Nýja Moskva Ferðamenn svipast um skammt frá Rauða torginu fyrr í mánuðinum. Hvert sem litið er í borginni má sjá flennistór auglýsingaskilti og líkt og í þessu tilviki er gjarnan um að ræða munaðarvörur í miðborginni.
Nýja Moskva Ferðamenn svipast um skammt frá Rauða torginu fyrr í mánuðinum. Hvert sem litið er í borginni má sjá flennistór auglýsingaskilti og líkt og í þessu tilviki er gjarnan um að ræða munaðarvörur í miðborginni. — Morgunblaðið/Baldur Arnarson
Við fyrstu sýn virðast glerhallirnar í Moskvu til vitnis um að Rússar hafi hafið vegferð í átt til opins hagkerfis. Það er þó varhugavert að miða við glansandi fordyrin einsog Baldur Arnarson komst að í heimsókn til Moskvu.
Nýfenginn auður drýpur af sérhverju götuhorni í miðborg Moskvu og nýjar glerhallir kapítalismans gnæfa yfir umhverfi sitt, líkt og systurnar sjö, hátimbraðar "rjómakökur" Stalínáranna, gerðu og gera enn í fjármálamiðstöð Rússlands.

"Þessi byggingarstíll vekur óttablandna virðingu," segir blaðamaður við förunaut sinn, roskinn heimamann sem er vel að sér í sögu lands síns, þar sem hann stendur andspænis framhlið hins sögufræga Moskvuháskóla eina aðfaranótt sunnudags fyrr í mánuðinum.

"Þessi upplifun er blekking," segir hann og vísar máli sínu til stuðnings til þrengslanna í herbergjunum í turnunum háu.

Viku síðar segir ferðafélagi skrifara frá heimsókn konu sinnar til prófessorshjóna þar í borg. Um átján ár voru liðin síðan hún færði þeim búnað til rannsókna. Árið 2007 er skorturinn á rannsóknarstofunni jafn áþreifanlegur.

Ekki þarf að ræða við marga Moskvubúa til að átta sig á því að raunverulegur styrkur Rússlands er viðkvæmt mál og eldfimt.

Tveir háskólanemar sem kynntir eru fyrir skrifara vilja Rússlandi allt, landið skal verða öflugt á ný undir styrkri stjórn forsetans með frosna KGB-andlitið.

Vesturlönd vanmeta Rússa

"Vesturlönd munu alltaf vanmeta Rússa," segir íslenskur athafnamaður, sem þekkir vel til eystra, um ímynd Rússlands út á við.

"Fyrr en síðar munu Vesturlönd gera sér grein fyrir því hvað Rússar eru að verða sterkir."

Síðar í ferðinni tekur annar Íslendingur með umsvif í Rússlandi undir þessi orð, að hluta.

"Ég er þreyttur á öllu tali um hversu miklir aular Rússar séu. Þar sem við störfum er alkóhólismi að vísu vandamál en það skyldi enginn gera lítið úr þessari þjóð."

Hvað sem þessum reynslusögum líður er vart um það deilt að arfur gamla tímans, þegar skriffinnar einir rötuðu um í reglugerðarfrumskóginum, og tóku þóknun fyrir leiðsögn um myrkviði hans, svífur enn yfir vötnum.

Þetta kemur meðal annars fram í nýlegri könnun Master Card, sem sagt var frá á þessum blöðum í síðustu viku, þar sem Moskva mælist verst til að stunda viðskipti í af um fimmtíu stórborgum heimsins, útfrá efnahagslegum stöðugleika og pólitísku og lagalegu umhverfi.

Þessi niðurstaða er í fullu samræmi við greinargerð matsmanna Alþjóðabankans sem lögð er fram í árlegri "Doing Business" skýrslu bankans fyrir árið 2007.

Þar eru Rússar í 96. sæti á lista yfir það hve greiðlega gengur að stunda viðskipti og í ljósi mikillar þenslu á fasteignamarkaði vekur athygli að þeir skipa 44. sætið yfir liðleikann við að skrá fasteignir. Til samanburðar eru Litháar í 16. sæti yfir það hversu auðvelt er að stunda viðskipti, Eistar í því 17., Lettar í 24., Úkraínumenn í 128., Slóvakar í 36., grannar þeirra Slóvenar í 61, Pólverjar í því 75, Rúmenar í 49., Búlgarar í 54., Tékkar í 52., Ungverjar í 66. og Asíuríkin Úsbekistan og Kasakstan í 147. sæti annars vegar og í 63. hins vegar. Ísland er í 12. sæti.

Eystrasaltsríkin standa sig því vel en eftir því sem gömlu austantjaldsríkin eru fjölmennari, þeim mun lengra sýnist í land með að viðskiptalífið losi sig við arfinn og slíti höftin frá Sovéttímanum. Slíkur samanburður er þó vitaskuld yfirborðskenndur og auðvitað er veruleikinn miklu flóknari.

Tengslanetið skiptir máli

Spillingin tekur á sig ýmsar birtingarmyndir eystra. Hverskyns mútur eru algengar í stjórnkerfinu og það orð fer af fjármálalífinu í Moskvu að þar komist enginn áfram nema að njóta velvildar réttra aðila. "Umboðslaun" séu ósjaldan smurolían sem komi hugmyndum í framkvæmd.

Hvað sem þessu líður eru Moskvubúar á fleygiferð, æðasláttur borgarinnar er æðisgenginn, jafnt að nóttu sem degi. Sólarhringsafgreiðsla verslana er að ryðja sér til rúms og innan um neonljós og flennistór auglýsingaskilti þjóta Lada og Mercedes-Benz bifreiðar hlið við hlið eftir hraðbrautinni í átt til nýrrar framtíðar.