9. október 2007 | Daglegt líf | 553 orð | 2 myndir

úr bæjarlífinu

VESTMANNAEYJAR

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hafa skal það sem sannara reynist. Síðast þegar ég skrifaði í þennan dálk gerði ég Þjóðhátíð Vestmannaeyja að umtalsefni en hún stendur á gömlum merg eins og flestir vita.
Hafa skal það sem sannara reynist. Síðast þegar ég skrifaði í þennan dálk gerði ég Þjóðhátíð Vestmannaeyja að umtalsefni en hún stendur á gömlum merg eins og flestir vita. Þar greindi ég frá almæltum sögnum um upphaf hennar sem segja frá því að árið 1874 hafi Eyjamenn ekki komist á Þingvöll til að taka þátt í hátíðarhöldunum þar. Þeir hafi ekki sætt sig við það, slegið upp sinni eigin þjóðhátíð fyrstu helgina í ágúst sama ár og sá siður hafi haldist síðan.

Morgunblaðið var rétt komið á götuna þegar Stefán Runólfsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri í Vestmannaeyjum, hringdi í mig og sagði þetta ekki rétt. Stefán var mjög virkur í starfi ÍBV og árið 1997 kom í hans hlut að halda hátíðarræðu við setningu Þjóðhátíðar.

Stefán lagðist í rannsóknir og komst að því að skemmtanir í Herjólfsdal áttu sér lengri sögu, líka að hátíðin 1874 var haldin þremur dögum á undan hátíðinni á Þingvöllum og saga hennar er ekki eins samfelld og menn vilja vera láta.

Í þessum hluta ræðu sinnar segir Stefán: "Fyrst fara sögur af því að eyjaskeggjar færu í Herjólfsdal til að skemmta sér uppúr miðri 19. öldinni og í verslunarbókum Tangaverslunar frá 1859 kemur fram að Pétur Bryde, eigandi verslunarinnar bauð þangað árlega starfsmönnum sínum og sparaði ekki til veitinganna. En Þjóðhátíð Vestmannaeyja var fyrst haldin 2. ágúst 1874 til að minnast 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar.

Sá leiði og því miður allt of útbreiddi misskilningur hefur öðru hvoru komið fram, bæði í ræðu og riti, að Þjóðhátíð Vestmannaeyja hafi verið haldin í Herjólfsdal vegna þess að fulltrúar Vestmannaeyinga hafi ekki komist til lands og þaðan til Þingvalla. Hátíðin á Þingvöllum hófst 5. ágúst eða þremur dögum síðar en Vestmannaeyingar héldu sína Þjóðhátíð í Herjólfsdal.

Þessi fyrsta Þjóðhátíð hér í Herjólfsdal var því langt frá því að vera haldin út úr einhverjum vandræðum eða af tilviljun vegna þess að fulltrúar Vestmannaeyinga kæmust ekki á Þingvöll. Þetta var vandlega undirbúin hátíð, þar sem tjöld voru reist hér í dalnum og hann skreyttur fánum, lyngi og blómum. Fluttar voru ræður og matur fram borinn og fór hátíðin fram með góðri glaðværð og með bestu reglu og voru fáir ölvaðir, eins og segir í gömlum heimildum.

Í samtímablöðum eða Almanaki Þjóðvinafélagsins er síðan ekki getið um þjóðhátíðarhald í Herjólfsdal fyrr en árið 1901. Síðan hefur þjóðhátíðin verið haldin á hverju sumri í Herjólfsdal fyrir utan árin 1914, þegar fyrri heimsstyrjöldin geisaði, og síðan árin 1973 til 1976 á meðan dalurinn var þakinn vigri eftir eldgosið.

Það eru því margar og öruggar heimildir fyrir því að eina Þjóðhátíðn sem haldin er fyrir 1901 er fyrsta Þjóðhátíðin sem haldin var 2. ágúst 1874 þegar minnst var eitt þúsund ára byggðar í landinu.

Að framansögðu er því ljóst, að tala Þjóðhátíða fylgir öldinni og er það reyndar skemmtileg tilviljun þótt rekja megi upphafið til fyrri aldar eða ársins 1874," sagði Stefán.

Þótt ekki sé Þjóðhátíð í vændum er rétt að þetta komi fram, því hafa skal það sem sannara reynist.

Til fróðleiks má geta þess að á gosárunum, 1973 til 1976, var hátíðin haldin á Breiðabakka sem er sunnarlega á Heimaey. Hér með er þessu komið á framfæri en ekki mun þetta breyta viðhorfi Eyjamanna til Þjóðhátíðarinnar sinnar sem á djúpar rætur í bæjarsálinni. Og enn skiptist árið í fyrir og eftir Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Ómar Garðarsson blaðamaður

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.