Esjuberg Nerdrum selur húsið sitt.
Esjuberg Nerdrum selur húsið sitt. — Morgunblaðið/Einar Falur
Eftir Gunnhildi Finnsdóttur gunnhildur@mbl.is NORSKI listmálarinn Odd Nerdrum hefur selt húseign sína Þingholtsstræti 29 A, glæsilegt steinhús sem áður hýsti Borgarbókasafnið.
Eftir Gunnhildi Finnsdóttur

gunnhildur@mbl.is

NORSKI listmálarinn Odd Nerdrum hefur selt húseign sína Þingholtsstræti 29 A, glæsilegt steinhús sem áður hýsti Borgarbókasafnið. Ingunn Wernersdóttir staðfesti í samtali við Morgunblaðið að hún hefði fest kaup á húsinu og fengi það afhent í ágúst. Hún lét hvorki uppi hvert kaupverðið var né hvað hún ætlaðist fyrir með húsið. Ekki náðist í Odd Nerdrum vegna málsins.

Húsið er 468 fermetrar að stærð og nemur fasteignamat þess rúmlega 136 milljónum. Fasteignasali sem Morgunblaðið ræddi við sagði erfitt að spá um kaupverð, því það færi að miklu leyti eftir ástandi hússins. Reisuleg steinhús í Þingholtunum hefðu að undanförnu selst á 120 til 200 milljónir og þetta væri tvímælalaust eitt glæsilegasta húsið í þessu eftirsótta hverfi. Hann tók einnig fram að kostnaður gæti hlaupið á tugum milljóna við að koma húsi sem þessu í það horf að það uppfyllti nútímakröfur.

Húsið var byggt árið 1916 af A. Obenhaupt stórkaupmanni og gekk lengi undir nafninu Esjuberg. Borgarsjóður keypti húsið árið 1952 og var aðalsafn Borgarbókasafns Reykjavíkur starfrækt þar í áratugi. Guðjón Már Guðjónsson, oft kenndur við Oz, keypti húsið af Reykjavíkurborg árið 2000 fyrir 70 milljónir og var ætlunin að koma þar á fót frumkvöðlasetri. Þær áætlanir gengu ekki eftir og Guðjón seldi Nerdrum húsið í september 2002.

Í hnotskurn
» Karl Wernersson og Ingunn Wernersdóttir keyptu í sameiningu Galtalækjarskóg af bindindissamtökunum I.O.G.T. Ingunn stendur ein að þessum viðskiptum við Odd Nerdrum.