Herdís Helgadóttir mannfræðingur fæddist í Reykjavík 15. maí 1929. Hún lést á heimili sínu, Tómasarhaga 55 í Reykjavík, hinn 18. júní síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Helgi Jónsson húsgagnasmiður, f. á Litlu-Laugum í Reykjadal í S-Þingeyjarsýslu 3. janúar 1896, d. 2. júní 1985 og Elísabet Magnúsdóttir húsmóðir, f. í Nýjabæ Vopnafirði 14. maí 1903, d. 18. september 1996. Bræður Herdísar eru þeir Skúli prentari í Reykjavík, f. 31. maí 1925 og Jón Magnús, f. 16. apríl 1928, d. 6. mars 1951.

Herdís giftist hinn 1. júní 1949 Styrkári Sveinbjarnarsyni prentara, f. á Reyðarfirði 23. febrúar 1927, d. 2. desember 1989. Þau skildu 1977. Foreldrar hans voru Sveinbjörn P. Guðmundsson kennari og fræðimaður, f. í Skáleyjum á Breiðafirði og Margrét Guðmundsdóttir húsmóðir, f. í Mjóafirði og uppalin á Eskifirði, þau eru bæði látin. Herdís og Styrkár eignuðust sex börn, sem eru: 1) Hrafn Helgi, f. 24.1. 1949, búsettur í Svíþjóð. 2) Sveinbjörn prentari og bílstjóri, f. 21.2. 1950, maki Willy Johannes. 3) Auður stjórnmálafræðingur, f. 27.8. 1951, gift Svani Kristjánssyni og eiga þau börnin Halldór, Kára og Herdísi Ingibjörgu. Áður átti Svanur soninn Heiðar Inga. 4) Snorri hagfræðingur, f. 20.2. 1958, kvæntur Kristrúnu Ragnarsdóttur og eiga þau börnin Styrkár, Kristínu og Steinunni. Auk þess átti Snorri soninn Styrkár, d. 1987, með Dagrúnu Magnúsdóttur. 5) Unnur erfðafræðingur, f. 18.3. 1961, gift Sveini Bragasyni og eiga þau synina Ívar og Kára. 6) Herdís leikskólakennari, f. 7.7. 1970, gift Jóni Ágústi Reynissyni og eiga þau börnin Báru, Helga og Hildi.

Herdís ólst upp í Reykjavík, fyrst í Sogamýrinni og síðan við Grettisgötu og Hverfisgötuna. Hún gekk í Laugarnesskólann og sótti framhaldsmenntun í Verslunarskóla Íslands, þaðan sem hún útskrifaðist árið 1948. Hún hóf síðan nám við Háskóla Íslands 62 ára gömul og úskrifaðist með BA-próf í mannfræði 1994 og MA-próf í mannfræði árið 2000. Herdís vann lengst af utan heimilis með sínum húsmóður- og uppeldisstörfum, við skrifstofustörf hjá Trésmíðafélagi Reykjavíkur og Verkamannafélaginu Dagsbrún, en lengsta starfsævi átti hún hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur, fyrst við Hljóðbókasafnið og síðan Sólheimasafnið þar sem hún starfaði þar til hún fór á eftirlaun. Hún fékkst jafnframt við þýðingar samhliða öðrum störfum. Hún var eindregin baráttukona fyrir bættu mannlífi og betri kjörum og tók þátt í ýmiskonar félagsstarfi á þeim vettvangi, m.a. Æskulýðsfylkingunni á sínum yngri árum og Rauðsokkahreyfingunni eftir stofnun hennar. Hin síðari ár átti hún sæti í stjórn Félags eldri borgara. Hún skrifaði tvær bækur sem byggðar voru á rannsóknum hennar við Háskóla Íslands en þær eru "Vaknaðu kona" árið 1996 er lýsir baráttu rauðsokka frá þeirra eigin sjónarhóli og "Úr fjötrum" árið 2001 er lýsir kjörum íslenskra kvenna þegar erlendur her tók sér bólfestu í landinu. Útför Herdísar verður gerð frá Neskirkju í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Þessa dagana hvílir í huga mínum sextíu ára gömul ljósmynd. Hún sýnir ungt par, fallegt og glaðbeitt, umkringt íslenskri náttúru. Þau urðu hjón nokkru síðar. Ungi maðurinn hét Styrkár Sveinbjörnsson. Hann lést fyrir tæpum tuttugu árum, aðeins 62 ára gamall. Unga konan hét Herdís Helgadóttir. Útför hennar verður gerð í dag.

Unga parið var á ferð með Æskulýðsfylkingu Sósíalistaflokksins. Þau trúðu á framtíðina og börðust fyrir hagsmunum verkalýðsins og þjóðfrelsi Íslands, sjálfstæðu, hlutlausu og herlausu landi. Eflaust voru sungin bæði Maístjarnan og Internationalinn. Þau munu hljóma í Neskirkju í dag.

Herdís átti tvo bræður. Jón Magnús fórst ungur af slysförum til sjós en Skúli lifir yngri systur sína. Sterk bönd voru milli systkinanna. Skúli er systurbörnum sínum mikill styrkur í sorg þeirra.

Lífsstarf Herdísar markaðist af heilindum og bjargfastri trú á góðan málstað réttlætis, mannréttinda og frelsis. Hún skipaði sér undir merki Rauðsokka, sem miklu skiluðu, þótt enn sé sorglega langt í land með jafnréttið. Á sjötugsaldri hóf hún nám í mannfræði við háskólann og lauk bæði BA- og MA-prófi. Lokaritgerð hennar kom út í merkri bók, Úr fjötrum, er varpar nýju ljósi á íslenskt þjóðlíf á umbrotatímum seinni heimsstyrjaldar. Þar fléttar Herdís haglega eigin þroskasögu saman við líf þeirra kvenna, sem gerðust sekar um þann "glæp" að verða ástfangnar af erlendum hermönnum. Í fræðistörfum Herdísar vottar hvergi fyrir andúð á karlmönnum. Hún vissi sem er að kvennakúgun er ekki sönnum karlmönnum í hag.

Í upphafi sambúðar okkar Auðar kom Herdís eitt sinn í heimsókn er ég stóð við að strauja þvott. Eftir það var ég fullkominn í hennar augum. Við ræddum ekki mikið um grundvallaratriði í stjórnmálum. Hún treysti því að ég kynni skil á réttu og röngu og fannst sjálfsagt að ég beitti mér fyrir betra þjóðfélagi. Stundum gerði ég skyldu mína, stundum ekki. Ávallt naut ég samt elsku hennar og stuðnings.

Við fyrstu kynni varð ég þess var að yfir Herdísi hvíldi skuggi, sem varnaði henni nægilegrar bjartsýni. Hún tók nærri sér ótímabær dauðsföll ástvina og þungbæra sjúkdóma í fjölskyldunni. Þau Styrkár slitu samvistum. Hún reis þó ávallt upp til að skapa sér bærilegt líf á ný. Síðast endurnýjaði hún kynnin af íslenskri náttúru, þá í fylgd sonar síns, Sveinbjörns, sem reyndist móður sinni tryggur félagi. Lífsneistinn logaði um sinn.

Síðustu ár voru henni og fjölskyldunni nokkur raun vegna veikinda. Dóttir hennar, Unnur, og hennar fjölskylda bjuggu henni skjól í séríbúð í húsi sínu. Ástvinir sinntu henni af nærfærni og umhyggju. En um þunglyndi orti sr. Björn Halldórsson kvæðið "Sumarnótt", sem lýkur svo:

Verður þér myrkvum á vegi

vesturför óyndisleg?

Kvíðir þú komandi degi,

kolbrýnda nótt, eins og ég?

Herdís Helgadóttir lagði sitt af mörkum til réttindabaráttu geðsjúkra, m.a. með þátttöku í félaginu Geðhjálp. Sjálf var hún sókndjörf alla ævi meðan þess var nokkur kostur. Ástvinir kveðja með sárri sorg en djúpu þakklæti fyrir ást hennar og elsku.

Svanur Kristjánsson.

Einn af máttarstólpum tilveru minnar er nú fallinn frá. Amma Dísa var prinsippmanneskja með ákveðnar skoðanir; gáfuð og falleg sál. Sagan mun minnast hennar sem konunnar sem skrifaði um ástandsárin út frá sjónarhorni kvennanna sem upplifðu þau, en ég mun líka minnast hennar sem góðrar og sterkrar ömmu sem vílaði ekki fyrir sér að skara fram úr í háskóla á gamals aldri. Hún mun alltaf lifa sterkt í minningum mínum, hvað sem öðru líður. Þakka þér fyrir allt saman, amma.

Halldór Auðar Svansson.

Elsku amma.

Mikið þykir okkur leiðinlegt að þú skulir vera dáin. Þú varst mjög góð amma og öllum þótti mjög vænt um þig. Okkur þykir einnig leiðinlegt að núna er engin amma til að skera appelsínugulu molana í tvennt fyrir okkur svo að við köfnum ekki. Þó að við hefðum ekki verið ánægð með að fá bara hálfa mola, þá sýndi það bara hvað þér þótti vænt um okkur. Núna fáum við ekki heldur góða baunaréttinn þinn sem enginn getur gert jafn vel og þú. Þú vissir alltaf svör við öllu sem við spurðum þig að og svaraðir því eins og þér einni var lagið. Við gleymum ekki heldur öllu öðru sem þú gerðir fyrir okkur eins og að labba með okkur út í bakarí og kaupa snúða handa okkur þegar við vorum svöng. Þú varst líka alltaf að prjóna handa okkur föt og hélst alltaf svo mikið uppá það sem við gáfum þér, jafnvel þó að það væri bara mynd sem við teiknuðum, Við munum ennþá eftir vöfflunum sem þú bakaðir handa okkur, og þú ert ennþá best þó að þú sért dáin.Við söknum þín rosalega en við vitum að þú ert á betri stað.

Við munum aldrei gleyma þér.

Þín barnabörn

Hildur, Helgi og Bára.

Ég vil í fáum orðum minnast ástkærrar ömmu minnar, Herdísar Helgadóttur.

Amma var einhver gáfaðasta manneskja sem ég hef kynnst um ævina. Hún var feikilega víðlesin og vel að sér í öllum mögulegum hlutum. Einhver fróm sál sagði að heitasta helvíti væri frátekið fyrir hina skoðanalausu. Ef svo er þarf amma engu að kvíða, því hún hafði svo sannarlega skoðanir á hlutunum, og lét hún þær óspart í ljósi – en ekki í stíl nöldurseggs eða kverúlants, heldur rökfastrar skynsemisveru.

Rík réttlætiskennd var ömmu í blóð borin og lagði hún sitt merka lóð á vogarskálar íslenskrar kvenfrelsisbaráttu. Segja má að sú viðleitni ömmu hafi náð hámarki í hinni stórmerkilegu bók sem hún reit um hið s.k. 'ástand' á stríðsárunum, þar sem í fyrsta sinn var greint frá sjónarhóli kvennanna sem rægðar voru og ofsóttar fyrir að vera 'kanamellur', þ.e. í tygjum við bandaríska hersetuliðsmenn. Bók þessi er meistaraverk á sínu sviði, og afar verðugt innlegg í þá viðleitni að rétta hlut kvenna í söguskrifum, sem hafa verið að miklu leyti einkasvið karlmanna fram á vora daga.

Ekki er hægt að minnast ömmu án þess að nefna það hve mikill afburða kokkur og hannyrðakona hún var. Engu máli skipti hve snúið var að lappa uppá flíkur og annað í þeim dúr – alltaf tókst henni að gera bragarbót þar á svo sómi var að.

Ég trúi því staðfastlega að endalokin á vorri jarðnesku tilveru sé ekki endirinn á vegferð manneskjunnar. Það sem við köllum eitt æviskeið er aðeins örstuttur kafli í hinum mikla doðranti sem nefnist þróunarskeið sálarinnar. Því hef ég engu að kvíða varðandi hana ömmu mína – endirinn á jarðlífi hennar er aðeins upphafið að áframhaldandi og enn glæstari tilveru.

Með þökk fyrir allt það sem þú varst mér meðan þú gekkst um á meðal okkar.

Þinn dóttursonur,

Kári Auðar Svansson.

Mig langar til að minnast hér vinkonu minnar, Herdísar Helgadóttur, með örfáum orðum.

Ég var svo lánsöm að vinna með henni um átta ára skeið á Sólheimaútibúi Borgarbókasafns. Þessi stórbrotna kona hafði mikil áhrif á mig og ég hef verið stolt af að mega teljast til hennar nánustu vinkvenna ásamt Rósu samstarfskonu okkar. Herdís var í mínum augum margbrotin eins og móðir náttúra, – hörkutól, baráttukona, dugnaðarforkur, verkalýðssinni, skörp, rökföst, rauðsokka, reið, skemmtileg, ákaflynd, glaðbeitt, handavinnukona, garðyrkjukona, fræðimaður, náttúrukona og síðast en ekki síst móðir og amma.

Hún var flókið samspil upplags og aðstæðna og vann vel úr sínu. Lífið var ekki alltaf dans á rósum og hún ætlaðist reyndar alls ekki til þess, en hún var svo lánsöm að geta notað alla reynsluna sér til þroska og skilnings á samferðafólkinu.

Hún lauk BA-prófi í mannfræði komin á sjötugsaldur meðfram starfi og var stödd í unaðsreitnum sínum á Neskaupstað þegar henni bárust þær fréttir að hún hefði brillerað eins og hennar var von og vísa. Ritgerðin hennar fjallaði um Rauðsokkahreyfinguna, sem hún sagði að hefði bjargað lífi sínu.

Á þessum árum unnum við náið saman og var hún mikill fagmaður í störfum sínum á safninu. Hún reyndist okkur Rósu hinn besti kennari og félagi og milli okkar þriggja bundust ævarandi vináttutengsl.

Ekki lét þessi eldhugi staðar numið, heldur lauk hún MA-námi komin yfir sjötugt og gaf út glæsilegt rit um konur á hernámsárunum, Úr fjötrum, þar sem hún með rannsóknum símum lauk upp augum fólks á þeim ótrúlegu fordómum og grimmd sem íslenskar konur bjuggu við á þeim tíma. Veri hún blessuð fyrir það. Þessi rannsóknarvinna var henni mikið hjartans mál og nutum við þess að fylgjast með framvindunni og fræddumst um uppgötvanir hennar jafnharðan.

Ég dvaldi hjá henni í litla húsinu í Neskaupstað nokkra daga sumarið 1997 og áttum við þar saman ógleymanlega daga og töluðum okkur hásar.

Ég tel mig lánsama að hafa átt Herdís Helgadóttur að vinkonu og samherja í lífinu.

Guðrún Björk Tómasdóttir.