LÖGREGLAN á Akureyri handtók á mánudag þrjú ungmenni sem grunuð voru um að hafa tekið þátt í innbrotum í bænum að undanförnu. Ungmennin, tveir piltar og stúlka, sem öll eru 17 ára, játuðu brot sín og hefur mest allt þýfi verið endurheimt.
LÖGREGLAN á Akureyri handtók á mánudag þrjú ungmenni sem grunuð voru um að hafa tekið þátt í innbrotum í bænum að undanförnu. Ungmennin, tveir piltar og stúlka, sem öll eru 17 ára, játuðu brot sín og hefur mest allt þýfi verið endurheimt. Að sögn lögreglu nemur verðmæti þess hundruðum þúsunda króna. Þau hafa öll komið við sögu lögreglu áður.

Við skýrslutöku hjá lögreglu kom í ljós að annar piltanna hafði brotist inn á fjórum stöðum og gert tilraunir til þess að brjótast inn á þremur til viðbótar. Var þar um að ræða innbrot í verslanirnar Litaland og Radíónaust, einbýlishús í Glerárhverfi og aðstöðu skógræktarinnar í Kjarnaskógi. Meðal þess sem hann stal voru tvær fartölvur, myndavélar, leikjatölva og DVD-mynddiskar.

Hinn pilturinn og stúlkan aðstoðuðu hins vegar aðeins í einu innbrotanna. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur ungmennunum verið sleppt og teljast málin upplýst. Haft var samband við foreldra þeirra auk barnaverndaryfirvalda þar sem þau eru öll undir lögaldri.