MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi fréttatilkynning frá Aðalsteini Sigfússyni, félagsmálastjóra í Kópavogsbæ, vegna umræðu í fjölmiðlum um barnaverndarmál í Kópavogi: "Föst stöðugildi við fjölskyldudeild Félagsþjónustu Kópavogs voru alls 9...
MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi fréttatilkynning frá Aðalsteini Sigfússyni, félagsmálastjóra í Kópavogsbæ, vegna umræðu í fjölmiðlum um barnaverndarmál í Kópavogi:

"Föst stöðugildi við fjölskyldudeild Félagsþjónustu Kópavogs voru alls 9 árið 2001, þar af 3 í vinnslu barnaverndarmála, en 11 í lok árs 2006, þar af 6 félagsráðgjafar í barnaverndarmálum. Þrír félagsráðgjafar starfa í félagslegri ráðgjöf.

Fyrir liggur áætlun um fjölgun um eitt stöðugildi félagsráðgjafa í málefnum unglinga. Þegar hefur verið samþykkt hálft stöðugildi sálfræðings með aðstöðu hjá Heilsugæslu Kópavogs. Viðkomandi mun hefja störf 1. ágúst. Tilvísunaraðili er fjölskyldudeild.

Til að mæta stækkun bæjarfélagsins og fjölgun tilkynninga hefur á þessum árum verið ráðist í, auk ofangreindra breytinga, að þróa og auka úrræði í barnaverndarmálum. Það hefur m.a. verið gert með eftirfarandi hætti:

Stofnun tilsjónarsambýlis fyrir 3 til 4 unglinga í senn. Verktakasamningur er við starfsmann í fullu starfi.

Stofnun "vistheimilis" á einkaheimili. Verktakasamningur við starfsmann í fullu starfi.

Stofnun heimilis fyrir ungar mæður. Verktakasamningur við starfsmann.

Stofnun unglingasmiðju í samvinnu við skólaskrifstofu. Verktakasamningur við tvo starfsmenn í fullu starfi.

Unglingahópar í Dalshúsi.

Þjónustusamningur við Ekron meðferðarúrræði.

Þjónustusamningur við Kvennasmiðjuna meðferðarúrræði.

Tvöföld aukning aðkeyptrar vinnu sálfræðinga fyrstu sex mánuði þessa árs.

Fjölskyldudeild hefur nú lokið þarfagreiningu varðandi frekari úrræði fyrir unglinga. Þar er lagt til að stofnað verði til annars tilsjónarsambýlis.

Launakostnaður fjölskyldudeildar hefur á þessum árum aukist um 77%, tilsjónar um 310% og vistunar um 100%.

Félagsþjónustan hefur átt frumkvæði að stofnun forvarnahóps í bænum og vann markvisst að því að endurskipuleggja þau mál. Þegar hefur verið skipað í forvarnanefnd af hálfu bæjaryfirvalda og auglýst eftir umsækjendum um forvarnafulltrúa.

Tilkynningum hefur fjölgað úr 316 árið 2001, skv. ársskýrslu, í 611 árið 2006, eða um 93%. Þetta er áhyggjuefni, ekki síður fyrir það að fjöldi þeirra á hvern starfsmann hefur aukist verulega. Fjölgun lögreglutilkynninga það sem af er þessu ári 2007 samanborið við 2006 er 70%. Spurningin er hvort aðferðafræði talningar hafi breyst á tímanum og eigi einhvern þátt í þessari hækkun eða hvort tölurnar endurspegli breytingar í samfélaginu, t.d. meiri meðvitund almennings, t.d. vegna meiri fjölmiðlaumræðu, eða hvort þær endurspegli alfarið verri stöðu barna.

Hvað varðar tilkynningar um kynferðislegt ofbeldi voru þær eftirfarandi:

2001: 15

2002: 27

2003: 43

2004: 14

2005: 35

2006: 16

Af þessum tölum sést að mjög mismunandi er hversu margar tilkynningar berast eftir árum, fjöldinn er mestur árið 2003, en nánast sami fjöldi tilkynninga er árið 2001 og 2006.

Að ofantöldu sést að starfsmönnum við fjölskyldudeild hefur fjölgað, bæði innan deildar og í úrræðum fyrir börn, en það hefur málafjöldi einnig gert. En fjölskyldudeild hefur lagt sig fram um að mæta fjölgun barnaverndarmála, hagræða og breyta stöðugildum eftir þörf, þróa ný úrræði og að ráða starfsmenn til margvíslegra verkefna. Þannig hefur bæjarfélagið reynt eftir bestu geta að bregðast við með faglegum hætti."