Samstarf Bandaríska alríkislögreglan FBI og kínversk stjórnvöld hafa saman skorið upp herör gegn þeim sem framleiða ólöglegan hugbúnað.
Samstarf Bandaríska alríkislögreglan FBI og kínversk stjórnvöld hafa saman skorið upp herör gegn þeim sem framleiða ólöglegan hugbúnað. — Reuters
Eftir Sigrúnu Rósu Björnsdóttur sigrunrosa@mbl.
Eftir Sigrúnu Rósu Björnsdóttur

sigrunrosa@mbl.is

SAMVINNA bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) og kínverskra stjórnvalda í baráttunni við hugbúnaðarþjófa skilaði sér í handtöku 25 manns og upptöku hugbúnaðar að verðmæti 500 milljóna dala eða um 30 milljarða íslenskra króna. Þjófarnir höfðu framleitt hugbúnaðinn í Kína og dreift um allan heim undir merkjum Microsoft og Symantec. Þetta kemur fram í The New York Post (NYP).

Segja má að handtaka hugbúnaðarþjófanna marki tímamót. Ekki aðeins vegna umfangs málsins heldur ekki síður vegna samvinnu FBI og kínverskra yfirvalda sem margir hefðu talið langt í frá sjálfsagða.

Fréttir af málinu koma á sama tíma og bandarískir stjórnmálamenn og framámenn í bandarísku athafnalífi eru að þrýsta á Kína að grípa til aðgerða gegn framleiðslu og dreifingu á stolnum hugbúnaði.

Síðan árið 2001 hefur hópur á vegum Microsoft sem vinnur að því að koma upp um þá sem stela hugbúnaði, verið á slóð hringsins sem nú var verið að uppræta. Talið er að þjófarnir hafi verið með um 30 framleiðslulínur í gangi og hafi náð að selja stolinn hugbúnað fyrir 2 milljarða dala eða um 120 milljarða króna.

David Finn, sem vinnur gegn hugbúnaðarþjófnaði hjá Microsoft, segir í samtali við NYT að árangur samvinnunnar sé merkur áfangi enda séu þetta stærstu samtök hugbúnaðarfalsara sem náðst hafi hingað til.

"Hugbúnaðurinn sem hér um ræðir var ekkert rusl sem þú kaupir á einn dal á næsta götuhorni," segir Finn en gangverðið var nálægt því sem er á lögmætum hugbúnaði. Neytendur hafi ekki áttað sig á að þeir væru að kaupa ólöglegan hugbúnað fyrr en honum var hlaðið inn og viðvörun birtist frá Microsoft á skjánum, um að verið væri að nota stolinn hugbúnað.

Hámarksrefsing fyrir hugbúnaðarþjófnað í Kína er sögð sjö ár.

Í hnotskurn
» Microsoft er þekktasti og stærsti hugbúnaðarframleiðandi heims. Í nafni fyrirtækisins voru um allan heim seldir diskar með stolnum hugbúnaði, bæði Windows-stýrikerfum og Office-pakkanum, á fjölmörgum tungumálum.
» Symantec er talið leiðandi í framleiðslu vírusvarna og ýmiskonar öryggisbúnaðar fyrir tölvur.