13. júlí 2007 | Tónlist | 247 orð | 1 mynd

TÓNLIST - Geisladiskur

Hrífandi gleðirokk

Lada Sport – Time and Time Again stjörnugjöf: 4

HLJÓMSVEITIN Lada Sport hefur verið starfandi um alllangt skeið. Hún tók þátt í Músíktilraunum árið 2004 og varð þar í öðru sæti. Síðan þá hafa orðið talsverðar mannabreytingar í sveitinni sem hún hefur staðið af sér með prýði.
HLJÓMSVEITIN Lada Sport hefur verið starfandi um alllangt skeið. Hún tók þátt í Músíktilraunum árið 2004 og varð þar í öðru sæti. Síðan þá hafa orðið talsverðar mannabreytingar í sveitinni sem hún hefur staðið af sér með prýði.

Time and Time Again er fyrsta stóra plata sveitarinnar. Tónlistin er hresst rokk í anda Weezer og fleiri álíka hljómsveita – án þess þó að hún sé stónerrokksveit. Mér þótti ég einnig heyra áhrif frá Dinosaur Jr og fleiri síðrokkssveitum. Engu að síður hefur Lada Sport sinn eigin hljóm, hún er ekki ein af þessum sveitum sem apa eftir eftirlætistónlistarmönnunum sínum og gefa það út á plötu. Frekar fylgja meðlimir hennar þeim stíl sem þeim líkar og leika sér innan hans.

Lögin eru afskaplega vönduð og vel samin. Útsetningarnar ganga upp og henta lögunum ágætlega. Textana myndi ég seint kalla tímamótaverk en þeir eru skemmtilegir, oft fyndnir og jafnvel fullir af reiði. Lagið "Gene Pacman" þótt mér sérstaklega skemmtilegt en auk þess má nefna "The World is a Place for Kids Going Far" sem einnig er hressandi tónsmíð.

Lada Sport má vel við plötu þessa una. Hún er vönduð og metnaðarfull auk þess sem hljóðfæraleikurinn er mjög fínn. Við að hlusta á plötuna varð mér þó ljóst að Lada Sport nýtir ekki fyllilega þá fjölbreytni sem sveitin býr greinilega yfir. Það sem skortir er bætt upp með virkilega góðu samspili og mjög sterkum lagasmíðum. Á heildina litið er þetta mjög eiguleg plata, stútfull af fallegu gleðirokki.

Helga Þórey Jónsdóttir

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.