Loftslagsbreytingar Umburðarlyndi Dana er mismunandi eins og hjá öðrum þjóðum en líklegt er að sá sem beitti spreybrúsanum og ritaði "umhverfissvín" á þennan dísil knúna Range Rover sé engu umhverfisvænni en bíllinn, í það minnsta ef viðkomandi borðar mikið af kjöti og mjólkurvörum. Myndin er tekin á Nyhavn í sumar.
Loftslagsbreytingar Umburðarlyndi Dana er mismunandi eins og hjá öðrum þjóðum en líklegt er að sá sem beitti spreybrúsanum og ritaði "umhverfissvín" á þennan dísil knúna Range Rover sé engu umhverfisvænni en bíllinn, í það minnsta ef viðkomandi borðar mikið af kjöti og mjólkurvörum. Myndin er tekin á Nyhavn í sumar. — Ljósmynd/Þröstur Höskuldsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Er mögulegt að einblínt sé um of á einkabílinn sem helsta sökudólg loftslagsbreytinga og að fleiri möguleikar standi til boða til að draga úr CO 2 útblæstri? Ingvar Örn Ingvarsson kynnti sér málið.
Gróðurhúsaáhrif eru nefnd til sögunnar þegar leitað er skýringa á því afhverju hitastig lofthjúps jarðar sé að hækka enda er sú kenning talin sennilegust og hafa alþjóðastofnanir stutt kenninguna. Enn fremur er oftast sérstaklega minnst á að aukning losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum kunni að valda loftslagsbreytingum og þá helst losun frá bílum. Þessi mál er hafa verið mikið í umræðunni hin síðustu ár og ekki allir á eitt sáttir, flestum er þannig líklega í fersku minni kvikmynd Al Gores, "The Inconvenient Truth" eða "Óþægilegur sannleikur." Minna hefur hins vegar farið hér á landi fyrir sjónvarpsmynd frá Channel4 stöðinni í Bretlandi "The Great Global Warming Swindle" en þar er lítið gert úr áhrifum mannsins á þær hitasveiflur sem nú ganga yfir veröldina.

Bruni jarðefnaeldsneytis?

Iðnbyltingin og aukin velmegun í heiminum hefur orðið til þess að aukning koldíoxíðs (CO 2 ) hefur margfaldast en samkvæmt umhverfisráðuneytinu hefur vægi CO 2 í andrúmsloftinu aukist um 33% frá upphafi iðnbyltingarinnar. CO 2 er svo talinn vera einn helsti áhrifavaldurinn í loftslagsbreytingum.

Einnig hefur eyðing skóga verið nefnd til sögunnar sem sökudólgur, þó sú hlið mála hafi verið minna í umræðunni upp á síðkastið en útblástur sá sem fylgir samgöngum.

FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna kynnti seint á síðasta ári til sögunnar skýrslu sem hefur hægt og rólega vakið mikið umtal.

Í skýrslunni kemur fram, öllum að óvörum samkvæmt FAO, að gróðurhúsalofttegundir frá búfé og rekstri þess hafi meiri áhrif á loftslagsbreytingar en allur útblástur vegna samgangna.

Tölurnar eru nokkuð merkilegar þegar rýnt er í þær. Sumar gróðurhúsalofttegundir hafa þannig margfalt gildi á við CO 2 sem er reiknað sem gildið einn hjá Sameinuðu þjóðunum, metan hefur t.d. hefur 23-föld gróðurhúsaáhrif á við CO 2 . Ef allar gróðurhúsalofttegundir eru teknar og mældar í gildum CO 2 þá kemur í ljós að framlag búfénaðar til gróðurhúsalofttegunda er 18% umreiknað í CO 2 . Það er meira en allur útblástur CO 2 vegna samgangna, hvort sem er á láði, legi eða í lofti eftir því sem FAO heldur fram en þeir gefa þó ekki upp heildartöluna fyrir samgöngur.

Staðan betri á Íslandi

Helgi Jensson forstöðumaður fyrir framkvæmda og eftirlitssvið hjá Umhverfisstofnun segir að sjávarútvegur, landbúnaður og samgöngur sé af sömu stærðargráðunni á Íslandi og er útblásturinn mældur í þúsundum tonna. Þannig er CO 2 gildi útblásturs sem stafar frá samgöngum 710 þúsund tonn á meðan útblástur frá landbúnaði er 500 þúsund tonn eins og kemur fram á heimasíðu umhverfisstofnunnar fyrir árið 2004.

"Þetta er reiknað útfrá fjölda húsdýra eða búfjár, fuglar og ferfætlingar. Þetta er í raun og veru losun frá hinum hefðbundna landbúnaði, bæði frá áburðarnotkun, áburði og dýrunum sjálfum" segir Helgi.

Í tölum um landbúnað er ekki CO 2 losun vegna innfluttra kjöt- og mjólkurafurða og því má vera ljóst að CO 2 talan geti verið eitthvað hærri.

Þróunin á Íslandi hefur hinsvegar verið þannig að vægi landbúnaðarins gagnvart samgöngum hefur farið minnkandi.

Spurningin er því alltaf sú hvor geirinn vaxi hraðar, landbúnaður eða samgöngur og gildir það um allan heim.

Á Íslandi hefur kolefnisbinding, t.d. vegna skógræktar og landgræðslu þó verið talsverð og eru þær tölur einnig mjög forvitnilegar þar sem binding er annarsvegar 92 þúsund tonn vegna skógræktar og 163 þúsund tonn vegna landgræslu.

Aukin velmegun vandamál

Skýrslan sýnir að aukin velmegun í Asíu gæti orðið mikið vandamál hvað þetta varðar þar sem búist er við því að neysla kjöts og mjólkurafurða muni tvöfaldast fram til ársins 2050. Asíubúar hneigjast æ meir í átt að vestrænum lifnaðarháttum og því fylgir aukin neysla á kjöti og mjólk, sem og fleiri bifreiðar.

Auk þess segir skýrslan að ræktun beitarlands sé ein helsta ástæða landrýrnunar og vatnsmengunar en búfé í landbúnaði er um 40% alls landbúnaðar.

Ef aðeins er talin til CO 2 útblástur vegna landbúnaðar er talið að sú tala sé um 9% þess útblásturs sem stafar af mannavöldum. Vandamálið liggur að nokkru leyti í því að margar aðrar gróðurhúsalofttegundir, sem verða til við rekstur búfénaðar, eru margfalt öflugri hvað gróðurhúsaáhrif varðar og nægir þar að nefna nítur-oxíð (hlátursgas) sem hefur 296-sinnum meiri áhrif en CO 2 .

Búfénaður notar nú um 30% alls lands á jörðinni og þarf t.d. skóglendi sífellt að lúta í lægra haldi fyrir nýjum beitarsvæðum, einkum í Suður-Ameríku. Það er því ljóst að í óefni stefnir á næstu árum ef ekkert verður að gert og líklegt að bílar og önnur samgöngutæki muni falla algerlega í skuggann á næstu árum ef þetta verður veruleikinn samkvæmt FAO.

Hamborgari eða Hummer?

Skýrslan hefur orðið umræðuefni fjölmargra hópa sem hafa orðið til að benda á að nauðsynlegt sé að einblína á fleira en samgöngur sem helsta áhrifavald loftslagsbreytinga. Margir hafa t.d. bent á það láti fólk sig raunverulega loftslagsbreytingar varða ætti það að byrja á því að minnka kjöt- og mjólkurneyslu.

Á Vesturlöndum var kjötneysla um 80 kíló pr/mann á ári 2002 og er 83,5 kíló pr/mann á Íslandi árið 2005. Í grein á vefsíðunni www.commondreams.org var t.d. bent á að grænmetisæta á Hummer gæti t.d. allt eins mengað minna en kjötæta á tvinnbíl eins og Prius. Svo mikill væri munurinn.

Afleiðingarnar af þessari umræðu gætu orðið víðtækar. FAO telur að verðleggja þurfi vatn og land í auknum mæli svo landbúnaður beri kostnaðinn af menguninni.

Það er allavega ljóst að það að vera umhverfissvín getur haft mun víðtækari merkingu í dag en áður og er það ekki síður kaldhæðnislegt ef það á líka við um kjötætur.

Í frétt í Morgunblaðinu þann 19. júlí er haft eftir japönskum vísindamönnum í tímaritinu Animal Science Journal að meira magn gróðurhúsalofttegunda sé losað við framleiðslu kílós af nautakjöti en verði til er farið er í þriggja tíma bíltúr. Í stað kjötneyslu meðal-Íslendings mætti því aka í 250 klukkutíma. Lífrænt kjöt er þó talið valda mun minni mengun.

Fyrir þá sem láta sig umhverfismál varða mætti því vel athuga það hvort ekki væri ráð að draga úr kjötneyslu, kannski bara borða einn hamborgara á viku í stað tveggja, ekki síður en að velja vistvænni samgöngumáta sé ætlunin er að leggja eitthvað til mála í baráttunni við vaxandi hitastig jarðar.

ingvarorn@mbl.is

www.fao.org/newsroom/en/news/2006/1000448/index.html www.ust.is/Mengunarvarnir/Hnattraenmengun/Grodurhusaahrifin/Utstreymisbokhald/ www.lydheilsustod.is/greinar/greinasafn/manneldi//nr/334