Ákveðin Sólveig Lára Kjærnested var Haukakonum erfið og hér reyna þær að stöðva hana. Sólveig Lára var markahæst hjá Stjörnunni með 8 mörk.
Ákveðin Sólveig Lára Kjærnested var Haukakonum erfið og hér reyna þær að stöðva hana. Sólveig Lára var markahæst hjá Stjörnunni með 8 mörk. — Morgunblaðið/Golli
TUTTUGU mínútna kafli eftir jafna stöðu þegar Stjörnustúlkur skora 14 mörk í 17 sóknum á meðan Haukar ná aðeins þrisvar að koma boltanum í netið gerði útslagið er liðin mættust í 8-liða úrslitum í Mýrinni í gærkvöldi.

TUTTUGU mínútna kafli eftir jafna stöðu þegar Stjörnustúlkur skora 14 mörk í 17 sóknum á meðan Haukar ná aðeins þrisvar að koma boltanum í netið gerði útslagið er liðin mættust í 8-liða úrslitum í Mýrinni í gærkvöldi. Þá munaði 11 mörkum og þjálfari Stjörnunnar leyfði sér að skipta öllum inná af varamannabekknum og þó Hafnfirðingar næðu að klóra í bakkann var 34:30 sigur öruggur.

Eftir Stefán Stefánsson

Mest áhersla var á varnir í byrjun og Stjarnan reyndi að halda uppi hraðanum í leiknum en gestirnir úr Hafnarfirði stóðust álagið, ekki síst fyrir sterka flata vörn sem aftur skilaði góðri markvörslu. Engu að síður skiptust liðin á forystu og aldrei munaði meira en tveimur mörkum. Í stöðunni 17:17 þegar tæplega fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik hrökk allt í baklás hjá Haukum, vörn Garðbæinga fór létt með að brjóta niður sóknarleik þeirra, sem aftur kveikti ekki bara neista heldur baráttubál í Stjörnustúlkum og áður en gestirnir höfðu áttað sig var staðan 31:20. Þegar síðan öllum var hleypt inná af varamannabekk Stjörnunnar sýndu Haukakonur klærnar og söxuðu á forskotið, en ekki nóg.

Kviknaði á vilja og karakter

„Ég man ekki eftir að hafa skorað 34 mörk síðan í september,“ sagði Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari Stjörnukvenna eftir sigurinn. „Við vorum óánægð með varnarleik okkar framan af en svo fórum við aftur í 3-2-1 vörnina, sem small saman og Florentina fór að verja eins og hún á að sér fyrir aftan þessa vörn. Þá fengum við fullt af hraðaupphlaupum, vorum skynsöm, fengum betri færi og klárum leikinn. Ég er ánægður með að sá hluti hafi skilað sínu, þegar kviknaði á viljanum og karakter. Við ætluðum að spila góðan varnarleik og halda líka hraðanum uppi því margir leikmenn Hauka eru í eldri kantinum. Við vildum láta reyna á það því við eigum að vera í betra standi þrátt fyrir álagið, sem verið hefur á okkur,“ bætti Aðalsteinn við, ánægður með að hafa hefnt fyrir tap í fyrra. „Það eru þrjú efnileg lið með okkur í úrslitum því deildin er mjög öflug og þú færð ekki léttan leik en við erum gríðarlega ánægð með að hafa slegið þetta reynslumikla Haukalið út. Þær unnu okkur einmitt í þessum leik í fyrra og við náðum að hefna fyrir það í kvöld.“

Florentina Stanciu, sem áður hét Grecu að eftirnafni, markvörður Stjörnunnar fór á kostum og varði 29 skot. Sólveig Lára Kjærnested sem var markahæst og Rakel Dögg Bragadóttir skiluðu sínu, eins og Birgit Engl og Ásdís Sigurðardóttir, sem voru líka sterkar í vörninni, sérstaklega voru þær harðar í að halda Ramune Pekarskyte, stórskyttu Hauka, niðri.

Hvað klikkaði ekki?

„Hvað klikkaði ekki?“ spurði Díana Guðjónsdóttir þjálfari Hauka til baka, spurð um hvað hefði farið úrskeiðis. „Þetta var bara lélegt hjá okkur. Við erum inni í leiknum en á tuttugu mínútna kafla skorum við þrjú mörk og það skilur liðin að, þó við höfum skorað ellefu mörk síðustu tíu mínúturnar. Ég vil spila hraðan leik en það getur vel verið að leikmenn mínir ráði ekki við það. Svo voru skot okkar léleg, það þurfti ekki að hafa mikið fyrir að verja þau og Florentina hefði eflaust getað gripið þau.“ Laima Miliauskaite var góð í marki Hauka og Erna Þráinsdóttir skilaði sínu. Það munaði um þegar Hanna G. Stefánsdóttir fór útaf meidd í fyrri hálfleik en Díana þjálfari sagði að maður kæmi í manns stað.