29. maí 2007 | Sjávarútvegur | 603 orð | 1 mynd

Það þarf að stilla kompásinn

Bryggjuspjall

Sigurjón Þórðarson sendi bryggjuspjallara tóninn í Mogganum í síðustu viku. Þar sakaði hann bryggjuspjallara um að afflytja fréttir úr færeyskum sjávarútvegi og spinna óhróður um færeyska sóknardagakerfið. Ásakanir Sigurjóns eru út í hött.
Sigurjón Þórðarson sendi bryggjuspjallara tóninn í Mogganum í síðustu viku. Þar sakaði hann bryggjuspjallara um að afflytja fréttir úr færeyskum sjávarútvegi og spinna óhróður um færeyska sóknardagakerfið. Ásakanir Sigurjóns eru út í hött. Bryggjuspjallari hefur ekki afflutt neinar fréttir frá Færeyjum. Fréttaskrif hans í Morgunblaðinu um færeyskan sjávarútveg byggjast á upplýsingum frá færeysku hafrannsóknastofnuninni um togararall á þessu ári og á upplýsingum færeysku hagstofunnar um aflabrögð og útflutning fiskafurða. Þar er hvergi hallað réttu máli. Það er staðreynd að þorskstofninn við Færeyjar er nálægt sögulegu lágmarki og útflutningur fiskafurða hefur minnkað verulega. Það er rétt að ítreka það að á línuritinu um þorskaflann í Færeyjum, sem sýnt var í Kompásþættinum á dögunum, var lægðin nú ekki sýnd og við lægðina 1994 var sérstaklega tekið fram að þá hefði kvótakerfið verið við lýði. Grafið var þannig sett upp að það átti að sanna yfirburði fiskidagakerfisins umfram kvótakerfi. Það gerði það alls ekki. Lægðin í þorskstofninum varð ekki til sama dag og kvótakerfið var sett á og það vita allir. Ef þetta var ekki að afflytja fréttir veit ég ekki hvað það er. Það virðist deginum ljósara að Sigurjón Þórðarson vill ekki fá réttar fréttir frá Færeyjum. Það hentar honum ekki. Hvort kerfið er betra, fiskidagar eða kvóti, er erfitt að segja til um. Fiskidagarnir virðast henta Færeyingum vel og þeir eru ánægðir með það eftir 10 ára reynslu. Kvótakerfið hér er umdeilt. Það hefur marga kosti, en gallalaust er það ekki. Á göllunum þarf að taka.

Sé svo litið á Kompásinn þeirra Stöðvar tvö-manna virðist nauðsynlegt að stilla hann eitthvað betur. Vissulega er svindlað á kvótakerfinu. Það eru alltaf einhverjir svartir sauðir sem fara á svig við lögin. Það er þarft og gott að benda á brotalamir kerfisins. En Kompásinn lét misnota sig fullmikið í því að kasta rýrð á kvótakerfið og galla þess. Það var engu líkara en Magnús Þór Hafsteinsson hefði skrifað handritið að þættinum og Grétar Mar Jónsson leikstýrt honum. Að minnsta kosti var hann leiðsögumaður Kompásmanna í Grindavík, þegar verið var að afla efnis í þáttinn. Og ekki spillti að auglýsingaherferð Frjálslynda flokksins spratt upp fullmótuð beint í kjölfar þáttarins.

Sem dæmi um vinnubrögðin í tengslum við margnefndan þátt má nefna að í kjölfar hans var birt frétt um meint kvótasvindl Vísis í Grindavík fyrir 13 árum. Þar var fyrirtækið sakað um að landa 500 tonnum af þorski og kalla hann ufsa. Nokkrum klukkutímum áður en fréttin var send út hafði fréttamaður á Stöð tvö samband við framkvæmdastjóra Vísis. Hann mundi eftir málinu og niðurstöðu þess. Fiskistofa rannsakaði málið og fór í allt bókhald fyrirtækisins. Niðurstaðan var sýkna. Sú niðurstaða var til á blaði og var send til Stöðvar tvö hálftíma eftir símtalið. Þrátt fyrir að hafa undir höndum opinber gögn sem afsönnuðu "glæpinn" var fréttin um hið meinta svindl send út. Hún var reyndar leiðrétt síðar. Það má svo einnig benda á það að umræddur bátur landaði alls 400 tonnum af ufsa til fiskvinnslu Vísis, svo erfitt hefði verið að fela þar 500 tonn af þorski. Allar upplýsingar um löndun viðkomandi báts og ráðstöfun afla hans á þessum tíma voru aðgengilegar hjá Fiskistofu.

Vinnubrögð af þessu tagi eru forkastanleg og varpa rýrð á hinn annars ágæta fréttaskýringaþátt Kompás. Hann hefur mjög margt gott gert, en í þessu tilfelli létu stjórnendur hans teyma sig of langt. Málefnið var gott og þarft en ekki nógu vel úr því unnið. Þátturinn var fullur af ósönnuðum ásökunum og segja má að allir útvegsmenn og fiskverkendur hafi þar verið þjófkenndir. Vissulega er pottur víða brotinn, en það þarf að vanda til verka, þegar fjallað er um viðkvæm og vandasöm mál.

Eftir Hjört Gíslason (hjgi@mbl.is)

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.