Í háloftunum Sinisa Kekic hefur gert sjö mörk í deildinni. Hér er hann í baráttu við Ingvar Ólason og Reyni Leósson.
Í háloftunum Sinisa Kekic hefur gert sjö mörk í deildinni. Hér er hann í baráttu við Ingvar Ólason og Reyni Leósson. — Morgunblaðið/ÞÖK
"MÉR tókst ekki að skora úr hjólhestaspyrnunni og aldrei að vita ef það hefði tekist og ég hefði skorað þrjú, kannski hefði ég lagt skóna á hilluna," sagði Sinisa Kekic sóknarmaður Víkinga, sem skoraði bæði mörk í 2:1 sigri á Fram í Víkinni í...

"MÉR tókst ekki að skora úr hjólhestaspyrnunni og aldrei að vita ef það hefði tekist og ég hefði skorað þrjú, kannski hefði ég lagt skóna á hilluna," sagði Sinisa Kekic sóknarmaður Víkinga, sem skoraði bæði mörk í 2:1 sigri á Fram í Víkinni í gærkvöldi en það var fyrsti heimasigur Víkinga í sumar. Auk markanna tveggja tók Sinisa laglega hjólhestaspyrnu sem var varin á línu og Sinisa vill gera betur. "Ég er ánægður með Magnús þjálfara og mér finnst gaman í framlínunni, reyni að gera mitt besta og vonandi geri ég betur í næsta leik." Með sigrinum færðist Víkingur upp í 7. sæti en Fram berst ásamt KR á botni deildarinnar.

Eftir Stefán Stefánsson
Gestirnir úr Safamýri voru fyrri til að fá færi þegar Alexander Steen skaut rétt framhjá marki Víkinga en næsta færi þeirra kom ekki fyrr nokkrum sekúndum áður en blásið var til leikhlés. Annars fór fyrsta korterið í að leikmenn reyndu að átta sig á vellinum sem rennblotnaði í hitaskúr rétt fyrir leik. Frekar var að Víkingar sköpuðu sér færi með þyngri sóknum og á 14. mínútu átti Sinisa þrumuskot beint á markvörð Fram. Mínútu síðar hrökk boltinn út til Harðar Bjarnasonar og þrumuskot hans stefndi beint upp í markhornið en Hannes Þór Halldórsson varði glæsilega í horn. Um miðjan fyrri hálfleik komust Framarar meira inn í leikinn og tókst stundum að ná góðum sprettum fram völlinn en var fyrirmunað að ná skoti á mark Víkinga. Þótt sóknir heimamanna væru þyngri var ekki mikið um fleiri góð færi. Hins vegar skoruðu Víkingur úr vítaspyrnu, sem gestirnir voru mjög ósáttir við, en dómari leiksins var algerlega viss í sinni sök, stökk til og benti nákvæmlega á punktinn sem brotið átti sér stað. Skömmu síðar skoraði Sinisa aftur eftir góða sókn Víkinga en Adam var ekki lengi í Paradís því það tók gestina bara nokkrar mínútur að jafna og Víkingar náðu aðeins upphafsspyrnu áður en flautað var til leikhlés.

Fram í gang

Framarar voru öllu sprækari eftir hlé og tókst nú að ná færum úr sóknum sínum. Markvörður Víkinga varði fyrst frá Hjálmari Þórarinssyni og svo Igor Pesic áður en Gunnar Kristjánsson þrumaði í hliðarnetið á marki Fram. Eitthvað voru heimamenn að komast inn í leikinn en þó mátti sjá að þeir voru fyrst og fremst að hugsa um að halda fengnum hlut, sem aftur skilaði Fram fleiri sóknum. Færum fór þó fækkandi en á 76. mínútu átti Sinisa glæsilega hjólhestaspyrnu sem varnarmenn Fram vörðu inni í markteig og nokkrum mínútum síðar varði Jökull Elísarbetarson hinum megin á línu þegar Jónas Grani Garðarsson fékk opið færi eftir harða sókn. Í lokin fékk Arnar Jón Sigurgeirsson gott færi sem markvörður Fram sló í horn og rétt fyrir leikslok fékk Alexander Steen alveg eins færi hinu megin.

Víkingar geta verið sáttir við uppskeruna í gærkvöldi því þó liðið væri sprækt fyrir hlé bakkaði það of mikið eftir hlé með bara eins marks forskot. Sinisa og Gunnar voru þeirra bestu menn. Vörnin var sterk og verður líklega enn sterkari í næsta leik því þá má búast við að Höskuldur Eiríksson verði komin með leikheimild.

Dýrt í botnbaráttuslag

"Ég segi svo sem ekki mikið, fyrri hálfleikur var lélegur hjá báðum liðum," sagði Reynir Leósson fyrirliði Fram eftir leikinn og taldi óþarfi að Víkingar fengju víti. "Ég veit ekki hvort boltinn var inni í teig eða ekki og það skiptir ekki máli. Ég skil ekki hvað markvörður okkar var að vaða út í teiginn, hann á ekki að vera þarna þar sem ekki var nein hætta. Við höfum bæði gefið HK og Víking ódýr klaufamörk sem slá okkur út af laginu en við náðum svo sem að koma til baka og áttum fullt af færum í seinni hálfleik en náðum ekki að skora úr þeim," bætti fyrirliðinn við og segir alltaf pressu um betra gengi á lið sitt. "Það hefur verið pressa á okkur því við höfum verið í neðri hlutanum síðan í annarri eða þriðju umferð en við verðum að lifa með því, bíta á jaxlinn og horfa fram á veginn en þetta er einfaldlega ekki nógu gott. Það eru of margir okkar ekki klárir í byrjun leiks og við gefum færi á okkur ásamt vítaspyrnu og það er of dýrt í svona botnbaráttuslag."
1:0 (33.) Viðar Guðjónsson gaf boltann upp vinstri kantinn og Gunnar Kristjánsson tók á sprett. Á vítateigslínunni miðri vinstra megin skullu Gunnar og Hannes Þór Halldórsson, markvörður Fram, saman svo að dæmd var vítaspyrna. Úr henni skoraði Sinisa Kekic af öryggi upp í vinstra hornið.

2:0 (42.) Í laglegri sókn Víkinga gaf Hörður S. Bjarnason boltann upp kantinn vinstra megin á Gunnar Kristjánsson, sem rakti hann upp að endamörkum. Þaðan gaf hann fyrir á fjærstöngina þar sem Sinisa Kekic var mættur og skallaði boltann af öryggi í mitt markið úr miðjum markteig.

2:1 (45.) Igor Pesic tók aukaspyrnu rétt við miðju vinstra megin. Hann sendi boltann beint á markið og þegar Bjarni Þórður Halldórsson gerði sig líklega til að grípa boltann stakk Jónas Grani Garðarsson sér fram og skallaði framhjá Bjarna Halldóri.

VÍKINGUR

M

Grétar S. Sigurðarson

Milos Glogovac

Egill Atlason

Jökull Elísabetarson

Hörður S. Bjarnason

Sinisa Kekic

Gunnar Kristjánsson

FRAM

M

Hannes Þór Halldórsson

Reynir Leósson

Ingvar Þ. Ólason

Igor Pesic

Hans Yoo Mathiesen

Alexander Steen