Mögnuð Sunna Gunnlaugdóttir djasspíanisti leikur á heitum fimmtudegi í Deiglunni í kvöld.
Mögnuð Sunna Gunnlaugdóttir djasspíanisti leikur á heitum fimmtudegi í Deiglunni í kvöld. — Morgunblaðið/Arnaldur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það helsta í bæjarlífinu þessa dagana er að menningarlífið verður í blóma um helgina, rétt eins og verið hefur. Það er svo sem ekki skemmtilegt að þurfa að endurtaka sig, en svona er þetta bara. Það er nú einu sinni listasumar.
Það helsta í bæjarlífinu þessa dagana er að menningarlífið verður í blóma um helgina, rétt eins og verið hefur. Það er svo sem ekki skemmtilegt að þurfa að endurtaka sig, en svona er þetta bara. Það er nú einu sinni listasumar.

Ég ætlaði reyndar að segja eitthvað jákvætt um fótboltann hér fyrir norðan en ég held ég verði að sleppa því í bili.

Sem sagt. Menningarlífið. Þeim sem vilja taka helgina snemma er bent á djassinn á heitum fimmtudegi í kvöld. Þar kemur fram tríó Sunnu Gunnlaugsdóttur, sem er skipað Scott McLemore á trommum og Þorgrími Jónssyni á bassa, auk Sunnu sjálfrar á píanóinu. Sunna er einhver magnaðasti djasspíanisti sem ég hef heyrt í og því er rétt að hvetja alla til að bregða sér í Deigluna í kvöld.

Þeim sem eru gefnari fyrir klassíska tónlist er hins vegar bent á hádegistónleikana í Ketilhúsinu á föstudaginn. Þar leika Eyrún Unnarsdóttir messósópran og Helga Bryndís Magnúsdóttir listir sínar. Einnig verða í Akureyrarkirkju sumartónleikar kl. 17 á sunnudaginn eins og verið allan júlímánuð. Þá munu Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona og Elísabet Waage hörpuleikari flytja tónlist með andakt.

Myndlistin fer svo í fullan skrúða á laugardaginn. Þá verða tvær sýningar opnaðar, annars vegar í DaLí galleríi og hins vegar í galleríi BOX. Í BOXinu sýnir Birta Guðjónsdóttir og í DaLí Hildur Ásgeirsdóttir Jónsson, en báðar þykja þær efnilegar myndlistarkonur.

Sama dag fer fram ganga, leiklestur og fræðsla frá Gásum að Möðruvöllum, sem nefnist Í fótspor munkanna . Miðaldafíklar og þeir sem lásu Í nafni Rósarinnar spjaldanna á milli verða væntanlega ekki sviknir af því að bregða sér aftur í tímann, að minnsta kosti í anda.

Annars sýnist mér einna helst að nú sé allt í startholunum fyrir verslunarmannahelgina. Þessi síðasta sumarhelgi, eins og margir vilja meina þó að ég sé ekki einn þeirra, er handan við hornið. Auglýsingar flæða inn um póstlúguna um hinar og þessar hátíðir.

Nú liggur fyrir skemmtidagskrá Einnar með öllu og á Siglufirði verður Síldarævintýrið . Báðar hátíðirnar eru norðanlands og þar verða dansleikir á kvöldin og fjölbreyttar skemmtanir fyrir börnin. Það er samt betra að tala um það þegar nær dregur.

Það er nefnilega ekki skemmtilegt að þurfa að endurtaka sig.

Hjálmar Stefán Brynjólfsson