8. september 2007 | Íþróttir | 662 orð | 1 mynd

Stórliðin bíða Valsara

Ekkert Malt í sóknarleik Litháanna þegar Valur vígði höllina sína

Ákveðinn Ægir Jónsson, línumaður Valsmanna, brýst í gegnum vörn Viking Malt og skorar í leiknum að Hlíðarenda.
Ákveðinn Ægir Jónsson, línumaður Valsmanna, brýst í gegnum vörn Viking Malt og skorar í leiknum að Hlíðarenda. — Morgunblaðið/Golli
VALSMENN fengu takmarkaða mótspyrnu gegn liði Viking Malt frá Litháen í vígsluleik Vodafonehallarinnar í gærkvöldi.
VALSMENN fengu takmarkaða mótspyrnu gegn liði Viking Malt frá Litháen í vígsluleik Vodafonehallarinnar í gærkvöldi. Valur vann öruggan sigur 28:19 og ætti að eiga greiða leið upp úr forkeppni Meistaradeildarinnar, og þá blasa við leikir við stórliðin Gummersback, Celje Lasko og Veszprém. Liðin eigast aftur við í dag klukkan 17:30.

Eftir Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Leikmenn Viking Malt byrjuðu reyndar leikinn vel í gær og voru ákveðnari í upphafi leiks. Tóku strax frumkvæðið og voru yfir 6:3. Örvhent skytta þeirra, Egidijus Morkunas, kom Valsmönnum á óvart og skoraði þrjú mörk snemma. Þessum leikmanni höfðu Valsmenn einfaldlega ekki reiknað með og gerðu ráð fyrir rétthentum leikmanni á hægri vængnum. Heimamenn náðu þó að vinna sig betur inn í leikinn og voru grimmir að keyra hraðaupphlaupin.

Fimm mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks varð svo vendipunktur í leiknum, þegar áðurnefndur Morkunas slasaðist á fæti og var fluttur á sjúkrahús. Sóknarleikur litháíska liðsins hrundi gersamlega eins og spilaborg og eftirleikurinn var vægast sagt auðveldur fyrir Íslandsmeistarana.

Síðari hálfleikur var veisla fyrir Valsmenn og þeirra fljótustu menn röðuðu inn mörkum úr hraðaupphlaupum. Baldvin Þorsteinsson skoraði til að mynda 11 mörk og þurfti ekki að hafa mikið fyrir þeim.

,,Bjóst við erfiðari leik"

Lið Viking Malt er ágætt varnarlið en furðulegt að sjá hversu mikill gæðamunur er á sókn og vörn hjá liðinu. Á vegg í hinni glæsilegu Vodafone-höll Vals stendur stórum stöfum: ,,Látið kappið aldrei bera fegurðina ofurliði." Ekki var fegurðinni fyrir að fara í sóknartilburðum gestanna, sem úr því sem komið er eiga ekki möguleika á því að slá út Val og komast í riðlakeppnina. Til þess þarf mikið að breytast hjá þeim á einum sólarhring.

Hjalti Pálmason, leikmaður Vals, sagðist hafa átt von á meiru frá Litháunum: ,,Já sérstaklega miðað við þá leiki sem við sáum með þeim á myndbandi. Þeir virkuðu mjög sterkir í þessum leikjum sem við sáum. Líkamlega sterkir og sprækir varnarlega. Eru svolítið villtir í 3-3 vörninni. Það tók okkur líka smá tíma að finna leiðina fram hjá þeim. Þegar við fórum að verða rólegri þá voru þeir alltaf á eftir okkur. Það var auðvitað smá stress í manni enda mikið í húfi. En þetta var auðveldara en ég átti von á, ég verð að viðurkenna það," sagði Hjalti og hann er sammála því að mikill munur hafi verið á Viking í sókn og vörn:

,,Já það var töluverður munur. Örvhenta skyttan þeirra er víst ný hjá þeim og hann kom okkur nokkuð á óvart í byrjun og skoraði nokkur mörk. Eftir að hann meiddist þá er eins og eitthvað sálrænt hafi gerst hjá Litháunum því sóknarleikurinn hrundi bara hjá þeim. Þeir urðu virkilega ragir í sóknaraðgerðum sínum og mér fannst frekar auðvelt að verjast þeim í síðari hálfleik. Þar fyrir utan var Óli sprækur fyrir aftan vörnina."

Ættu Valsmenn ekki að geta keyrt yfir þetta lið í síðari leiknum? ,,Ef við fáum vörnina í gang hjá okkur eins og gerðist í kvöld þá getum við gert það. Við erum með virkilega fljóta menn eins og Baldvin, Fannar og Arnór. Það á því ekki að vera vandamál fyrir okkur að skora þannig mörk," sagði Hjalti Pálmason.

Valur 28 Viking Malt 19

Vodafonehöllin á Hlíðarenda, forkeppni Meistaradeildar Evrópu, fyrri leikur, heimaleikur Viking Malt, föstudaginn 7. september 2007.

Gangur leiksins: 0:2, 2:4, 3:6, 6:6, 8:8, 12:8, 13:8, 14:10, 18:10, 24:13, 24:16, 27:26, 28:19.

Mörk Vals: Baldvin Þorsteinsson 11/3, Arnór Gunnarsson 4, Ernir Hrafn Arnarson 3, Ingvar Árnason 3, Kristján Þór Karlsson 2, Anton Rúnarsson 1, Gunnar Harðarson 1, Ægir Jónsson 1, Elvar Friðriksson 1, Fannar Friðgeirsson 1.

Varin skot: Ólafur H. Gíslason 18/2 (þar af 4/1 aftur til mótherja), Pálmar Pétursson 1.

Utan vallar: 10 mínútur.

Mörk Viking Malt: Nedas Jarasunas 5/1, Petras Ocikas 5, Egidijus Morkunas 3, Arturas Strupas 2, Nerijus Latysevicius 2, Marius Vzezniauskas 2.

Varin skot: Andrius Zvirblis 14 (þar af þrjú aftur til mótherja).

Utan vallar: 10 mínútur.

Dómarar: Holger Fleisch og Jürgen Rieber, Þýskalandi.

Áhorfendur: Á bilinu 600 til 700.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.