Gunnlaugur Sigmundsson
Gunnlaugur Sigmundsson
NÝ STJÓRN Icelandair Group hf. var kjörin í gær á hluthafafundi félagsins og nýr stjórnarformaður var svo kjörinn Gunnlaugur M. Sigmundsson. Á sama fundi var ákveðið að breyta samþykktum félagsins í þá átt að stjórnarmönnum verði fækkað úr sjö í fimm.
NÝ STJÓRN Icelandair Group hf. var kjörin í gær á hluthafafundi félagsins og nýr stjórnarformaður var svo kjörinn Gunnlaugur M. Sigmundsson. Á sama fundi var ákveðið að breyta samþykktum félagsins í þá átt að stjórnarmönnum verði fækkað úr sjö í fimm. Auk Gunnlaugs voru kjörnir í stjórnina Ómar Benediktsson, varaformaður, Ásgeir Baldurs, Einar Sveinsson og Finnur Reyr Stefánsson. Hluthafafundurinn var haldinn í kjölfar þess að Finnur Ingólfsson, fyrrverandi stjórnarformaður Icelandair, seldi alla hluti sína í félaginu.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Gunnlaugur að tilgangurinn með fækkun stjórnarsæta væri að gera stjórnina skilvirkari og væri ætlunin sú að hún fundaði oftar og ynni nánar með framkvæmdastjórn félagsins.

"Það er vilji okkar að halda áfram að byggja félagið upp, að halda áfram að bæta þjónustu við farþega og viðhalda góðum samskiptum við hluthafa og starfsmenn."

Lagði Gunnlaugur á það áherslu að hann og samstarfsaðilar hans litu á Icelandair sem langtímafjárfestingu.