aftur út í samfélagið. Að öðru leyti er Kleppur endurhæfingardeild, þ.e. fólk leggst hérna inn í endurhæfingu í ákveðinn tíma eða þjálfun til að fara út í lífið. Það er eðlileg þróun að með tímanum hefur Kleppur breyst í ellilífeyrisþega á flókaskóm."

Í hnotskurn
» 1907. Kleppsspítali tekur til starfa.
» 1929. Nýi-Kleppur opnar.
» 1934. Sjúkrahús Hvítabandsins sett á laggirnar.
» 1950. Reykjavíkurborg festir kaup á Arnarholti.
» 1955. Farsóttarsjúkrahúsið byrjar að leggja inn geðsjúka.
» 1952. Nýju geðlyfin koma til sögunnar og gjörbreyta andrúmsloftinu á geðsjúkrahúsum um heim allan.
» 1968. Geðdeild Borgarspítalans tekin í notkun, fyrst klínískra deilda á spítalanum.
» 1979. Geðdeild Landspítalans komið á fót og starfsemin sameinuð Kleppsspítala.
» 2000. Sjúkrahús Reykjavíkur og Ríkisspítalarnir sameinast undir merkjum Landspítala – háskólasjúkrahúss.
» 2002. Deild á Vífilsstöðum lokað og starfsemi Gunnarsholts hætt.
» 2004. Arnarholti lokað.
» 2005. Ríkisstjórnin ákveður að verja milljarði króna og Öryrkjabandalagið hálfum milljarði til eflingar félagslegum búsetuúrræðum.
Eftir Orra Pál Ormarsson orri@mbl.is

Best geymdir sem gleymdir?

Fyrir daga lyfjanna voru sumar deildirnar bara stórir salir þar sem sjúklingar gengu naktir um gólf. Ekki mátti hengja myndir á veggina eða hafa blóm úti í gluggum. Álitið var að sjúklingarnir ætu blómin og lemdu hver annan með myndunum.

Sjúklingarnir sáust naktir úti í gluggum. Þeir héldu sér í rimla og ráku út úr sér tungurnar. Á bak við þá voru veggirnir auðir og brún gólfin nánast samlit saurnum sem gekk niður af þeim.

Þetta sjúka fólk kom aldrei út undir bert loft og þvoði sér hvorki né greiddi eða burstaði í sér tennurnar. Sápur voru sjaldséðar og tannburstar ekki til. Þegar athygli var vakin á þessum slæma aðbúnaði og því að innilokun og einangrun af þessu tagi ætti ekki rétt á sér, var meðal annars bent á að samkvæmt reglugerð væri bændum skylt að lofta búfénað sinn.

Eða var réttur sjúkra manna minni en búfénaðarins? Voru sjúklingar best geymdir sem gleymdir?

Einar Már Guðmundsson, Englar alheimsins, 1993