Ekki hræddir „Við erum ekkert hræddir við markaðinn. Hann gæti auðvitað verið líflegri en okkur hefur gengið það vel að ég held að það verði næg eftirspurn eftir hlutum í félaginu,“ segir Brynjólfur Bjarnason.
Ekki hræddir „Við erum ekkert hræddir við markaðinn. Hann gæti auðvitað verið líflegri en okkur hefur gengið það vel að ég held að það verði næg eftirspurn eftir hlutum í félaginu,“ segir Brynjólfur Bjarnason. — Morgunblaðið/Golli
Eftir Arnór Gísla Ólafsson arnorg@mbl.is STJÓRN Skipta, sem m.a.

Eftir Arnór Gísla Ólafsson

arnorg@mbl.is

STJÓRN Skipta, sem m.a. á Símann, hefur farið þess á leit við íslenska ríkið að skilyrði um skráningu félagsins í kauphöll OMX á Íslandi verði rýmkuð þannig að Skipti verði skráð á markað á fyrsta ársfjórðungi 2008 vegna þátttöku Skipta í söluferli á hlut í slóvenska símanum, Telekom Slovenije, þar sem ekki verði ljóst fyrr en í árslok hvort af kaupum Skipta á félaginu verður.

Samkvæmt skilmálum kaupsamnings við íslenska ríkið frá 5. ágúst 2005 skal bjóða til sölu ekki minna en 30% af þeim hlut sem var andlag kaupsamningsins fyrir árslok 2007.

Svar á allra næstu dögum

Ekki náðist í fjármálaráðherra vegna málsins en það er nú komið til formlegrar skoðunar hjá ráðuneytinu og þess að vænta að það muni afgreiða erindi stjórnar Skipta nú á allra næstu dögum.

„Það er ekkert slíkt í myndinni hjá okkur,“ segir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta spurður hvort hluti ástæðu þess að Skipti fari fram á seinkun séu óhagstæð skilyrði á markaði sem stendur. „Við erum alveg óbangnir við að fara á markaðinn og vorum búnir að ráðgera að fara inn á hann í haust. Við lögðum fram óskuldbindandi tilboð í slóvenska félagið 15. október. Ef við hefðum ekki verið valin til þess að halda áfram hefðum við gengið frá skráningu Skipta fyrir áramótin og ef við náum ekki þessum samningum þá förum við strax í þetta á fyrsta ársfjórðungi.“

Þórður Friðjónsson, forstjóri OMX á Íslandi, segir að það hafi verið mat kauphallarinnar að það væri í þágu fjárfesta á markaði að skráningu yrði frestað um tvo til þrjá mánuði. „Það er upplýsingaskortur við þessar aðstæður, í fyrsta lagi vegna þess að ekki liggur fyrir hvort Skipti kaupi umrætt fyrirtæki en eins vegna þess að meðan verið er að vinna í þessu söluferli er hægt að gefa takmarkaðar upplýsingar um fyrirtækið. Þess vegna teljum við það vera betra fyrir markaðinn að hinkra aðeins. Við hefðum ráðlagt hið sama við sams konar aðstæður hjá öðrum fyrirtækjum.“