Birgir Dýrfjörð
Birgir Dýrfjörð
Birgir Dýrfjörð skrifar um bankana og Íbúðalánasjóð: ""Ég hvet samfylkingarfólk til að hafa samband við þingmenn sína og lýsa stuðningi við Íbúðalánasjóð og viðhorf Jóhönnu til hans.""
Í LEIÐARA Morgunblaðsins 13. júní er vitnað í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðs um ill áhrif Íbúðalánsjóðs á efnahagsmál. Þar segir: "Ef ekki væri vegna samkeppni þessa opinbera sjóðs væru bankarnir búnir að hækka vexti á íbúðalánum sínum svo verulega að draga myndi úr fasteignakaupum." Íbúðalánasjóður kemur því í veg fyrir "nauðsynlega" vaxtahækkun.

Þarf skýrari orð um hvað gerist ef Íbúðalánasjóður verður lagður niður?

Ætli enginn hafi sagt fulltrúum gjaldeyrissjóðsins að Íbúðalánasjóður lánaði 90% af brunabótamati þegar bankarnir lánuðu 100% af markaðsverði?

Ætli enginn hafi sagt þeim að sú regla Íbúðalánasjóðs að miða lán við brunabótamat ætti að koma í veg fyrir verðsprengingu á suðvesturhorni landsins og tryggja lánshæfi húsa á landsbyggðinni? Sagði þeim enginn af hámarkinu á lánum Íbúðalánasjóðs?

Ánauð og "glópalán"

Þegar bankarnir hófu útlánaveislu sýna var hámark á láni Íbúðalánasjóðs 16 miljónir, en bankarnir buðu 100% lán án hámarksupphæðar. Sá er vildi kaupa húseign á 32 milljónir gat því aðeins fengið 16 milljónir að láni hjá Íbúðalánasjóði en 32 milljónir hjá bönkunum.

Margir, sem þáðu gylliboð bankanna, notuðu ferðina og tóku það há lán að þeir "áttu" afgang fyrir ýmsu öðru, t.d. nýjum bíl. Þannig var íbúðaverð og peningaþenslan sprengd í hæstu hæðir, og þúsundir núverandi og verðandi fjölskyldna á Íslandi lokkaðar undir árar í ævilanga ánauð, á vaxtagaleiðum banka og sjóða.

"Snilldin" hjá bönkunum var sú að þeir buðu ekkert lægri vexti en Íbúðalánasjóður. Þeir lánuðu með líkum vöxtum en buðu vaxtaafslátt. Vaxtaafslátturinn færði vextina niður í rúm 4%, en hann var skilyrtur. Ef aðstæður breytast geta bankar breytt afslættinum eða afnumið hann að fullu. Þá verða vextir þeirra áþekkir og jafnvel hærri en vextir Íbúðalánasjóðs. – Orðið glópalán öðlast þá nýja og ömurlega merkingu.

Styrkjum Jóhönnu

Ef ekki væri Íbúðalánasjóður væru bankarnir búnir að hækka vextina, sagði í Mogganum.

Þá yrðu vextir af nýjum lánum bankanna verulaga hærri en núverandi vextir Íbúðalánasjóðs og lítið lánað á landsbyggðinni.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur sagt að Íbúðalánasjóði, "lambi fátæka mannsins", verði ekki fórnað meðan hún stjórni félagsmálaráðuneytinu og hann heyri þar undir.

Við í Samfylkingunni megum þó ekki gleyma, að ýmsir af frambjóðendum flokksins okkar trúðu fyrir kosningar, að 90% lánshlutfall Íbúðalánasjóðs væri helsta orsök alls þess, sem úrskeiðis hefði farið í fjármálum lands og þjóðar. Það verður því sótt að Jóhönnu úr öllum áttum með það, að fórna Íbúðalánasjóði eða gefa hann eftir til annars ráðuneytis.

Ég hvet því samfylkingarfólk til að hafa samband við þingmenn sína og lýsa yfir stuðningi við Íbúðalánasjóð og viðhorf Jóhönnu til hans.

Að lokum: Þeir, sem vilja fylgjast með lýðræðislegum skoðanaskiptum, eiga að lesa Morgunblaðið.

Höfundur er í flokksstjórn Samfylkingarinnar.