Sigríður Ingvarsdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Frá Sigríði Ingvarsdóttur: "„ÞEGAR hátíð fer í hönd, búa menn sig undir hana hver á sína vísu. Slíkt er hægt að gera með ýmsu móti. Benedikt gerði það líka á sinn hátt.“ Á þessum orðum hefst Aðventa, ein þekktasta saga eftir skáldið Gunnar Gunnarsson."

„ÞEGAR hátíð fer í hönd, búa menn sig undir hana hver á sína vísu. Slíkt er hægt að gera með ýmsu móti. Benedikt gerði það líka á sinn hátt.“

Á þessum orðum hefst Aðventa, ein þekktasta saga eftir skáldið Gunnar Gunnarsson. Sagan fjallar um fjárhirði sem bauð byrginn náttúröflunum hamslausum frá aðventu – sunnudegi til annars í jólum til að bjarga nokkrum sauðkindum frá því að krókna eða falla úr hungri á fjöllum uppi. Þetta voru eftirlegukindur sem ekki rötuðu til byggða. En þær voru lifandi verur. Og honum fannst hann bera ábyrgð á þeim, enda þótt hann ætti enga þeirra sjálfur. Hans eigin höfðu skilað sér. Á þessum aðventugöngum hafði hann enga mannfylgd en Leó hundur hans og sauðurinn Eitill fylgdu honum. Á leiðinni á öræfin í öskrandi stórhríð tafðist hann við hjálparstarf á aðra viku. Þótt hann væri að þrotum kominn tókst honum að bjarga nokkrum kindum frá hungurdauða og hafði lagt sitt að mörkum til samfélagsins.„Þjónustan var innt af hendi“ segir í sögulok. Um þessar göfugu kenndir er Aðventa ein fegursti fagnaðarboðskapur kristinnar trúar. Í ætt við kærleikann sem er góðviljaður, langlyndur og leitar ekki síns eigin. Í heimi efnishyggju og sjálfselsku gleymast oft ákveðnar dyggðir í reynd þótt tamar séu tungu manna. Þrátt fyrir velferð þegar á heildina er litið þarf ekki að leita langt yfir skammt til að finna hjálparþurfendur sem við getum lagt lið. Caritas Ísland (hjálparstofnun kaþólsku kirkjunnar) hefur um árabil stutt við bakið á ýmsum hópum í samfélaginu sem eiga um sárt að binda og vakið athygli á málefnum þeirra. Á þessari aðventu sem nú fer í hönd búum við okkur undir að beina sjónum okkar að umsjónarfélagi einhverfra. Fyrir þrjátíu árum síðan tóku nokkrir áhugasamir foreldrar, aðstandendur einhverfra barna, höndum saman og kölluðu á samstarf við sérfræðinga til að miðla fræðslu til foreldra, kennara og annars fagfólks auk annarra til að umgangast einhverf börn og unglinga með þroska og hegðunarvanda. Hvernig auðvelda mætti þessum börnum að fóta sig í flóknu samfélagi með meira áreiti en áður hafði þekkst, en einnig með meiri möguleika að vinna með sín mál og bæta sig þjóðfélaginu til góða.

Styrktartónleikar Caritas verða í Kristskirkju við Landakot, sunnudaginn 18. nóvember kl. 16. þar sem landskunnir listamenn koma fram og gefa vinnu sínu í þágu þessa málaflokks. Efnisskráin spannar óvenjuvítt svið og þarna heyrast skærustu perlur tónbókmenntanna. Hægt er að leggja inn á reikning Caritas Ísland í Glitni 513-14-202500. Vertu með! Framlag þitt skiptir máli.

SIGRÍÐUR INGVARSDÓTTIR,

formaður Caritas á Íslandi.

Frá Sigríði Ingvarsdóttur