Eftir Önund Pál Ragnarsson og Gunnhildi Finnsdóttur VÁTTUR ehf., sem er í eigu systkinanna Karls og Ingunnar Wernersbarna, hefur fest kaup á Galtalækjarskógi, sem áður var í eigu bindindissamtakanna I.O.G.T.
Eftir Önund Pál Ragnarsson og

Gunnhildi Finnsdóttur

VÁTTUR ehf., sem er í eigu systkinanna Karls og Ingunnar Wernersbarna, hefur fest kaup á Galtalækjarskógi, sem áður var í eigu bindindissamtakanna I.O.G.T. Ingunn hefur einnig fest kaup á húsi Odds Nerdrum, Þingholtsstræti 29 A.

Samtökin I.O.G.T. hafa rekið starfsemi í Galtalækjarskógi síðan 1967, þegar þau tryggðu sér aðstöðu með leigusamningum en hafa keypt landið upp undanfarinn áratug. Kaupsamningurinn hljóðar upp á 84 hektara lands sem eru að mestu skógi vaxnir, ásamt tjaldsvæði og þjónustumiðstöð.

Garðar Vilhjálmsson, forsvarsmaður Váttar, gaf kaupverðið ekki upp en kvað það sanngjarnt fyrir báða aðila. Hann kveðst hafa vilyrði frá sveitarfélagi fyrir því að einhver uppbygging á sumarbústaðabyggð verði heimil.

Ingunn Wernersdóttir staðfesti í samtali við Morgunblaðið að þau systkinin hefðu keypt skóginn, en ekki hefði verið ákveðið hvernig svæðið yrði nýtt. "En það verður áfram skógrækt á svæðinu, það er alveg klárt," sagði Ingunn.

Mikil eftirsjá að skóginum

Einar Hannesson, formaður svæðisráðs I.O.G.T., segir það samtökunum fjárhagslega ofviða að reka starfsemina í Galtalæk eftir að kaupstaðir fóru að halda stór mót um verslunarmannahelgi. "Fyrir nokkrum árum fór að halla undan fæti. Aðsóknin minnkaði verulega og við urðum fyrir miklu tekjutapi. Hér höfum við verið í 40 ár og þess vegna er mikil eftirsjá fyrir okkur að missa þetta land."

Nerdrum | 2