Tríó Björns Thoroddsens og Andrea Gylfadóttir

ÞAÐ VAR árið1993 að Björn Thoroddsen gaf út disk með vinsælum íslenskum lögum: Við göngum svo léttir ... og var Andrea Gylfadóttir ein af mörgum söngvurum á þeirri skífu. Titillag þeirrar skífu er eitt margra vinsælla laga við íslensk ljóð er finna má á Vorvísum , sem er í sama stíl og Vorvindar með sömu listamönnum er út kom í fyrra; auk Björns og Andreu þeir Jón Rafnsson bassaleikari og Jóhann Hjörleifsson trommari. Að vísu hefur stíllinn breyst eilítið frá fyrri plötunni. Hún var að mestu léttdjössuð, en hér er rokkskotið rafmagn plássfrekara og meira að segja kántríblær á "Heiðlóarkvæði" Jónasar, sem mér þykir varla við hæfi; aftur á móti er blústilfinningin í "Kvölda tekur sest er sól" frábær og að mínu viti er það best heppnaða lag skífunnar. Sveiflan er á fullu í "Vér göngum" og Jói fimur með burstana en heldur hefði ég kosið að Jón hefði sveiflað kontranum. Bæði Dalakofi Davíðs og írska þjóðvísan, sem Jónas Árnason samdi við "Bíum, bíum bambaló", eru smekklega flutt, en lögin falla misvel að ryþmískri túlkun. Eitt af aðalsmerkjum skífunnar er hinn skýri textaframburður Andreu og því er skífa þessi kjörin eign hverrar barnafjölskyldu landsins, ekki síður en leik- og grunnskóla. Það má þakka Birni framlag hans til varðveislu menningaarfsins – sem allir nefndir diskar eru.

Vernharður Linnet