18. október 2007 | Innlendar fréttir | 717 orð | 2 myndir

Leikfangamarkaður springur út

Tvær stórverslanir með leikföng opnaðar í sama mánuði og boða samkeppni og verðlækkanir

Opnað í dag Fyrsta Toys'R'Us-verslunin á Íslandi verður opnuð í dag við Smáratorg. Leikfangakeðjan rekur verslanir í 35 löndum.
Opnað í dag Fyrsta Toys'R'Us-verslunin á Íslandi verður opnuð í dag við Smáratorg. Leikfangakeðjan rekur verslanir í 35 löndum. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Markaður fyrir leikföng á Íslandi er að taka stakkaskiptum þessa dagana. Framboð á leikföngum stóreykst þegar tvær risastórar leikfangaverslanir verða opnaðar á höfuðborgarsvæðinu í þessum mánuði.
Eftir Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Markaður fyrir leikföng á Íslandi er að taka stakkaskiptum þessa dagana. Framboð á leikföngum stóreykst þegar tvær risastórar leikfangaverslanir verða opnaðar á höfuðborgarsvæðinu í þessum mánuði. Báðar stórverslanirnar boða miklar verðlækkanir og harða samkeppni. Báðar ryðja þær sér til rúms undir enskum nöfnum. Toys'R'Us sem útibú alþjóðlegrar verslanakeðju og í kynningu á leikfangaversluninni sem ber heitið Just4Kids er þetta rökstutt með þeim orðum að hún sé íslensk verslun í alþjóðlegri samkeppni, hérlendis og væntanlega erlendis á næstunni. Þess vegna heiti hún þessu enska nafni.

Toys'R'Us er stærsta leikfangaverslunarkeðja heims og opnar í dag stórverslun við Smáratorg í Kópavogi. Í lok mánaðarins svara eigendur Leikbæjar fyrir sig og opna verslunina Just4Kids í 6.000 fermetra húsi við Kauptún í Garðabæ, skammt frá IKEA. Þetta verður ævintýraveröld með leikföng, barnaföt, barnahúsgögn og ungbarnavörur, segir Elías Þorvarðarson, framkvæmdastjóri Just4Kids.

Yfir 1.200 verslanir í 35 löndum

Toys'R'Us-verslunin við Smáratorg er umboðsverslun í eigu danskra umboðsaðila (Top Toy a/s) Toys'R'Us-alþjóðaverslananna á Norðurlöndum. Toys'R'Us-keðjan er bandarísk, hún rekur 586 leikfangaverslanir í Bandaríkjunum og 670 verslanir í 35 löndum um allan heim. Þar af eru 37 verslanir á Norðurlöndunum og í næsta mánuði verður gert strandhögg í Kína þegar fyrsta Toys'R'Us-verslunin verður opnuð í Sjanghæ. Svo umfangsmikil og áhrifarík er verslanakeðjan að þegar fyrsta stórverslunin með leikföng var opnuð í Japan gerði forseti Bandaríkjanna sér sérstaklega ferð til að vera viðstaddur athöfnina.

Samruni smærri leikfangabúða vegna harðnandi samkeppni

Leikfangaverslunum hefur fækkað á umliðnum árum. Litlu sjálfstæðu leikfangabúðirnar hafa margar hverjar smám saman horfið af sjónarsviðinu.

Just4Kids er í eigu tveggja bræðra, Bjarna og Elíasar Þorvarðarsona, sem eiga jafnframt og reka Leikbæ. Stóru aðilarnir á markaði með leikföng eru Hagkaup og Leikbær sem rekur 8 leikfangaverslanir í dag. Bæði Dótabúðin og Liverpool hafa verið sameinaðar Leikbæ á seinustu misserum. ,,Samruninn er okkar leið til að takast á við harðnandi samkeppnisumhverfi sem framundan er og núna bætist við enn stærri verslun," segir Elías.

Íslensk leikfangaverslun hefur ekki verið fyrirferðarmikil á smásölumarkaðinum. Liðurinn leikföng og spil vega aðeins 0,4% í vísitölu neysluverðs sem mælir útgjöld heimilanna og leikföng finnast ekki sundurliðuð sem sérstakur vöruflokkur í tölum Hagstofunnar yfir veltu fyrirtækja.

"Það er gott fyrir neytendur ef það kemur meiri samkeppni í þessa grein. Þrír aðilar talsvert stórir, [Leikbær, Hagkaup og Toys'R'Us], eru komnir til og svo eru smærri aðilar líka sem keppa á markaðinum. Það verður líka áhugavert að sjá hvort það dregur úr innkaupum Íslendinga í útlöndum," segir Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri SVÞ.

Boða 20% verðlækkanir

Toys'R'Us boðar 20% verðlækkun, kynnir fjölda opnunartilboða í dag og lýsir verslunin yfir að hún ábyrgist "besta verðið": "Ef þú finnur vöru sem er auglýst á lægra verði, þá færðu vöruna á því verði ef þú kemur innan 14 daga," segir í auglýsingabæklingi Toys'R'Us.

Eigendur Just4Kids lofa líka 20% verðlækkun þegar opnað verður um mánaðamótin. Jólaverslunin er að ganga í garð og má búast við að samkeppnin verði áberandi og hörð strax í upphafi. "Við erum með mörg leikföng sem hafa ekki sést hér áður. Þetta er risamarkaður með leikföng," segir Guðrún Kr. Kolbeinsdóttir, verslunarstjóri Toy'R'Us á Íslandi.

Guðrún hefur langa reynslu af störfum við leikfangaverslun og er þeirrar skoðunar að innkoma Toys'R'Us muni leiða til töluverðrar lækkunar á verði leikfanga og aukinnar samkeppni, þó hún segist ekki eiga von á beinu verðstríði.

Spurð um verðstefnu verslunarinnar segir Guðrún að hún verði í samræmi við verðstefnu Toys'R'Us annars staðar á Norðurlöndum og segist eiga von á að verðlag á leikföngum hér verði á svipuðu róli og í verslununum í Noregi.

,,Við erum bæði að opna miklu stærri verslun með leikföng en við höfum verið með hingað til og við verðum líka með fjölmargt annað fyrir börn, s.s. ungbarnavörur, húsgögn í barnaherbergi, fatnað o.fl. – í rauninni allt sem lýtur að börnum, hæfni þeirra og þörfum," segir Elías Þorvarðarson um verslunina Just4Kids.

,,Við höfum fengið fleiri til liðs við okkur, m.a. Dýraríkið, stærstu gæludýraverslun landsins, 1.000 fermetra verslun.[...] Við leiðum fólk um búðina og það upplifir ákveðinn ævintýraheim um leið og það er að versla." Elías segir að eigendur Leikbæjar og Just4Kids hafi boðað fyrir um ári að þeir ætli sér að ná vöruverðinu niður um 20%. Nú séu þeir að komast í þá aðstöðu með opnun stórrar verslunar sem geri kleift að ná hagkvæmari innkaupum og lægra vöruverði. "Menn munu strax sjá 20% verðlækkun," segir hann.

Ódýrari jólagjafir í ár

"ÞARNA er um að ræða markað þar sem einn aðili var orðinn mjög stór. Ég tel fulla ástæðu til þess að fagna tilkomu þessara tveggja aðila," segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, um þær breytingar sem eru að eiga sér stað á smásölumarkaði með leikföng hér á landi með opnun stórverslana Toys'R'Us í dag og Just4Kids í lok mánaðarins.

Skerpa verulega á samkeppninni

"Þetta mun skerpa verulega á samkeppninni í þessari grein og okkur hefur ekki sýnst veita af. Þessar keðjur hafa boðað verðlækkun og miðað við þessar yfirlýsingar mega neytendur vænta þess að jólagjafirnar verði eilítið ódýrari í ár," segir Jóhannes.

Hann segir að yfirlýsingar forsvarsmanna nýrra verslana um að leikfangaverð verði 20% lægra en almennt hefur tíðkast hér á landi gefi neytendum tilefni til að ætla að verðlækkanir muni eiga sér stað. "Síðan mun samkeppnin verða harðari og aðrir munu væntanlega endurskoða verðlagninguna hjá sér og neytendur geta unað glaðari við sitt."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.