Haraldur (Halli) Hagan fæddist í Reykjavík 17. janúar 1930. Hann andaðist á hjúkrunarheimili í New Jersey í Bandaríkjunum 16. október síðastliðinn. Hann var sonur Lárettu og Haraldar Hagan gullsmiðs í Reykjavík. Systkini Halla eru fjögur, Eiríkur, f. 23. júlí 1921, er enn á lífi, einn systkinanna, og býr hann í Kanada. Hin voru Jóhannes, Svala og Svana, sem öll eru dáin. Einnig ólu foreldrar Halla upp systurson Haraldar, Þorbjörn, tók hann sér ættarnafnið Hagan. Hann fluttist ungur til Chicago.

Halli kvæntist skozkri stúlku og átti með henni son, en þau skildu.

Halli var barnungur þegar foreldrar hans féllu frá. Sautján ára að aldri fluttist hann til Bandaríkjanna. Gekk þar seinna í flugherinn og varð þar með bandarískur ríkisborgari.

Halli gekkst undir hjartaskurð fyrir átta árum og gekk ekki heill til skógar eftir það.

Útför Halla var gerð ytra og jarðneskar leifar hans voru brenndar og askan grafin við hlið legstaðar Svölu Burr, systur hans.

Minningarathöfn verður haldin í Englewood í New Jersey í dag.

Ein af þeim tilviljunum, sem ráða örlögum okkar, henti Halla. Einn dag var hersveit hans raðað upp í stafrófsröð eftir eftirnafni. Allir með eftirnafn frá A til H voru sendir til Bretlands sem herlögreglumenn en restin til Kóreu, þar sem margir þeirra féllu eða særðust. Sagði Halli Englandsvistina hafa verið skemmtilega. Starfið fólst í að halda uppi aga og reglu í bandarískrí flugstöð. Kunni hann margar sögur frá þeim tíma.

Eitt sinn bað hann herlækninn um smáskurðaðgerð, gott ef ekki að skera í burtu fæðingarblett. Læknirinn svaraði ónotum, sagðist ekki standa í svoleiðis tittlingaskít. Nokkrum dögum síðar var Halli kvaddur út vegna árekstrar.

Var þá þar læknirinn, undir áhrifum og með hjúkku í bílnum. Halli reddaði honum fyrir horn og dreifði málinu í skýrslunni. Hringdi svo nokkrum dögum síðar í lækninn og bar aftur upp erindið og var þá sagt að hann skyldi koma strax.

Eftir herþjónustu stundaði hans ýmis störf. Var lengi sem verktaki við álklæðningar og smíðar, en hann var bráðhagur bæði við trésmíðar og vélaviðgerðir.

Seinna vann hann hjá Coldwater Seafood í nokkur ár við skipamóttöku og fleira. Var hann þar mjög vel liðinn, jafnt af yfirmönnum sem samstarfsmönnum, fyrir árvekni og dugnað. Starfið krafðist mikillar útsjónarsemi og nákvæmni í allri pappírsvinnu og stóð alltaf allt eins og stafur á bók hjá Halla.

Halli kvæntist skozkri stúlku og átti með henni son en þau skildu. Hann var einhleypur eftir það.

Eftir að hann fór frá Coldwater og þar til hann missti heilsuna vann hann sem lagermaður hjá heildsölufyrirtæki og seinna sem skólabílstjóri og kom sér alls staðar vel. Hann var höfðingi heim að sækja og gamansamur. Hann kunni vel að meta góðan mat og þótti Kötu, konu minni, hann öllum öðrum gestum betri, því öllum réttum hrósaði hann og gerði góð skil.

Við hjartaskurðinn missti hann talsvert af skammtímaminni en langtímaminnið var óbilað og íslenzkan hrein og ómenguð. Þótti honum gaman að tala um árin hjá Coldwater og dvölina hjá Dóru heitinni Rúts, sendiherraritara, en hún leigði Íslendingum herbergi í húsi sínu í Hackensack í New Jersey. Þangað fluttist ég 1963 og kynntist þar Halla. Hélzt með okkur góð vinnátta síðan.

Halli var laglegur og sviphreinn maður og vel að manni á yngri árum. Sjúkdómar og elli settu auðvitað á hann mark en náðu ekki að buga hann andlega, hann var gamansamur til dauðadags.

Ég heimsótti hann fyrir nokkrum mánuðum og minnti hann á eitt og annað, sem á dagana hafði

drifið þegar við leigðum saman og seinna þegar við unnum saman og hló hann dátt að mörgu.

Jarðneskar leifar hans verða brenndar og askan grafin við hlið legstaðar Svölu systur hans. Maður hennar, Robert (Bob) Burr, var Halla mikil hjálparhella í hjúkrunarvistinni, heimsótti hann mjög oft og létti honum lífið á allan hátt. Á hann miklar þakkir skilið fyrir tryggðina.

Þeir, sem vilja minnast Halla, gera það bezt með því að senda nokkrar krónur í hans nafni til einhverra þeirra samtaka, sem styðja sjúka og aldraða.

Geir Magnússon.