Í kapellunni Tónpredikun múm fór vel í tónleikagesti.
Í kapellunni Tónpredikun múm fór vel í tónleikagesti.
Einnig komu fram Thorngat og Jihyun Kim. Tónleikarnir fóru fram í Sankti Páls kirkju á Columbus-breiðstræti og 60. stræti, New York. 9. nóvember, 2007, kl. 20.

ÞAÐ VAR íslenskt veður í loftinu í New York föstudaginn 9. Nóvember, suðaustan súld með rigningu á köflum. Í lok dags voru götur, torg og neðanjarðarlestir troðfullar af fólki á leið úr vinnu, í vinnu, út að borða, heim, að heiman eða út að skemmta sér. Ég var hinsvegar á leiðinni á múm tónleika, og sama var að segja um u.þ.b. 1.500 aðra New Yorkbúa. Saðsetning tónleikana var á efri vesturhluta Manhatta í einni af virðulegri kaþólsku kirkjum borgarinnar, kenndri við Pál Postula. Á undan múm spilaði kanadíska hljómsveitin Thorngat og sellóleikarinn Jihyun Kim. Kanadamennirnir þrír áttu við talsverða hljóðblöndunarerfiðleika að stríða vegna bergmálsins í kirkjunni og þrátt fyrir fallega sellótóna Jihyun Kim drukknaði hljómurinn í endurkasti frá innviðum kirkjunnar.

Múm á greinilega mjög tryggan aðdáendahóp í New York því salurinn var fullur eftirvæntingar þegar hljómsveitin steig á svið eftir stutt hlé. Múm byrjaði tónleika sína á „Slow Bicycle“ af Yesterday Was Dramatic – Today is OK við góðar undirtektir þeirra tónleikagesta sem voru viðstaddir. Hljómburður í þessari gullfallegu kirkju er dálítið sérstakur eins og áður sagði og múm sneið sér stakk eftir vexti og hélt sig á lágu nótunum til að leyfa bergmálinu í salnum að njóta sín í stað þess að yfirgnæfa og kæfa tónlistina. Þetta tókst mjög vel og kvöldstundin með múm var hin ánægjulegasta í alla staði.

Hljómsveitin spilaði mestmegnis efni af nýútkominni plötu sinni Go Go Smear the Poison Ivy en kryddaði með eldri lögum eins og við var að búast.

Það er gaman að sjá múm í þessari nýjustu mynd. Mannabreytingar í hljómsveitinni hafa auðvitað haft veruleg áhrif á tónlistina og Örvar hefur tekið að sér „Front-Man“ hlutverk, hann er eins og límdur við hljóðnemann þessa dagana og er það talsverð breyting frá því sem var upphafsárum múm. Í þessari útgáfu hljómsveitarinnar er nægur raddstyrkur, og mun meiri söngur en nokkru sinni áður, Örvar, Ólöf, Mr. Silla og Hildur syngja öll og skapa mjög skemmtilegar melódíufléttur og allur samleikur þeirra er hreint út sagt frábær.

Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá fylgjendur hljómsveitarinnar standa upp á ganginum milli kirkjubekkjanna í þessari virðulegu kaþólsku kirkju og dilla sér í takt við undirförla og ísmeygilega tóna múm eftir að áhorfendur höfðu klappað hljómsveitina upp. Múm sveik ekki aðdáendur sína og og tók 3 aukalög og endaði prógrammið á hinu frábæra „I'm 9 Today“. Eftir tónleikana tíndust gestir út í íslenskt haustveður sem er nýbúið að taka völdin í New York, hráslagaleg rigning og rok úr öllum áttum, sem gerði regnhlífanotkun ómögulega, setti lokapunktinn á þennan viðburð.

Wordless Music stendur fyrir fjöldanum öllum af athyglisverðum uppákomum í New York og er hægt að fylgjast með þeim á wordlessmusic.org.

Snorri Sturluson