Heimsmeistarar Hilmar Finnsson og Yngvi Björnsson hanna alhliða leikjaforrit.
Heimsmeistarar Hilmar Finnsson og Yngvi Björnsson hanna alhliða leikjaforrit.
Eftir Gunnhildi Finnsdóttur gunnhildur@mbl.is ÍSLENSKT gervigreindarforrit vann heimsmeistarakeppni alhliða leikjaforrita sem lauk í Vancouver í Kanada á mánudaginn.
Eftir Gunnhildi Finnsdóttur gunnhildur@mbl.is
ÍSLENSKT gervigreindarforrit vann heimsmeistarakeppni alhliða leikjaforrita sem lauk í Vancouver í Kanada á mánudaginn. Tölvunarfræðingarnir Yngvi Björnsson, dósent við Háskólann í Reykjavík, og Hilmar Finnsson, meistaranemi við sama skóla, hönnuðu forritið sem er jafnvígt á skák, dammtafl og sudokuþrautir.

"Þeir sem hafa verið að rannsaka gervigreind hafa notað leiki sem verkfæri til þess að þróa hugmyndir sínar vegna þess að forrit þurfa að búa yfir mörgum eiginleikum mannlegrar greindar til þess að geta spilað leiki vel," sagði Yngvi. Alhliða leikjaforritum, á borð við það sem hann og Hilmar hönnuðu, þarf ekki að kenna hvernig á að spila ólíka leiki til þess að sigra, þau reikna það sjálf út þegar þau hafa fengið upplýsingar um reglur leiksins.

Ökutæki sem stýra sér sjálf

"Leikir eru okkar rannsóknarstofa. Þetta er svo nýtt svið, við erum enn að stíga fyrstu sporin í gervigreind. Fyrsta stigið hjá okkur er að þróa tækni sem gerir hugbúnaði mögulegt að læra. Þegar tæknin er orðin nógu þroskuð getum við farið að beita henni í raunverulegum aðstæðum. Sem dæmi má nefna ökutæki sem stýra sér sjálf og geta lært á umhverfi sitt."

Í heimsmeistarakeppninni spiluðu forritin yfir 40 ólíka leiki, sem flestir voru afbrigði af vinsælum leikjum á borð við skák, dammtafl og sudokuþrautir, þar til forrit Íslendinganna stóð uppi sem sigurvegari. Keppendur fengu ekki upplýsingar um reglur leikjanna fyrr en 10 til 15 mínútum fyrir keppni, svo þeir gætu ekki hannað hugbúnaðinn með fyrirfram ákveðna leiki í huga.

Yngvi segir forskot þeirra Hilmars hafa falist í nýrri leitartækni. "Í gervigreindinni eru menn bæði að vinna með þekkingu og hvernig við notum hana. Við notuðum nýja tækni í leitaraðferðum til þess að spá fyrir hvað andstæðingurinn myndi gera og sjá fram í tímann."

Hann segir að sigurinn sé fyrst og fremst viðurkenning á því rannsóknarstarfi sem hefur farið fram í Háskólanum í Reykjavík og að allir sem vinni að þróun gervigreindar fylgist með keppninni. "Við erum búnir að koma okkur á kortið í gervigreindarrannsóknum."

Í hnotskurn
» Þau sem hafa áhuga á að spila við alhliða leikjaforrit geta heimsótt heimasíðuna games.stanford.edu. Forrit þeirra Yngva og Hilmars verður að finna þar innan skamms.
» Úrslitaviðureignin í ár var milli HR og UCLA. Sá skóli varð heimsmeistari fyrir tveimur árum þegar keppnin var fyrst haldin.