Fiskvinnsla Steinbíturinn flakaður hjá Hamrafelli.
Fiskvinnsla Steinbíturinn flakaður hjá Hamrafelli. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Hjört Gíslason hjgi@mbl.is HAMRAFELL í Hafnarfirði keypti í vikunni rúm 19 tonn af steinbít á Fjölnetinu.

Eftir Hjört Gíslason

hjgi@mbl.is

HAMRAFELL í Hafnarfirði keypti í vikunni rúm 19 tonn af steinbít á Fjölnetinu. Þetta er fyrsta salan sem þar á sér stað, en Fjölnetið er vettvangur þar sem fiskkaupendum gefst kostur á að bjóða í fisk, sem annars á að flytja utan óunninn í gámum. Steinbíturinn fór á 200 krónur kílóið og var fiskurinn af Gunnbirni ÍS. Þetta er svipað meðalverð og var á fiskmörkuðum hér heima í byrjun vikunnar.

Hamrafell hefur sérhæft sig í vinnslu á ferskum fiski, einkum steinbít, til útflutnings með flugi. Fyrirtækið kaupir fiskinn á innlendum mörkuðum. Bjarni Thorarensen Jónsson, framkvæmdastjóri Hamrafells, segir að það hafi lengi verið baráttumál hjá fiskvinnslu án útgerðar að fá að bjóða í þann fisk sem flytja á óunninn úr landi. „Þetta er í fyrsta skipti sem viðskipti fara fram á þessum vettvangi. Það var búið að reyna einu sinni áður. Þá var boðinn upp fiskur af Suðurey VE, en þá krafðist útgerðin þess að fá að lágmarki mun hærra verð fyrir steinbítinn en markaðsverðið hér heima var. Mig minnir að þeir hafi viljað fá 184 krónur fyrir kílóið að lágmarki en þá var verðið hérna heima um 150 krónur. Í vikunni á eftir var verið að selja steinbítinn á 184 til 190 krónur ytra en gera má ráð fyrir að kostnaður við útflutninginn nemi í kringum 40-50 krónum á kíló, þegar allt er talið,“ segir Bjarni.

„Við munum halda áfram að bjóða í fisk á Fjölnetinu, standi hann til boða og kröfur um lágmarksverð eru í einhverju samræmi við það sem er að gerast í kringum okkur.“

Hann segir að þetta geti verið góður kostur fyrir báða aðila, sérstak- lega í ljósi breyttra aðstæðna í sjávarútveginum. Nú hafi kvótinn í þorski verið skertur verulega. Það þýði að menn leiti þá í auknum mæli í aðrar tegundir. Á sama tíma hafi 10% álag vegna gámaútflutnings verið afnumið, sem þýði að liðkað hafi verið fyrir útflutningi á óunnum fiski. Því sé það tvímælalaust frábær kostur fyrir þá sem standa í vinnslu innanlands að geta keypt fisk, sem annars færi óunninn utan. Hefði stjórnvöldum verið einhver alvara með að koma með raunhæfar mótvægisaðgerðir hefði það verið góður kostur að gera að skyldu að þessi fiskur færi á uppboð innanlands eða á Fjölnetið. Útlendingar geti boðið í þennan fisk líka og nú á skömmum tíma hafi 7 eða 9 nýir erlendir aðilar sótt um ábyrgðir á fiskmörkuðunum, sem sé skilyrði fyrir því að fá að bjóða í fisk þar. Með því hefði vafalítið mátt koma í veg fyrir hópuppsagnir á fólki, því stór hluti af fiskinum fari óunninn á erlenda markaði.

„Bara meðan við erum að tala saman núna er búið að tilkynna um 65 tonn af þorski og 213 tonn af ýsu til útflutnings af óunnum fiski. Þær vinnslur, sem standa í þorsk- og ýsuvinnslu hefðu haft möguleika á að bjóða í þennan afla hefði hann verið settur inn á Fjölnetið.

Svo er annað sem hægt er að benda á en segja má að refsitollar séu á vinnslu á ferskum fiski hér á Íslandi. Tollar á fersk flök eru miklu hærri heldur en á óunnum heilum fiski. Það er ekki nóg með að gámaálagið sé fellt niður til að liðka fyrir útflutningi á óunnum fiski, heldur er okkur í raun refsað fyrir að vinna fiskinn hér heima. Sjávarútvegsráðherra sagði það reyndar á sínum tíma að yrði gámaálagið afnumið yrðu tollar á fersk flök lækkaðir. Það hefur ekki gengið eftir,“ segir Bjarni.

Sala á fiski á Fjölnetinu gengur þannig fyrir sig að sá sem hyggst flytja út óunninn fisk í gámum, leggur inn tilkynningu til næsta fiskmarkaðar um að til greina komi að selja fiskinn innanlands. Uppboðið stendur yfir í skamman tíma, kannski 15 mínútur, og þá leggja kaupendur inn tilboð á vefnum. Ekki er skylda að fara þessa leið og geta útgerðarmenn flutt fisk sinn óunninn og óvigtaðan utan án þess að gefa innlendum kaupendum kost á því að bjóða í hann.

Gámaútflutningur hefur aukizt töluvert síðustu árin. Árið 2003 fóru samtals 27.832 tonn utan á þann hátt, 43.430 árið eftir og í fyrra var magnið komið í 48.082 tonn. Útflutningur á þorski með þessum hætti hefur farið úr 5.000 tonnum 2003 í 7.650 á ýsu úr 8.200 í 19.600 tonn.