Ólafur Kristjánsson
Ólafur Kristjánsson
"ÞAÐ getur vel verið að ég verði sáttur við þetta stig eftir nokkrar vikur en á þessari stundu er ég ekki sáttur við 1 stig úr þessum leik. Við leikum gegn liði sem er í "skotgröfinni" frá fyrstu mínútu.
"ÞAÐ getur vel verið að ég verði sáttur við þetta stig eftir nokkrar vikur en á þessari stundu er ég ekki sáttur við 1 stig úr þessum leik. Við leikum gegn liði sem er í "skotgröfinni" frá fyrstu mínútu. Við vorum ekki nógu beittir í fyrri hálfleik og þeir skora mark eftir fast leikatriði. Eftir það fór KR-liðið enn aftar á völlinn. Það er jákvætt að við náum að jafna en Stefán Logi markvörður þeirra varði stórkostlega í tvígang í leiknum og hann kom í veg fyrir að við unnum. Það sem við hefðum átt að gera betur í þessum leik var að koma boltanum inn á svæðið á milli miðju og varnar KR. Sóknarmenn okkar voru að fá boltann á því svæði en það gekk ekki nógu vel að komast í gegnum vörn KR. Það er hrikalega erfitt að leika gegn slíkum varnarleik."

Ólafur var spurður að því hvort hann hefði verið ánægður með sóknarmanninn Prince Rajcomar í leiknum. "Prince hefur vissulega ekki skorað eins mikið af mörkum og margir af stuðningsmönnum okkar áttu von á. Hann er samt sem áður gríðarlega sterkur leikmaður. Við getum gefið á hann í fæturna og flutt liðið upp völlinn á meðan hann heldur boltanum. Hann er að mínu mati að skila því sem honum er ætlað en vissulega væri enn betra að fá fleiri mörk frá honum eða öðrum leikmönnum. Við erum að byggja upp lið og á einu ári hefur liðið tekið miklum framförum. Ég veit hinsvegar að það býr miklu, miklu meira í þessu liði en það sem það hefur sýnt fram til þessa á mótinu," sagði Ólafur Kristjánsson.