— Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ef fasteignaverð lækkar minnkar eigið fé fólks sem keypt hefur fasteign því skuldirnar lækka ekki. Það kunna því að vera varasamir tímar framundan í húsnæðismálum.

Pétur H. Blöndal, alþingismaður Sjálfstæðisflokks, segir að framundan kunni að vera varasamur tími fyrir fólk sem sé að kaupa sína fyrstu íbúð. Vextir séu ekki aðeins háir og húsnæðisverð hátt heldur kunni að vera framundan verðlækkun á fasteignum.

Pétur sagði að þó að staðan á húsnæðismarkaði væri erfið fyrir ungt fólk og fólk á leigumarkaði mætti ekki gleyma því að stærstur hluti almennings hefði hagnast mikið á síðustu þremur árum á hækkun fasteignaverðs. „Allur þorri almennings býr í eigin húsnæði og hann hefur hagnast mikið á þessari þróun. Eignaverð hefur hækkað mikið og langt umfram skuldir. Þeir sem sitja eftir eru leigjendur sem ekki hafa notið eignamyndunar og þeir sem eru að fara út á markaðinn núna til að kaupa sína fyrstu íbúð. Þessi hópur er að fara inn í mjög varasamt tímabil sem getur falist í því að fasteignaverð lækki en skuldirnar ekki og eigið fé gufar upp.“

Pétur sagði að lækkun vaxta á sínum tíma hefði orðið til þess að hækka fasteignaverð. Nú þegar vextir hækkuðu ætti fasteignaverð að lækka. „Ég get tekið sem dæmi 40 ára lán með 4,15% vöxtum. Greiðslan af því er á hverju ári jafnmikil og af 22% lægra láni til 40 ára en með 6% vöxtum. Þetta þýðir að fyrir sömu árlegu greiðsluna fær fólk 22% lægra lán með þessum háum vöxtum en þegar vextirnir voru sem lægstir. T.d. 25 mkr. í stað 32 mkr. Þetta segir manni að verðið ætti að lækka, en vissulega vegur á móti að laun hafa hækkað.“

Pétur sagði að þessi staða væri mjög erfið fyrir fólk sem væri að kaupa sér fasteign í fyrsta skipti og nauðsynlegt fyrir félagsmálanefnd að ræða það. „Flestir búast hins vegar við því að fasteignaverð lækki og þá lagast þessi staða af sjálfu sér.“

Pétur sagði að búið væri að leigja hundruð íbúða í Keflavík og það ætti að létta á leigumarkaðinum á höfuðborgarsvæðinu. Hann sagði að leiguverð væri háð fasteignaverði og því ætti lækkun á fasteignaverði að stuðla að lægri leigu.

Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingar og formaður félagsmálanefndar, segir brýnt að vinna hratt í þessum málum því að vandamálið sé mjög stórt, bæði hvað varðar leigumarkað og aðgang ungs fólks, sem ekki hefur góðar tekjur, að húsnæðismarkaðinum.

„Þetta er fólk sem hefur orðið út undan í hamagangi síðustu ára.“

Á vegum félagsmálaráðherra er starfandi nefnd sem vinnur að tillögum um úrbætur í húsnæðismálum. Guðbjartur sagðist hafa fylgst með störfum nefndarinnar. Hann sagðist eiga von á að tillögur nefndarinnar kæmu fram á næstu vikum.

Guðbjartur sagði að þróunin á húsnæðismarkaði sýndi að Íbúðalánasjóður hefði afar mikilvægu hlutverki að gegna. Hann væri að lána fólki á landsbyggðinni sem bankarnir hefðu lítið sinnt og einnig hefði sjóðurinn verið mikilvægur fyrir þá sem lakar væru settir.

Óskaði eftir umræðu á þingi um húsnæðismál

Birkir Jón Jónsson, alþingismaður Framsóknarflokksins, hefur óskað eftir umræðu utan dagskrár um stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði, en ekki liggur fyrir hvenær hún fer fram.

„Þessi staða í húsnæðismálum er mikið áhyggjuefni og eitt stærsta úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir í dag. Það er að koma hér kynslóð sem hefur ekki efni á að koma sér þaki yfir höfuðið, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu.

Ég tel brýnt að menn sameinist um að leysa þetta þvert á flokka. Hér er um að ræða svo stórt samfélagslegt mál að það er hafið yfir flokkadrætti að mínu mati. Ég verð var við það hjá minni kynslóð að fólk hefur mjög miklar áhyggjur af þessu. Það er orðið mjög glannalegt hvernig fólk þarf að skuldsetja sig til að komast yfir íbúð,“ sagði Birkir Jón.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, segir markmiðið eiga að vera að hafa húsnæðiskostnað sem lægstan og að efnahagsstefnan miði að því að stjórna annarri einkaneyslu.

„Ódýrasta kerfið er þekkt. Það er einfaldlega að reka Íbúðalánasjóð og bjóða fólki örugg lán á lágum vöxtum fyrir tilstyrk afls ríkissjóðs. Ég er ekki að tala um að ríkissjóður borgi niður vexti heldur að hann veiti ábyrgðir og styrk til að tryggja lán á lágum vöxtum.“

Kristinn sagði að flestir væru sammála um að ef bankarnir hefðu verið einir í íbúðalánum væri staðan enn verri. Menn verði bara að viðurkenna það að markaðslögmálin hafi ekki virkað í þessu máli. „Opinbert lánakerfi, þó að það sé á ákveðnum markaðsforsendum, reynist fólkinu best.“

Mistök að leggja félagslega húsnæðiskerfið niður

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, varaþingmaður VG sem situr í félagsmálanefnd, segir að það blasi við neyðarástand í húsnæðismálum. Hún segir að ekkert hafi komið fram um að nefnd sem er að störfum muni leggja fram lausnir sem duga. „Bæði húsaleigubætur og vaxtabætur hafa verið skertar og ekki fylgt vísitölu húsnæðiskostnaðar, en þessum bótum var ætlað að koma á móts við tekjulágt fólk.“

Guðfríður sagði að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu væri tiltekin upphæð ætluð í niðurgreiðslur á lánum til félagslegs húsnæðis. Vextir af þessum verðtryggðu lánum væru 3,5%. Hún sagði að fátækt fólk gæti ekki staðið undir lánum á þessum kjörum. Einu sinni hefði verið boðið upp á félagsleg lán með 1% vöxtum. Guðfríður Lilja sagði að á sínum tíma hefði verið unnið stórkostlegt skemmdarverk þegar félagslega húsnæðiskerfið var lagt niður og fólk væri enn að súpa seyðið af því. „Það er alveg skýrt og verður ekki hjá því komist að sérstakra úrræða er þörf fyrir tekjulágt fólk sérstaklega og fyrir höndum er almennileg uppbygging á félagslega kerfinu í þessum efnum.“