ÚTHERJI var nýlega staddur í verslunarmiðstöð einni hér á landi og hafði hug á að kaupa sér gallabuxur, enda voru þær gömlu orðnar frekar slitnar.
ÚTHERJI var nýlega staddur í verslunarmiðstöð einni hér á landi og hafði hug á að kaupa sér gallabuxur, enda voru þær gömlu orðnar frekar slitnar. Eitthvað hafði Útherji heyrt af því að gallabuxur sem nefnast sama nafni og algengur orkugjafi væru góðar og leitaði hann því upp búð sem seldi slíka brók. Þegar inn var komið blöstu við verðskilti þar sem tilkynnt var að brókin kostaði á bilinu 20–25 þúsund krónur – það fór eftir því hvernig saumarnir lögðust hvar í þessu verðbili buxurnar féllu.

Söguhetjunni okkar brá heldur betur í brún og tók nokkur skref aftur á bak en þá bar að stimamjúkan afgreiðslumann sem með öllum þeim klækjum sem Dale Carnegie hafði kennt honum reyndi að fá Útherja til þess að festa fé í brókinni.

Eftir langar rökræður tókst loks að koma sölumanninum í skilning um að hann væri ekki tilbúinn að kaupa tusku fyrir þessa upphæð, jafnvel þótt verðmæti hennar gæti eflaust aukist með hækkandi heimsmarkaðsverði á olíu.

Þá upplýsti sölumaðurinn góði að Útherja byðist að kaupa brókina á raðgreiðslum til allt að tólf mánaða. Eftir að hafa reiknað hratt út í huganum að þannig myndi verð buxnanna verða a.m.k. 30 þúsund krónur stökk hann út og hljóp yfir í norska herrafataverslun stutt frá.