7. júní 2007 | Tónlist | 262 orð | 1 mynd

TÓNLIST - Hraun – I can't believe it's not happiness stjörnugjöf: 2

Meðan beðið er

Atli Bollason

HRAUN sýnir á sér aðra hlið á fyrstu breiðskífu sinni en sveitin sýnir iðulega á trylltum dansiböllum hér og þar um landið.
HRAUN sýnir á sér aðra hlið á fyrstu breiðskífu sinni en sveitin sýnir iðulega á trylltum dansiböllum hér og þar um landið. Þar fer hún á kostum; strákarnir keyra í hvern slagarann á fætur öðrum án þess að draga tónlistina niður á plan ómerkilegs sveitaballapopps. Ég skal játa að ég hef ekki sótt mörg böll með Hrauni, en flutningurinn hefur heillað mig auk þess sem lagavalið hefur verið gott og ekki allsendis fyrirsjáanlegt. Ég hugsa t.d. að Hraun myndi ekki láta bjóða sér að leika temalagið úr Friends.

Á skífunni eru hins vegar einungis frumsamin lög, og eiga þau það sammerkt að vera í lágstemmdari kantinum, drifin áfram af kassagítar og textum söngvarans Svavars Knúts. Textarnir eru ekki eftirtektarverðir, nema þegar Hraunverjar skipta yfir í íslensku í tvígang. Þar verða til lifandi myndir eins og þessi: "En stundum bresta vonir / stundum brotna tímaglös." Hvers vegna eru íslenskir tónlistarmenn svona hræddir við móðurmálið, nema á fylleríum og í hálfkáki?

Þessi lágstemmdi fasi fer Hrauni ekki mjög vel, sannast sagna. Tónlistin og lítilvægir enskir textarnir tryggja að platan er gleymd um leið og hún hefur fengið að renna einu sinni í gegn meðan keypt var í matinn eða beðið eftir lækni. Hún biður ekki um að vera leikin aftur, enda fátt á henni sem hengir sig í heilann eða hjartað. "Ástarsaga úr fjöllunum" er vissulega gullfallegt og "Call Off Your Cavalry" er útsett í þægilegum Pink Moon-stíl, en á heildina litið mæli ég frekar með því að fólk skelli sér á ball með Hrauni – þar er miklu skemmtilegra að vera.

Atli Bollason

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.