Eftir Halldóru Þórsdóttur halldorath@mbl.is Talsvert hefur verið rætt um áhrif sölu Actavis á markaðinn.
Eftir Halldóru Þórsdóttur

halldorath@mbl.is

Talsvert hefur verið rætt um áhrif sölu Actavis á markaðinn. Fjármunir kaupandans Novator streyma til fyrrverandi hluthafa og má leiða að því líkum að aukið fjármagn til íslenskra aðila geti leitt til enn frekari þenslu í hagkerfinu

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis, segir að viðskiptin muni hafa ákveðin eignaáhrif auk mögulegrar styrkingar krónunnar.

"Hluthafar fá peninga í sinn vasa sem að hluta leita inn á hlutabréfamarkaðinn aftur og að hluta í aðra þætti, t.d. neyslu. Þetta eykur eftirspurn í hagkerfinu. Hækkun gengis krónunnar dregur hins vegar frekar úr vexti hagkerfisins. Eignaáhrifin og gjaldeyrisáhrifin virka því í gagnstæðar áttir á ákvarðanir Seðlabankans." Hann segir ekki gefið hvor áhrifin séu sterkari en telur líklegra að eignaáhrifin séu sterkari. Í sjálfu sér kyndir þetta undir verðbólgu en áhrifin eru óveruleg, því stærð Actavis á íslenskum markaði sé ekki meiri en raun beri vitni.

"Áhrifin eru til staðar en þau eru lítils háttar," segir Ingólfur. Ólíklegt sé að þenslan muni aukast að því marki að það muni breyta einhverju um peningastjórn Seðlabankans.

Vilja fá greitt í evrum

Novator greiðir um 90% hlutafjárins í Actavis í evrum. Seljendum hlutabréfanna gafst kostur á að velja hvort þeir vildu greiðslu í evrum eða íslenskum krónum en tilboðið var sett fram í evrum.

Kaup Novator á Actavis marka þriðju stærstu skuldsettu yfirtöku eins aðila frá því að slíkar yfirtökur hófust. Er þetta niðurstaða samanburðar sem framkvæmdur var af Deutsche Bank. Þar segir einnig að hún sé sjötta stærsta skuldsetta yfirtakan í Evrópu frá upphafi.

Heildarverðmæti viðskiptanna er 5,5 milljarðar evra eða um 451 milljarður króna. Upphæð þessi er komin til vegna endurfjármögnunar skulda Actavis. Greiðsla til hluthafa, sem eru rúmlega fjögur þúsund talsins, nemur rúmlega 182 milljörðum króna.