Draumabíll Það er hinn geysilega vel heppnaði DB9 sem er draumabíll breskra ökuþóra en bílinn hönnuðu Ian Callum og arftaki hans Henrik Fisker. DB9 er útbúin tólf strokka sex lítra vél sem skilar 450 hestöflum.
Draumabíll Það er hinn geysilega vel heppnaði DB9 sem er draumabíll breskra ökuþóra en bílinn hönnuðu Ian Callum og arftaki hans Henrik Fisker. DB9 er útbúin tólf strokka sex lítra vél sem skilar 450 hestöflum. — Morgunblaðið/
Eftir Ingvar Örn Ingvarsson ingvarorn@mbl.

Eftir Ingvar Örn Ingvarsson

ingvarorn@mbl.is

Í nýrri könnun sem gerð var hjá fyrirtækinu DVLA, sem sérhæfir sig í einkanúmerum á bíla á Bretlandi, kemur fram að draumabíll breskra ökumanna er ekki Ferrari Enzo, Lamborghini Gallardo eða Porsche 911 heldur Aston Martin DB9.

Niðurstöðurnar ættu að sjálfsögðu ekki að koma neinum á óvart þar sem breskir ökumenn eru jafnan duglegir að hampa breskum bílum sem að þeirra mati skara fram úr í aksturseiginleikum og hönnun.

Það voru nærri þrjú þúsund og þrjú hundruð ökumenn sem tóku þátt í könnuninni og nefndi 501 ökumaður DB9 sem sinn draumabíl. Ekki nóg með það heldur varð stóri bróðir DB9, Vanquish, í þriðja sæti með 392 atkvæði, rétt á eftir ofurbílnum Bugatti Veyron.

Þjóðverjar virðast þó eiga sterk ítök í Bretlandi þar sem hinn ofursnyrtilegi Audi R8 komst í fjórða sætið og er ljóst að vinsældir bílsins eru miklar, ekki síst í ljósi þess að biðlistar eftir R8 eru nú taldir í árum en ekki mánuðum.

Hinir hefðbundnu reka lestina

Ferrari, Lamborghini, Porsche og Mercedes Benz eru svo þeir bílar sem á eftir koma en Ferrari náði reyndar öðru sæti á eftir Aston Martin þegar vinsælasta merkið er skoðað.

Sterka stöðu Aston Martin má að miklu leyti rekja til áhrifa móðurfyrirtækisins Ford og geysilega vel heppnaðrar hönnunar Aston Martin allar götur síðan DB7 kom á göturnar árið 1994.

Damian Lawson, markaðsstjóri DVLA, segir að upprunalega hafi hugmyndin kviknað út frá því að fyrirtækið var að velja bíla til að auglýsa einkanúmer. „Allir höfðu sína skoðun á því hvaða bíll væri draumabíllinn og því ákváðum við að kanna einfaldlega hvaða bíla og tegundir fólk vildi helst keyra,“ segir Lawson sem segist almennt ekki myndu slá hendinni á móti neinum af bílunum en þó þótti honum ekki verra að sigurvegarinn skyldi vera framleiddur í Bretlandi.