Árni Johnsen
Árni Johnsen
"ÞAÐ er því miður ekkert nýtt í þessari skýrslu.
"ÞAÐ er því miður ekkert nýtt í þessari skýrslu. Í stað þess að vinna sjálfstætt byggir VST mikinn hluta máls síns á skýrslu Mott MacDonald, sem hafnað hefur verið af sérfræðingum Vegagerðarinnar og er aðhlátursefni verktaka á Norðurlöndum," segir Árni Johnsen, 6. þingmaður Suðurkjördæmis, um nýbirta skýrslu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen um jarðgöng til Vestmannaeyja. VST gerir ráð fyrir 50 til 82 milljarða króna kostnaði en þær tölur telur Árni til marks um að menn séu ekki niðri á jörðinni. Búið sé að rannsaka 15 kílómetra af 18 á milli lands og eyja nokkuð vel. Þar hafi helstu sérfræðingar Íslands og Noregs metið svæðið aðgengilegt fyrir gangagerð og áætlað kostnaðinn 16-18 milljarða í heild. Það er ófrávíkjanleg krafa að hans mati að frumrannsóknum verði lokið því kostnaður hlaupi á tugum milljarða, sama hvaða leið verði farin, Bakkafjara, Herjólfur eða göng. "Ægisdyr hafa þegar fengið tilboð undir 100 milljónum í rannsóknarvinnuna, en VST segir þær kosta 115-275 milljónir." Þá kveður Árni áhyggjur af eldvirkni við Vestmannaeyjar órökstuddar. "Byggðin í Heimaey er miklu nær eldvirkninni en gangasvæðið. Menn hefðu alveg eins getað lagt til að íbúar Vestmannaeyja yrðu fluttir burt út af hættuástandi."