Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
Innflutt matvæli hafa lækkað segir Andrés Magnússon: "Niðurstöður allra skýrslna eru á þann veg, að skýringanna á háu verði á matvöru hér á landi, sé fyrst og fremst að leita í innflutningshömlum á landbúnaðarafurðum."
Í HVERT skipti sem birtur er samanburður á matvöruverði hér á landi og í öðrum Evrópulöndum reka menn upp ramakvein, eins og það komi alltaf jafnmikið á óvart að matvöruverð á Íslandi sé hátt. Þessi margrædda staðreynd ætti hins vegar ekki að koma mönnum í opna skjöldu. Fyrir liggja fjölmargar skýrslur um matvöruverð á Íslandi og hvar skýringanna er fyrst og fremst að leita á hinu háa verði. Nægir þar að nefna skýrslu samkeppniseftirlita Norðurlandanna, skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og skýrslu matvælanefndar forsætisráðherra. Niðurstöður allra þessara skýrslna eru á þann veg, að skýringanna á háu verði á matvöru hér á landi, sé fyrst og fremst að leita í innflutningshömlum á landbúnaðarafurðum.

Innflutt matvæli hafa lækkað

Þrátt fyrir að þessi staðreynd liggi fyrir og sé óumdeild, er eins og margir reyni hvað þeir geta að leita annarra sökudólga. Yfirleitt verður mönnum fyrst fyrir að kenna versluninni um, ekki síst innflutningsversluninni. Er hún því orðin að blóraböggli í þessari síendurteknu umræðu. Menn þreytast seint á því að ásaka innflytjendur matvæla um að vera fljótir til að hækka verð þegar gengi krónunnar veikist og vera á sama hátt seinir til að lækka verð þegar gengið styrkist. Það er auðvitað hin mesta fyrra eins og dæmin sanna. Innflutt matvæli hafa lækkað um 10% á tímabilinu júlí 2002 til júlí 2007 á sama tíma og almenn vísitala neysluverðs hefur hækkað um 23%, samkvæmt nýbirtum upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Hér þarf ekki frekar vitnanna við, innflutt matvæli hafa lækkað. Fyrir því liggja opinberar tölur sem ekki verða véfengdar.

Stjórnvöld eiga næsta leik

Það liggur fyrir að Ísland mun áfram skera sig úr í samanburði við önnur Evrópulönd, ef ekki verður innleitt frelsi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir. Frelsi í viðskiptum með þær vörur er forsendan fyrir því að unnt verði að bjóða íslenskum neytendum matvæli á sambærilegu verði og tíðkast annars staðar í Evrópu. Það ætti öllum að vera ljóst og hér eiga stjórnvöld næsta leik. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að mikilvægt sé að heilbrigð samkeppni og eðlileg verðmyndun þrífist á öllum sviðum atvinnulífsins og að neytendur njóti góðs af þeirri samkeppni. Verslun með landbúnaðarafurðir er ein mjög fárra atvinnugreina þar sem ekki á sér stað eðlileg verðmyndun, þannig að stjórnvöld hljóta að hafa haft viðskipti með þær vörur í huga þegar stjórnarsáttmálinn var saminn. Stjórnvöld eiga hér næsta leik og mun verða fylgst náið með því til hvernig þau hyggjast efna það fyrirheit sem gefið er í stjórnarsáttmálanum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna.