20. september 2007 | Viðskiptablað | 1332 orð | 1 mynd

Hyggjast stórefla söludeild Industria

Guðjón Már Guðjónsson og Erling Freyr Guðmundsson segja fyrirtækið tilbúið fyrir næsta áfanga

Ljósleiðaravæða Írland Guðjón Már Guðjónsson, forstjóri Industria, kynnti starfsemi fyrirtækisins á Írlandi fyrir forsætisráðherra, Geir H. Haarde, í opinberri heimsókn þess síðarnefnda til Írlands í síðustu viku.
Ljósleiðaravæða Írland Guðjón Már Guðjónsson, forstjóri Industria, kynnti starfsemi fyrirtækisins á Írlandi fyrir forsætisráðherra, Geir H. Haarde, í opinberri heimsókn þess síðarnefnda til Írlands í síðustu viku. — Ljósmynd/Davíð Logi Sigurðsson
Frændurnir Guðjón Már Guðjónsson og Erling Freyr Guðmundsson stofnuðu breiðbandsfyrirtækið Industria fyrir fjórum árum og segjast hafa lagt áherslu á það fram til þessa að þróa góða vöru og treysta innviði fyrirtækisins.
Frændurnir Guðjón Már Guðjónsson og Erling Freyr Guðmundsson stofnuðu breiðbandsfyrirtækið Industria fyrir fjórum árum og segjast hafa lagt áherslu á það fram til þessa að þróa góða vöru og treysta innviði fyrirtækisins. Nú telja þeir hins vegar kominn tíma til að stíga næsta skref, þ.e.a.s. að efla söludeild fyrirtækisins þannig að þeim verði kleift að stækka mikið á markaði. Þeir segjast vera að skoða ýmsar leiðir til að stækka, með hlutafjáraukningu eða aðkomu fjársterkra aðila.

Rúmlega 100 manns starfa hjá Industria, um fjörutíu þeirra eru hér á Íslandi en afgangurinn er annars staðar, um tíu starfa við hugbúnaðargerð í Sofiu í Búlgaríu, þrír á skrifstofu sem Industria rekur í Shenzhen í Kína, um 35 km frá Hong Kong, og svo um fimmtíu í Dublin á Írlandi.

Írlandsverkefnin sem Industria hefur með höndum marka undirstöður fyrirtækisins. Þar er annars vegar verið að ljósleiðaravæða heilu sveitirnar og hins vegar bjóða upp á lausnir í gegnum ljósleiðarana; það sem þeir Erling og Guðjón kalla Digital Living.

Ástæða þess að Írland varð slíkur aðalvettvangur starfs Industria er sú að fyrir þremur árum gerðu þeir Erling og Guðjón kjölfestusamning við CVC, fyrirtæki í eigu Kenneths Petersons, fyrrverandi aðaleiganda Norðuráls. "Það samstarf hefur verið mjög farsælt. Við byrjuðum mjög snemma að byggja upp ákveðin kjarnasvið úti í Dublin og höfum verið mjög heppnir með starfsfólk," segir Guðjón. Mikil viðskipti hafi orðið til á Írlandi á fyrstu starfsárum Industria sem móti starf fyrirtækisins æ síðan.

Industria er nánast markaðsráðandi á Írlandi að því er varðar ljósleiðaravæðinguna, en Magnet, samstarfsaðili þeirra (fyrirtæki í eigu CVC) sé að leggja langstærstu ljósleiðaranetin á Írlandi.

Samningar við ýmis sveitarfélög á Írlandi um breiðbandsvæðingu tryggði þeim einnig stór verkefni. "Á mjög stuttum tíma náðum við góðu forskoti á markaðnum," segir Erling. Hann bjó einmitt úti á Írlandi í tvö og hálft ár á meðan þeir voru að ýta þessum stóru verkefnum úr vör. Nú segja þeir starfsemina á Írlandi hafa náð jafnvægi og reksturinn sé í góðum höndum þarlendra stjórnenda. Erling er því kominn aftur heim með fjölskylduna en bíður þess í raun að flytja utan aftur; þá á nýtt markaðssvæði. Ekki er þó ljóst hvar það yrði.

Ítrekað verðlaunaðir fyrir framsækni

Industria hefur ítrekað á síðustu mánuðum og misserum verið verðlaunað fyrir framsækni á sínu sviði. Fyrirtækið sérhæfir sig í hugbúnaði til tengingar breiðbandsneta og þráðlausra neta og hafa lausnir þess fyrir stafrænt sjónvarp og aðra þjónustu – sem ganga undir nafninu Zignal – vakið mikla eftirtekt.

Nú síðast hlaut Industria og samstarfsaðili þess, Inuk, á Englandi verðlaun fagritsins Global Telecoms fyrir "Freewire", en "Freewire" þótti besta nýjungin á sviði sjónvarps um internet. "Freewire" er ætlað að veita öllum breskum háskólastúdentum aðgang að stafrænu sjónvarpi um internetið.

Það er Inuk sem selur námsmönnum slíkan aðgang en það er hugbúnaður Industria, Zignal, sem gerir að verkum, að þetta er yfirleitt hægt með þeim hætti sem raun ber vitni. "Þeir hjá Inuk völdu okkar lausn eftir mikla rannsókn á markaðnum," segir Guðjón Már. "Það var ákvörðun sem var tekin af vörustjórum og tæknistjórum en ekki endilega fjármálastjórum og forstjórum sem eru meira í pólitíkinni, þetta var meira tekið út af verðleikum vörunnar."

Verðleikarnir felast í sveigjanleika hugbúnaðarins og möguleikum á að sérsníða hann að þörfum viðskiptavinarins.

"Við komum inn á þennan markað af fullum krafti sem lítið fyrirtæki að keppa við risana. Smæðin þýðir að við getum hreyft okkur miklu hraðar og við komum líka með svolítið nýjungagjarna hugsun sem byggir á töluvert mikilli reynslu manna af íslenska markaðnum alveg síðan 1999-2000," segir Guðjón. Hann hefur auðvitað verið tengdur þessum geira atvinnulífsins í árabil, jafnan kenndur við tölvufyrirtækið Oz.

Erling – en þeir Guðjón eru systkinabörn – hefur hins vegar einnig langa reynslu að baki. Erling sinnir einkum sölu- og rekstrarhliðinni á meðan Guðjón stýrir viðskiptaþróun og stefnumótun, en þeir leggja báðir áherslu á að að baki þeim standi samhentur og öflugur hópur fólks sem mikla reynslu hafi á sínu sviði.

Gríðarleg gerjun á markaðnum

Viðskiptavinir Industria á Írlandi eru m.a. byggingaverktakar sem reisa heilu borgarhverfin. Auk stafrænnar afþreyingar vilji þeir bjóða væntanlegum kaupendum upp á hluti eins og öryggismyndavélar og heimastýringu, sem þeir Guðjón og Erling segja að sé að koma sterk inn núna, þ.e. hússtjórnarkerfi þar sem fólk getur stjórnað sjónvarpi, stýrt ljósum og hita frá einum stað.

Industria sjái um þessa hlið mála – þeir sjái um að innleiða þessa nýju fjarskiptaveitu. Fyrst og fremst snúi þetta þó að aðgangi að fjölmiðlum og tónlist. "Við erum að færa alls kyns afþreyingu úr heimilistölvunni yfir í hægindastólinn í stofnunin þar sem þú stjórnar með fjarstýringunni," segir Guðjón. "Með okkar lausn býðst fólki aðgangur að meira en 100 sjónvarpsstöðvum, allt í hágæðum í gegnum breiðband."

Á Englandi eru þeir sem fyrr segir í samstarfi við fyrirtækið Inuk um að gera námsmönnum á heimavist háskólanna kleift að nálgast sjónvarp í tölvum sínum. Á bilinu 70.000 til 80.000 herbergi hafi nú þegar aðgang að þessari þjónustu, en Inuk setur skammtímamarkið á 500 þúsund notendur, en allt að 6 milljónir notenda á næstu misserum.

Inuk greiðir Industria mánaðarlegar greiðslur vegna hugbúnaðarins en Industria kemur aldrei sjálft í snertingu við neytandann sjálfan. Fjarskipta- og afþreyingarfyrirtæki eins og Inuk og Magnet á Írlandi eru viðskiptavinir Industria.

Guðjón segist hafa mikla trú á því sem þeir eru að gera. "Það á eftir að verða gríðarlegur samruni í þessum afþreyingar- og tækniheimi. Við hér á Íslandi höfum verið að fylgjast með ólgu á þessum markaði með þeim hræringum sem hafa orðið hjá Símanum og Vodafone og Skjánum og 365, svo dæmi séu tekin. Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, hefur líka fjárfest í sjónvarpsstúdíói og DV opnaði í síðustu viku dv.tv. Það eru allir gera eitthvað spennandi. Það eru allir að reyna að finna sér einhverja nýja fótfestu og ná hluta af kökunni sem þessar sjónvarpsauglýsingar eru."

Segist Guðjón telja að hér ræði aðeins um forsmekkinn af því sem koma skuli. Afþreying, tækni og tölvur séu að renna saman í eitt. Í þessum heimi lifa þeir Erling og hrærast, hafa staðsett sig í miðjunni, ef svo má að orði komast, eru aðilinn sem kemur með lausnina. Guðjón tekur dæmi: af hverjum seldum magnara frá Sony borgi Sony Dolby fyrir þeirra tækni, sem tryggir betri hljómburð. "Það er það sama sem gerist þegar viðskiptavinir okkar borga okkur fyrir afnot af hugbúnaði."

Erling bendir á að á næstu fimm árum eigi að byggja þrjár milljónir heimila á Bretlandi, 70.000 ný heimili séu byggð ár hvert á Írlandi. Markmið Industria sé að tryggja sér hluta af þeirri köku, sem óneitanlega myndast við þessar framkvæmdir, og við þá miklu eflingu stafrænna dreifineta sem sé að drífa fjarskipta- og afþreyingarmarkaðinn áfram um þessar mundir.

Skoða yfirtöku annarra fyrirtækja á sama markaði

"Undanfarin þrjú ár höfum við verið að byggja innviði fyrirtækisins. Á næsta ári stefnum við hins vegar inn á nýja markaði og stefnum að því að stórefla söludeildina okkar. Við höfum verið að þróa okkar vörur, þær eru tilbúnar. Við höfum ekki verið að hlaupa út um allt og selja vöruna fyrirfram, en höfum engu að síður náð mjög góðum árangri. Nú er komið að því að rétt er að fara að efla söludeildina. Næsta ár verður ár vaxtar hjá okkur," segir Erling.

"Við teljum að fyrirtækið sé tilbúið fyrir næsta áfanga," bætir Guðjón við. Nú sé lag að nýta þau tækifæri sem séu á alþjóðlegum fjarskipta- og afþreyingarmarkaði til að efla fyrirtækið og auka markaðsumsvif þess. Með þetta fyrir augum sé Industria þessa dagana að undirbúa hlutafjárútboð til að fjármagna þessa uppbyggingu. Ekki hefur verið ákveðið hversu stór sú hlutafjáraukning yrði og Guðjón segir það að hluta ráðast af aðstæðum á fjármálamarkaði og þær séu ekki ýkja hagfelldar einmitt núna. Hagnaður hafi hins vegar verið af rekstri fyrirtækinu ár hvert en ekki nægilega mikill til að hann geti staðið undir þeim vexti sem nú sé nauðsynlegur til að fylgja eftir góðum árangri á heimamarkaði félagsins á nýjum markaðssvæðum.

Til greina kemur jafnframt að taka yfir önnur fyrirtæki á sama markaði, sem aðferð til að stækka. Segjast þeir vera með tvö fyrirtæki í grunnskoðun með þetta í huga.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.