Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir skrifar um atvinnuþátttöku öryrkja: "Að færa athyglina frá færniskerðingu en horfa þess í stað á styrkleika einstaklinga er kúvending frá fyrra kerfi og kallar á annars konar þekkingu."

Á VEGUM forsætisráðuneytisins var skipuð nefnd sem m.a. átti að endurskoða fyrirkomulag og forsendur örorkumats og kanna atvinnuþátttöku öryrkja. Markmið nefndarinnar var að finna lausnir til að fyrirbyggja örorku og efla þátttöku öryrkja á vinnumarkaði. Meðal tillagna nefndarinnar var að breyta lögum og reglugerðum sem latt hafa fólk til tekjuöflunar, að meta starfsfærni í stað starfsfærniskerðingar og stórauka möguleika til starfsendurhæfingar. Nefndin lagði til að núgildandi örorkumat yrði fellt niður. Að setja atvinnuþátttöku í forgrunn og styrkja úrræði sem auka virkni einstaklinga hefur víðtæk áhrif. Þau fyrirtæki sem skapa fólki með skerta starfshæfni möguleika til starfa leggja miklu meira til samfélagsins en þótt bein fjárframlög í styrktarsjóði kæmu til. Íslendingar hafa verið í fremstu röð varðandi atvinnuþátttöku fólks frá 15-64 ára, en það á ekki við um atvinnuþátttöku öryrkja. Það er ekki bara launaumslagið sem skiptir máli. Vinnustaðurinn er mikilvægur. Félagsskapurinn, tilfinningin að tilheyra hópi, finna sig í hlutverki og skipta máli. Að vera í vinnu skapar ramma í tilverunni. Þar sem vinnutími og álag er hæfilegt bætir það heilsu og vellíðan. Að færa athyglina frá færniskerðingu en horfa þess í stað á styrkleika einstaklinga er kúvending frá fyrra kerfi og kallar á annars konar þekkingu en hingað til hefur verið í forgrunni. Efla þarf hæfileika og styrkleika einstaklinga og draga fram þætti sem gagnast hafa á þeim vinnustöðum sem tekið hafa á móti einstaklingum með skerta starfshæfni. Verðmæt þekking býr líka í þeim sem hrakist hafa af vinnumarkaðinum í langan tíma en komist þangað aftur. Ef slík þekking verður ekki dregin fram á skipulegan hátt verður uppskeran undir væntingum, þó svo að lögum og reglugerðum yrði breytt og starfendurhæfing stórefld.

Viðhorf atvinnurekenda, verkstjóra, samstarfsmanna og almennings gagnvart fólki með skerta vinnugetu verða að breytast. Það gerist ekki nema með milliliðalausri samvinnu á vettvangi. Stjórnvöld verða auk þess að setja ákveðnar viðmiðunarreglur til að liðka til fyrir aukinni þátttöku á atvinnumarkaði. Leggja mætti til ákveðið lágmarkshlutfall, t.d. að 15. hver ráðning félli í skaut starfsmanns sem ætti við fötlun að stríða. Svo mætti verðlauna fyrirtæki með 30% eða fleiri fatlaða starfsmenn, s.s. í formi skattaívilnana. Ráðuneytin og fyrirtæki á vegum hins opinbera eiga að sýna í verki að þeim sé alvara í því að auka þátttöku öryrkja á atvinnumarkaði og vera í fararbroddi í að ráða fólk með skerta vinnugetu og hafa í gangi tilraunaverkefni sem getið gæti af sér þekkingu sem yfirfæra mætti í einkageirann.

Það hefur sýnt sig að atvinnutækifæri, með þar til gerðum stuðningi, fyrir þá sem eru t.d. geðsjúkir skilar meiri árangri en ýmis sérhæfð úrræði. Markmiðið með atvinnuþátttöku er ekki lækning eða að skerða fjárstuðning. Fái geðsjúkir hins vegar tækifæri til að vinna við verkefni sem þeir kjósa sjálfir og á þeim hraða sem þeir ráða við, minnkar eftirspurnin eftir fjárfrekri heilbrigðisþjónustu. Ráðamenn verða að gera sér grein fyrir því að það tekur tíma að aðlagast atvinnulífinu. Atvinnurekendur verða líka að fá stuðning til að geta sýnt fólki þá þolinmæði og umburðarlyndi sem þarf og stuðningurinn verður að vera á vinnustaðnum sjálfum og vinna þarf með allt vinnuumhverfið. Einnig þarf að undirstrika að bati kemur ekki jafnt og þétt. Hann er ekki bara upp á við og bein leið, heldur koma bakslög og alls kyns hliðarspor. Alltaf er hætta á að allir verði steyptir í sama mót og gengið út frá því að þarfir allra séu svipaðar. Einnig þarf að hafa það hugfast að óþarfi er að fara í ákveðnar stellingar í samskiptum, hvort sem um geðsjúka, fatlaða, lækna eða ráðamenn er að ræða. Við erum öll venjulegt fólk sem krefst eðlilegrar framkomu. Við viljum að okkur sé sýnd virðing og öll viljum við hafa áhrif á nærumhverfið. Sum okkar þurfa lengri tíma í leiðbeiningar, skýrari fyrirmæli og meiri þolinmæði þegar læra þarf. Sumir eru næmari fyrir pirringi og vanlíðan annarra og mistúlka þennan pirring og taka hann persónulega. Flestir ná meiri árangri ef viðmótið er jákvætt og hvetjandi og sumir þurfa samstarfsfélaga sem standa með þeim sem ekki geta varið sig séu þeir beittir órétti eða misskilningur kemur upp.

Góð læknismeðferð, endurhæfing og aukið sjálfstraust duga skammt ef ekki kemur til eftirfylgd á vinnustaðnum sjálfum. Ef þeir sem þar eru í forsvari fá ekki aðstoð við að aðlaga vinnuumhverfi og/eða leiðbeiningar um nálgun, þá duga skammt nefndarálit um fögur fyrirheit á vegum forsætisráðuneytisins. Langþráð markmið hjá flestum skjólstæðingum sem ég hef kynnst í geðheilbrigðiskerfinu er að komast í vinnu, að fá að eiga samleið með öðrum og taka þátt í samfélaginu. Ekki hefur þá skort viljann heldur hafa verið of margar hindranir og lokaðar dyr.

Höfundur er forstöðuiðjuþjálf i geðsviðs LSH og lektor við HA.