Hrifning Ben Bernanke þykir hafa allt annan stíl en forveri hans í bankastjórastól bandaríska Seðlabankans. Stjórnmálamenn eru hrifnir.
Hrifning Ben Bernanke þykir hafa allt annan stíl en forveri hans í bankastjórastól bandaríska Seðlabankans. Stjórnmálamenn eru hrifnir. — Reuters
HAF OG HIMINN skilur að stíl núverandi og fyrrverandi aðalbankastjóra bandaríska Seðlabankans. Og bandarískir stjórnmálamenn eru miklu hrifnari af stíl Bens Bernanke en forvera hans Alans Greenspan.
HAF OG HIMINN skilur að stíl núverandi og fyrrverandi aðalbankastjóra bandaríska Seðlabankans. Og bandarískir stjórnmálamenn eru miklu hrifnari af stíl Bens Bernanke en forvera hans Alans Greenspan. Margir hagfræðingar hafa lýst því sem svo að frábært innsæi hafi einkennt Greenspan og viðhorf hans til efnahagsmála, en hann hafi hvorki látið lykilhagtölur né stjórnmálamenn hafa áhrif á sig.

Ben Bernanke er allt öðruvísi og þegar hann hélt ræðu í þinginu í síðustu viku notaði hann mikinn tíma til þess að fjalla um væntingar, bæði um hagvöxt og verðbólgu. Um helming ræðutímans notaði hann til þess að tala um bandaríska neytendur og þau vandamál sem þeir standa frammi fyrir ef vextir hækka.

Alger bylting

"Þetta var gerólíkt því sem tíðkaðist hjá Greenspan. Bernanke talaði hreint út um horfurnar í stað þess að flytja hástemmda ræðu með tilheyrandi handahreyfingum um það sem honum sjálfum þætti og fyndist. Þetta var alger bylting," sagði Adam Posen frá Peterson Institute við Bloomberg. Margir þungavigtarmenn í bandarískum stjórnmálum hafa tekið í svipaðan streng og þannig lét til að mynda Barney Frank, formaður efnahagsnefndar þingsins, hafa eftir sér að menn sætu ekki lengur undir hefðbundinni hálfsársræðu gamla frændans Alans.

"Okkur hefur miðað áfram," sagði Frank.

En auk þess að hafa allt annan og opnari stíl en Greenspan hefur Bernanke líka staðið fyrir miklum breytingum í seðlabankanum sjálfum, m.a. í því skyni að gera ákvarðanir bankans gagnsærri auk þess sem hann hefur sett á fót sérstaka undirnefnd til þess að taka upp og fjalla um einstök efnahagsleg mál sem ekki hefur verið gætt nógu vel að.